Bráðabirgðatölur fyrir stangveiði á laxi sumarið 2022

1. mynd. Stangveiði á laxi í íslenskum ám frá 1974 - 2022. Veiðinni er skipt í landaðan afla og veit… 1. mynd. Stangveiði á laxi í íslenskum ám frá 1974 - 2022. Veiðinni er skipt í landaðan afla og veitt og sleppt, annars vegar fyrir villtan lax og hins vegar fyrir hafbeitarlax. Tölur frá 2022 eru bráðabirgðatölur. Lárétt brotalína er árleg meðallaxveiði áranna 1974-2022, blátt er afli á villtum laxi, grænt er villtur lax sem er sleppt, rautt er afli á hafbeitarlaxi og fjólublátt er hafbeitarlax sem er sleppt.

Heildarfjöldi stangveiddra laxa árið 2022 var um 45.300 fiskar sem er um 24,2 % aukning frá árinu 2021 og um 8,5% yfir meðalveiði áranna frá 1974.

Heildarfjöldi stangveiddra laxa í íslenskum ám sumarið 2022 var um 45.300 fiskar (1. mynd), sem er um 8.800 fleiri laxar en veiddust sumarið 2021. Aukningin milli ára var því um 24,1% og var veiðin í sumar um 8,5% yfir meðalveiði áranna frá 1974-2021. Ef veiðin er skoðuð eftir landshlutum, þá var veiðin í þeim öllum meiri en sumarið 2021, nema á Vestfjörðum (2. mynd).

Við samanburð á langtíma þróun á stangveiði þarf að taka tillit til þess að laxar úr gönguseiðasleppingum eru viðbót við náttúrulega framleiðslu ánna, auk þess sem sumir fiskar veiðast oftar en einu sinni þegar veitt og sleppt er í stangveiði. Laxveiðinni er því skipt upp í laxa af villtum uppruna, laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og laxar sem er sleppt aftur í stangveiði (veitt og sleppt). Veiði á villtum laxi hefur síðustu sjö ár verið undir langtímameðaltali (1974-2021) með lágmarki árið 2019 þegar aðeins veiddust 24.078 laxar. Laxveiði í ám sem byggja veiði á sleppingum gönguseiða var alls um 10.500 laxar sumarið 2022 sem er ríflega 2.700 löxum meira en veiddist 2021, þegar 7.764 laxar veiddust.

mynd af stangveiðitölum eftir landshlutum

2. mynd. Stangveiði á laxi sumarið 2022, skipt eftir landshlutum. Á Suðurlandi er gerður greinarmunur á veiði á villtum laxi (blátt) og laxi úr hafbeitarám (rautt).

Þegar litið er til veiða á villtum laxi eingöngu (ekki úr seiðasleppingum), og leiðrétt hefur verið m.t.t. endurveiði laxa vegna veiða-sleppa, var heildar stangveiði villtra laxa árið 2022 um 27.800 laxar, sem um 21,7% aukning frá 2021 og 18,6% undir meðaltali frá 1974 (3. mynd).

mynd af stangveiði á villtum laxi

3. mynd. Stangveiði á villtum laxi í íslenskum laxveiðiám, þar sem leiðrétt hefur verið fyrir áhrifum veiða og sleppa og veiði í hafbeitarám er undanskilin.

Fjöldi þeirra laxa sem ganga í ár er annarsvegar háður fjölda seiða sem ganga úr ánum til sjávar og hinsvegar hversu margir lifa sjávardvölina af og skila sér til baka í árnar. Almennt hefur dánartala laxa í sjó í Norður Atlantshafi farið vaxandi, en ástæður þess eru ekki þekktar. Bent hefur verið á þætti eins og loftslagsbreytingar, meðaflaveiði, áhrif fiskeldis og breytingar á búsvæðum í fersku vatni.

Verið er að vinna við skráningu veiði úr veiðibókum og endanlegar tölur um laxveiði á Íslandi árið 2022 verða gefnar út þegar því verki lýkur.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?