Fagur fiskur í sjó

Fagur fiskur í sjó

Gagnvirk miðlun og bætt upplýsingaþjónusta Hafrannsóknastofnunar.

Hafrannsóknastofnun býður til opins fundar þar sem kynnt verður ný framsetning gagna úr stofnmælingum botnfiska og nýr myndabanki stofnunarinnar. Fundurinn verður haldinn þriðjudaginn 20. janúar kl. 12.30 í höfuðstöðvum stofnunarinnar að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði og á netinu á Teams fundi, sjá tengil hér

Stofnmælingaleiðangrar

Á vegum stofnunarinnar er farið árlega í nokkra leiðangra til að afla upplýsinga um stofnstærð, útbreiðslu og líffræði botnlægra sjávardýra. Tveir stærstu leiðangrarnir eru stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (SMB), oft kallað togararall eða marsrall, og hefur verið farinn frá árinu 1985. Þá er einnig stofnmæling botnfiska að haustlagi (SMH), svokallað haustrall, sem hefur verið farinn árlega frá árinu 1996.

Gagnaraðirnar, eða tímaraðirnar, eru umfangsmestu líffræðilegu gögn um sjávarlífverur í hafinu kringum Ísland. Í þessum tveimur rannsóknaleiðöngrum hafa yfir 13 milljón fiskar verið lengdarmældir og yfir ein milljón fiskar teknir til nánari skoðunar, m.a. vigtaðir og náð í kvarnir til aldursgreininga. Nú er hægt að skoða á gagnvirkan hátt ýmsar upplýsingar helstu nytjategunda við Ísland sem veiðast í þessum leiðöngrum, eins og upplýsingar um fæðu, útbreiðslu, meðalþyngdir og vísitölur. Einnig er hægt að sækja öll gögn sem myndir og töflur byggja á. Stofnunin mun halda áfram að gera meira efni aðgengilegt með svipuðum hætti, en ýmiskonar efni og kynningar er að finna fyrir á vef Hafrannsóknastofnunar. Sjá nánar á sérstökum stofnmælingavef Hafrannsóknastofnunar, hér.

Skjáskot af stofnmælingavef Hafrannsóknastofnunar

Myndabanki fyrir almenning

Eitt af viðfangsefnum Hafrannsóknastofnunar er að fræða og miðla upplýsingum um lífríki hafs og vatna. Síðustu ár hefur verið unnið að því að gera upplýsingar og myndir af fiskum og lífverum sem lifa i sjónum við Ísland aðgengilegar almenningi. Á sjávarlífverusíðu Hafrannsóknastofnunar má finna umfjöllun um margar tegundir ásamt ljósmyndum.

Skjáskot af myndabanka stofnunarinnar.

Samhliða hefur myndefni verið safnað af lífverum, búnaði og starfseminni almennt. Hluti þessa safns er nú aðgengilegur almenningi. Þar er myndefni flokkað, merkt og tilbúið til niðurhals. Það er von okkar að myndabanki stofnunarinnar nýtist kennurum og nemendum á öllum skólastigum, fjölmiðlum, hagaðilum og almenningi. Verkefnið er enn í vinnslu og mun verða stöðugt bætt í safnið.

Með myndabankanum er það von Hafrannsóknastofnunar að hægt verði að auka þekkingu á lífríki hafs og ferskvatns. Sjá myndabankann hér.

Starfsfólk Hafrannsóknastofnunar vonast jafnframt til að geta átt uppbyggjandi samtal á fundinum um miðlun af rannsóknum, ráðgjöf og fræðastörfum um hvernig megi bæta hana.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?