Kræklingur (Mytilus edulis). Mynd: Baldur Þórir Gíslason.
Í Fiskifréttum birtist í dag grein eftir Söru Harðardóttur, sérfræðing hjá Hafrannsóknastofnun og Stefaníu Ingvarsdóttur, MPA nema í opinberri stjórnsýslu í HÍ um kræklingarækt á Íslandi. Þar kemur m.a. fram að íslensk stjórnvöld hafa í tvígang samþykkt lagasetningar sem ganga gegn hagsmunum kræklingaræktar með því að fela í sér svo þungt regluverk að ljóst hefði mátt vera að greinin gæti ekki þrifist.
Íslenskir kræklingabændur hafa á undanförnum árum horfið ört af markaði með skel sína. Rannsókn sem ber heitið Örugg og arðbær kræklingarækt (Safe and profitable harvest of blue mussel) var styrkt af Matvælasjóði sem þverfaglegt samvinnuverkefni Hafrannsóknastofnunnar, Háskóla Íslands og Matís undir stjórn dr. Söru Harðardóttur, sérfræðings hjá Hafrannsóknastofnun.
Í MPA meistararitgerð Stefaníu, Þróun opinberrar stefnumótunar í málefnum kræklingaræktar 2000-2024 og áhrif hennar á greinina, var leitast við að svara tveimur rannsóknarspurningum. Annars vegar hvernig þróun stefnumótunar í málefnum kræklingaræktar hafi verið háttað á tímabilinu 2000-2024 og hins vegar hvaða áhrif lög nr. 90/2011 um skeldýrarækt hafa haft á kræklingarækt sem atvinnugrein frá því
að þau voru samþykkt árið 2011. Leiðbeinandi verkefnisins er Eva Marín Hlynsdóttir prófessor og deildarforseti stjórnmálafræðideildar HÍ.
Hér má sjá grein þeirra Söru og Stefaníu á vef Fiskifrétta.
Hér má finna tengil á meistararitgerð Stefaníu í Skemmunni.