Árbæjarlónið og lífríkið

Ljósm. Friðþjófur Árnason Ljósm. Friðþjófur Árnason

Í haust tók Orkuveita Reykjavíkur ákvörðun um að Árbæjarlón yrði tæmt til frambúðar og Elliðaár fengju að renna nánast óheftar í sínum upprunalegu farvegum undir Árbæjarstíflu. Þetta breytir eðli og ásýnd ánna á þessum kafla og talsverð umræða hefur skapast um hvort þær breytingar séu til góðs eða ills. Rök Orkuveitunnar voru m.a. byggð á ráðgjöf Hafrannsóknastofnun þar sem hagsmunir lífríkis Elliðaáa voru hafðir að leiðarljósi. Þetta er einnig í samræmi við vinnu sem er í gangi víða um heim, að fjarlægja gamlar stíflu sem þjónað hafa tilgangi sínum, til hagsbóta fyrir lífríkið og endurheimt fyrra ástands. Með endanlegri tæmingu Árbæjarlóns var stefnt að eftirfarandi markmiðum.

1) Fiskur (laxfiskar og áll) á greiða og óhindraða leið um Elliðaárnar allt árið.
2) Náttúrulegt vatnsrennsli og setframburður er tryggt.
3) Endurheimt búsvæða sem röskuðust við stíflugerð.
4) Auka líkur á bættum vatnsgæðum í ánum.

Með byggingu Árbæjarlóns og rafstöðvar í Elliðaám fyrir liðlega 100 árum var höfuðborgarsvæðinu tryggt rafmagn á upphafstímum raforkuframleiðslu á Íslandi. Þetta var mikil framför en hafði á sama tíma áhrif á lífríki Elliðaánna og þá einkum uppeldi og göngur fiska sem eiga lífsviðurværi sitt undir því að geta gengið á milli búsvæða í sjó og ferskvatni.

Lengi vel var raforkuframleiðsla allt árið og þá var Árbæjarlóni viðhaldið árið um kring. Þá tók fyrir fiskgöngur í ánni en til að viðhalda laxastofninum var lax fluttur upp fyrir stíflu á bílum. Eftir 1968 var orkuframleiðsla eingöngu frá október til maí og þá var Árbæjarlón fyllt í október og tæmt í maí.

Fyrir um 10 árum var raforkuframleiðslu í Elliðaánum endanlega hætt. Þrátt fyrir það var Árbæjarlón fyllt að hausti eins og gert var þegar rafstöðin í Elliðaám var starfrækt og lónið síðan tæmt að vori. Við tæmingu fer af stað talsvert af seti sem sest hefur á botn lónsins með tilheyrandi gruggi á svæði Elliðaáa neðan lóns og lækkun á súrefni árvatnsins. Árbæjarhluti lónsins var síðan fylltur aftur og hafður þannig yfir sumarið en Breiðholtsmegin rennur Breiðholtskvíslin í gegnum nokkuð þrönga loku yfir sumarmánuðina.

Laxfiskar sem hafa stærð og kraft geta komist þar um en smærri fiskur kemst líklega ekki. Í október er Árbæjastíflu aftur alveg lokað og lónið fyllt bæði Árbæjar- og Breiðholtsmegin. Þá lokast fyrir allar göngur fiska og að mestu fyrir náttúrulega setflutninga og tilfærslu annarra lífvera. Þetta fyrirkomulag við rekstur Árbæjarstíflu veldur óstöðuleika í farvegi árinnar og hefur að öllum líkindum haft neikvæð áhrif á lífríki árinnar m.a. með því að breyta um hálfum kílómetra af Árbæjar- og Breiðholtskvíslum í stöðuvatn.

Mikill munur er á tegundasamsetningu lífvera í stöðu- og straumvötnum. Þegar vatnsstöðu og rennsli er breytt tvisvar á ári með ýmist fyllingu eða tæmingu lónsins verður til óstöðugleiki sem dregur úr lífrænni framleiðslu. Mælingar sem gerðar voru þegar lónið var tæmt síðastliðið vor sýndu að súrefnismettun árvatnsins rétt neðan stíflu fór niður fyrir 10% við lok tæmingar (eðlileg mettun er í kringum 100%). Slík súrefnisþurrð er banvæn fyrir seiði og hrogn laxfiska og líklega skaðlegt fyrir margar aðrar lífverur ferskvatnsins.

Með tæmingu Árbæjarlóns er verið að færa hluta Elliðaánna í náttúrulegt horf og skila lífríki Elliðaánna búsvæðum sem tekin voru vegna orkuframleiðslu fyrir réttum 100 árum. Með því er stigið skref til að endurheimta fyrra lífríki sem vegur gegn þeim fjölmörgu framkvæmdum sem sífellt þrengja að lífríki Elliðaánna.

Á hátíðisdögum hafa Elliðaárnar og laxastofn hennar verið tekið sem dæmi um vistvænt umhverfi og hreinleika Reykjavíkurborgar. Mikilvægt er að tryggja að svo geti verið áfram til framtíðar.

Þegar ný orkuver eru byggð er það ferli í nokkuð föstum skorðum með ferlum Rammaáætlunar, umhverfismats og kynningum til almennings. Aftur á móti er ekki til mótað verklag um hvernig á að leggja niður orkuver og þá hvort og hvernig á að fjarlægja eða upphefja neikvæð umhverfisáhrif að hluta eða öllu leyti. Benda má á að mikilvægt er að slíkt ferli verði mótað varðandi virkjanir.

Í kjölfar umræðu um tæmingu Árbæjarlóns má sjá í minnisblaði Hafrannsóknastofnunar til Orkuveitu Reykjavíkur.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?