Góðar fréttir af norsk-íslenskri síld í Barentshafi

Síld. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir. Síld. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir.

Góðar fréttir af norsk-íslenskri síld í Barentshafi

Útlit er fyrir að þrír sterkir árgangar af norsk-íslenska síldarstofninum séu að alast upp í Barentshafi um þessar mundir. Þetta eru niðurstöður árlegs vistkerfisleiðangurs í Barentshafi sem er samvinnuverkefni Norðmanna og Rússa, og greint er frá m.a. á vef norsku Hafrannsóknastofnunarinnar, sjá nánar hér. Leiðangurinn var farinn á tímabilinu 10. ágúst til 7. október 2023 með þátttöku fjögra rannsóknaskipa.

Veiðistofnin líklegur til að vaxa frá árinu 2026

Mælingin á fjölda fiska af 2023 árganginum (0-ára) reyndist vera sú lang hæsta í tímaröðinni sem nær aftur til 1980. Þá bentu mælingar á fjölda eins og tveggja ára sílda til þess að þeir árgangar (2022 og 2021) væru stórir og voru báðir með næst mesta fjölda í tímaröðinni síðan 1999. Árgangurinn frá 2022 var einnig mældur stór sem 0-ára haustið 2022. Það eru því sterkar vísbendingar um að stórir árgangar af norsk-íslenskri síld séu að vaxa upp í Barentshafinu sem munu ganga inn í veiðistofninn á næstu árum. Að öllu jöfnu er síldin að ganga úr Barentshafi og inn í veiðistofninn við fjögra ára aldur en einnig við fimm ára aldur þegar árgangar eru stórir og vaxtarhraðinn minni. Gangi þessar horfur eftir gæti veiðistofninn því farið að vaxa frá og með árinu 2026.

Niðurstöður síldarmælinganna eru sérstaklega áhugaverðar og kærkomnar því síldarstofninn hefur verið á niðurleið undanfarin ár vegna slakrar nýliðunar. Veiðar umfram ráðgjöf hafa hraðað þeirri þróun. Ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins um afla á norsk-íslenskri síld fyrir árið 2024 var upp á 390 010 tonn og aflamark íslenskra skipa er 61 395 tonn af samkvæmt vef Fiskistofu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?