Eggert Benedikt Guðmundsson hefur tímabundið verið settur í embætti forstjóra Hafrannsóknastofnunar en Þorsteinn Sigurðsson, fráfarandi forstjóri stofnunarinnar hefur óskað eftir leyfi út sinn skipunartíma sem er til marsloka næsta árs.
Eggert Benedikt er verkfræðingur og með MBA-gráðu frá IESE Business School í Barcelona. Hann var forstjóri HB Granda frá 2005-2012 og forstjóri N1 frá 2012-2015. Áður vann Eggert Benedikt um árabil við viðskiptaþróun hjá Philips Electronics í Belgíu og Bandaríkjunum.
Undanfarið hefur Eggert Benedikt unnið að málefnum sjálfbærrar þróunar sem forstöðumaður Grænvangs og nú síðast sem leiðtogi sjálfbærrar þróunar í forsætisráðuneytinu.
Eggert Benedikt hefur þegar hafið störf.