Af eðlisháttum fiskanna - Gleðilegan dag íslenskrar tungu!

Af eðlisháttum fiskanna - Gleðilegan dag íslenskrar tungu!

Af eðlisháttum fiskanna er íslensk þýðing á kafla úr verki franska náttúrufræðingsins Georges Cuvier, sem birtist í Fjölni árið 1836. Textinn er sóttur í rit Cuvier um fiskafræði, Histoire naturelle des poissons (útg. í París 1828) og var þýddur af Jónasi Hallgrímssyni.

Talið er að Jónas Hallgrímsson hafi þýtt kaflann til að kynna íslenskum lesendum sýn á líf og hegðun fiska, sem var lítið þekkt á Íslandi og reyndar Evrópu allri á þeim tíma sem þýðingin var birt. Hún var hluti af öðru fræðsluefni sem hann ritaði eða þýddi í þeim tilgangi sýna fram á tengsl manns og náttúru og auka þekkingu á dýralífi. Hann skoðaði tilvist og hegðun fiska og vakti athygli á mikilvægi fiskiveiða fyrir íslenskt samfélag.

Georges Cuvier (1769–1832) var franskur náttúru- og líffræðingur sem er oft kallaður faðir steingervingafræðinnar (paleontology) og samanburðarlíffærafræðinnar. Hann lagði grunn að mörgum lykilhugmyndum í náttúruvísindum á 19. öld og hafði mikil áhrif á þróun líf- og jarðfræðinnar. Kristin trú mótaði sýn hans á náttúruna: hann taldi að lífið væri skapað af Guði og að tegundir væru óbreytanlegar. 

Jónas Hallgrímsson (1807-1845) er eitt þekktasta skáld Íslendinga en dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar, 16. nóvember ár hvert, og er minningu hans þannig haldið á lofti. En Jónas var ekki aðeins stórbrotið skáld heldur einnig mesti náttúrufræðingur sem Íslendingar áttu á fyrri hluta 19. aldar en áhuga sínum á náttúrufræði deildi hann með öðrum Fjölnismönnum. Hann stundaði nám í náttúrufræði í Kaupmannahöfn og hafði sérstakan áhuga á jarðfræði og líffræði. Þýðing hans á kaflanum Af eðlisháttum fiskanna endurspeglar fræðilegu áherslur Jónasar og áhuga hans á að kynna Íslendingum nýjar vísindalegar hugmyndir.

Þýðing Jónasar á kafla Cuvier kom með óvæntum og áberandi hætti fram í dagsljósið árið 1993 þegar Steinunn Sigurðardóttir gaf út bókina Ástin fiskanna, sem naut mikilla vinsælda. Bókin byrjar á tilvitnun í kaflann: „Ástin fiskanna er köld eins og sjálfir þeir.“ og er talin vísa til þess að fiskar, með sitt kalda blóð, eru tákn fyrir tilfinningar sem eru ekki sérlega líflegar og ást sem er fjarlæg og ófullkomin. Málsgreinin sem Steinunn vísar í í bók sinnir hljóðar svo:

„Ástin fiskanna er köld eins og sjálfir þeir; hún er ekkert annað en stundarþörf einstaklingsins. Það eru ekki nema fáeinar tegundir, sem maka sig; af öllum hinum fjöldanum vitja hvötu fiskarnir um eggin fremur en hinir blauðu. Þeir verða að gjöra sig ánægða með að frjóvga þau egg, sem þeir þekkja ekki móðurina að og sjá aldrei ungana úr. Einnig er móðurgleðin ókunnug flestum tegundum fiskanna; fæstir af þeim byggja sér hreiður eður annast unga sína. Í stuttu máli: allur þeirra búskapur er, að kalla, í hverju smáatviki öldungis gagnstæður fuglanna.“

xxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxx

AF EÐLISHÁTTUM FISKANNA.

EFTIR GEORGE CUVIER.

Inngangur (texti frá JH):

Cuvier var hálærður maður og stórvitur og hinn nafnkenndasti dýrafræðingur (Zoolog) á vorri öld. Hann var þýzkur að ætt og fór snemma til Frakklands, iðkaði þar vísindi og hafði á hendi mörg önnur störf. Hann hefir fyrstur manna skipt öllum dýrum, sem til eru, i fjórar höfuðgreinir, skádýr, lindýr, liðdýr, og hryggdýr, og var það svo heppileg aðgreining, að þó margt annað breytist, mun hún lengi standa óröskuð í dýrafræðinni og halda uppi nafni hans. Þetta brot er tekið úr riti hans, er hann kallar fiskafræði (Histoire naturelle des poissons), og prentuð er i Paris 1828; það er bezta og fróðlegasta bók, i 15 deildum, og lýsir meir en 5 þúsundum fiskitegunda. Cuvier fæddist 1769 og andaðist í Paris sumarið 1832].

(Texti Cuviers, þýddur af Jónasi:)

Meir en tveir [þriðju] hlutir yfirborðs jarðarinnar eru huldir djúpum sjó; stór og smá vatnsföll renna alls staðar um eyjarnar og meginlandið, og mikið land liggur undir flóum og stöðuvötnum. Þetta ríki vatn- anna er miklu víðara um sig en þurlendið og stendur ekki heldur á baki þess að fjölda og margbreytni dýranna, sem í því búa. Mikill hluti þess frumefnis, sem lifnað getur eftir eðli sínu, verður þurlendinu að grösum eða trjám, og grasbitirnir lifa á aldinunum, er þannig verða að dýrslegum líkama og hæfileg til fæðslu handa kjötætunum, en það er varla meir en helmingur landdýranna. Aftur í vötnunum, og einkanlega í sjónum, þar sem urtirnar eru miklu færri*), lítur það út, eins og allt sé kvikt eða viðbúið að lifna. Dýrin lifa þar, að kalla má, einungis hvert á öðru. Þar eru dýrin smæst og stærst; í hverjum smádropa felast yrmlingarnir þúsundum saman, og hefðu eilíflega dulizt, væru ekki sjónglerin, en hvalirnir eru fullum tuttugu sinnum stærri, en stærstu dýrin á þurlendinu. Þar er líka margbreytnin mest í öllu því sköpulagi, sem náttúrufræðingarnir skipta dýrunum í flokka eftir, og má svo kalla, að úr hverjum flokki finnist eitthvað í sjónum; því jafnvel af fuglunum, sem einkum hafa bústað í loftinu, er sumra sköpulagi svo varið, að þeir ala mestallan aldur sinn á bylgjum sjávarins . Margar spendýra-tegundir eru að eingöngu íbúar sjávarins, bæði selir, sækýr og rostungar, og þar á ofan öll hvala-kyn, sem ekki komast upp á landið, en hljóta þó löngum að fara ofan-sjávar til að ná andanum. Af skriðdýrum finnast þar skjaldbökur (Skild- padder), krókudilar, sæormar, og öll hin marg- breytta froska-ætt. Fjöldi skorkvikinda lifir alla ævi sína í vatninu; þó eru hin miklu fleiri, sem hefja sig í loft upp, skamma stund, einungis til að æxla þar kyn sitt og deyja, en höfðu þó miklu lengur alið aldur sinn í vatninu og verið þar maðkar og út- klekingar, áður en þau urðu að flugum. Í vatninu lifa framt að því öll lindýri, hringdýri, skelj- ungar og jarðfætlingar (zoophyta) og má svo kalla, að ekki nema einstaka tegundir þessara fjögra flokka hafi villzt upp á þurlendið. Fornir spekingar segja því, að allt, sem jörðin elur, finnist líka í sjónum, og þar að auki margt, sem hvergi sé annars staðar. (quicquid nascatur in parte naturæ ulla et in mari esse; præterque multa, quæ nusquam alibi". Plin., lib. IX., c. 11.).

Fiskarnir merkastir þeirra sem lifa í vötnum

Af öllum þeim fjölda, sem lifir í vötnunum, eru samt fiskarnir lang-merkastir. Enginn dýraflokkur ríkir þar svo auðsjáanlega; öngvum eru vötnin eins eðlilegur og ómissandi bústaður; að öngra fjölda, fögrum lit og margbreyttu sköpulagi dáumst vér annað eins; og, umfram allt, eru þeir mönnunum miklu nytsamari en aðrar sjóskepnur; og svo mikið kveður að fiskunum, að flest önnur sjódýri hafa fengið nafn eftir þeim. Það er því eigi sjaldgæft, að fornir rithöfundar, og jafnvel menn á vorum dögum, sem ekki eru náttúrufróðir, kalli allt saman fiska, bæði hvali, lindýr og skeljunga. Hægt er samt að greiða úr þessu nafnarugli, því fiskaflokkurinn er einn af þeim, sem hægast er að takmarka, með föstum og greinilegum einkennum.

Hjá náttúrufræðingum vorra daga er líka lýsingin á fiskunum svo skýr og greinileg sem orðið getur. Það eru dýr, sem hafa hrygg (dálk) og rautt blóð og draga með tálknum andann úr vatninu. Þessi lýsing er gjörð eftir reynslunni og nákvæmri skoðun allra þeirra einkenna, sem greina þennan dýra- flokk frá öðrum skepnum, en nákvæmni hennar sést líka á því, ef menn fara gagnstæðan veg í rannsókninni; því standi hún glöggt fyrir huganum og sé hún rétt skilin, má að nokkru leyti af henni sjá allt eðli þeirra dýra, er henni sambjóða. Af því fiskarnir hafa hrygg, hljóta beinin að liggja innan-í þeim; heili og mæna verða að vera í höfði og hrygg, og vöðvarnir utan á beinunum; útlimirnir verða að vera fjórir, fjögur helztu skilningarvitin á höfðinu, o. s. frv. Af því fiskarnir eru vatnsdýr eða lagardýr, það er að skilja: halda til í vökva, sem er þyngri og mótstöðumeiri en loftið, hlaut afli þeirra að vera svo niðurskipað, að þeir gætu einkanlega beitt því til að komast áfram. Sköpulagi þeirra er því svo háttað, að fiskurinn er svo rennileg skepna, sem nokkurt dýr getur verið, og vöðvaaflið mest aftur-i sporðinn; uggarnir eru aðdáanlega lagaðir til sunds; roðið er hált eða hreistrað og hefir hvorki hár né fiður. Alt þetta lýtur að hinum sama tilgangi.

Minna fjör í fiskum en fuglum

Af því þeir draga andann í vatninu, þ.e. nota einungis súrefnið (Ilten), sem finnst í því lofti, er ætið er sameinað vatninu, til að halda blóðinu svo, að það geti runnið, hlýtur blóð þeirra að vera kalt; og þar af leiðir aftur, að fjörið í þeim er minna, tilfinningin ónæmari, og hræringin daufari en í fuglunum og spendýrunum. Þó heilinn sé áþekkur, hlýtur hann að vera þar eftir minni, og skilningarvitunum svo háttað, að þau naumast geti hrifið á hann kröftuglega. Satt er það einnig, að fiskarnir eru allra hryggdýra óviðkvæmastir. Af því þeir lifa ekki í loftinu, sem veldur því, að hljóðin geta orðið til, eru þeir líka raddlausir, og tilfinningar þær, sem röddin vekur eða viðheldur, eru þeim með öllu ókunnar. Augun eru grafkyr í höfðinu, andlitið varla nema bein, uggarnir liðalausir og bærast hvergi, nema upp-við búkinn svo þeim er fyrirmunað að breyta sínu yfirbragði og láta í ljósi tilfinningar sínar. Eyrað liggur öldungis inn-i hauskúpunni og hefir hvorki hlust eða kufungsgöng, en er að eins búið til úr fáeinum belgjum og pípum, og megnar því varla að gera mun á hæstu hljóðum; enda hafa þeir lítið með heyrnina að gjöra, fyrst að þeim er ætlað að lifa í ríki þagnarinnar og eintóm kyrð er umhverfis þá. Eins er með sjónina, að hún kæmi fiskunum að litlu haldi í hyldýpinu, sem þeir lifa í, ef hávaðinn af þeim hefði ekki eignazt svo stór augu, að dimman bættist upp með því. Samt geta þeir varla neitt rennt augunum, og því síður dregið þau sundur og saman, eftir því sem fjarlægð hlutanna krefur. Regnbogahimnan í auga fiskjarins er óumbreytt og augasteinninn jafn-stór, hvernig sem á birtunni stendur. Þetta auga vöknar ekki af tárum og engin eru augnalokin að hlífa því. Augað í fiskinum er ekki orðið nema dauf eftirmynd þess hins fagra og fjöruga skilningarvits, sem prýðir hinar æðri dýrategundir.

Af því fiskarnir geta ekki aflað sér fæðslu með öðru móti en elta skepnur á sundi - en þær fara undan eins og þær orka mest - og geta ekki náð þeim með öðru móti en að gleypa þær í sig, þá væri næmur smekkur þeim að öngvu gagni, þótt hann væri þeim áskapaður; enda er það auðséð á tungunni, að hún er eins sljó og geta mátti nærri á brúkunarleysinu, því hún er næstum óhræranleg og annaðhvort ekki nema bein eða þakin tanngöddum, og sinarnar, sem að henni liggja, eru bæði fáar og veikar. Ekki þurfa fiskarnir heldur eins oft á nösunum að halda, eins og hin dýrin, sem anda í loftinu og draga sífellt að sér margs konar ilmtegundir inn í gegnum nasirnar. Hvað tilfinninguna snertir, þá gætir hennar varla um búkinn fyrir hreistrinu og hörkunni á ugg- unum, svo hún er næstum öll flúin fram á varirnar, sem eru sjálfar á margs konar fiskitegundum ekki nema bein, bæði harðar og tilfinningarlausar. Þetta sýnir, að það eru fá skýr og greinileg áhrif, er skilningarvit fiskanna geta á móti tekið; hlutirnir í kringum þá bera fyrir þá eins og í þoku; harla fátt hafa þeir til skemmtunar, og utan-að þurfa þeir ekki að óttast önnur bágindi en þau, sem geta orsakazt af meiðslum. Fyrir utan riðtímann stunda þeir ekki annað en stilla hungur sitt; að gleypa í sig er allt og sumt, sem þeir geta haft fyrir stafni, þegar þeir eru ekki að æxla kyn sitt; að þessu einu saman miðar, að kalla má, allt þeirra sköpulag, og lögunin á sporði og uggum; þeirra sífelld iðja er því annaðhvort að leita sér bráðar eður flýja óvini sína. Eftir þessu velja þeir sér bústaði; allra þeirra sköpulag, svo sem það er margbreytt, lýtur að hinu sama; og eins er varið þeirri lítils háttar hagleiksfýsn og ýmiss konar veiðitólum, sem eru meðsköpuð sumum fiskitegund- um: angarnir á blágómunni og rafurhögg berhryggjarins eru til einskis annars. Umbreyting hita og kulda fær ekki heldur mikið á fiskana, bæði vegna þess, að hún er minni niðr-í vatninu, sem þeir lifa í, en hjá oss upp-í loftinu, en þó einkum hins, að eðlilegur hiti fiskjarins er enginn að kalla, en líkami þeirra hitnar allur og kólnar rétt eins og það er í kringum þá. Einnig eru missiraskiptin miður ráðandi flutningum þeirra og tímgun heldur en spendýranna og einkanlega fuglanna. Margar fiskitegundir hrygna á veturna, en síldin fer á haustin til útsuður- stranda Norðurálfunnar, til að leggja þar hrognum og svilum. Í norðurhöfunum fjölga líka fiskarnir aðdáan-lega; því þó að tegundirnar séu þar ekki svo fjarska- margar, er fjöldi einstaklinganna í hverri tegund þeim mun geysilegri, og hvergi nokkurs staðar er neitt í hafinu, er komist í samjöfnuð við þau ógrynni síldar og þorska, sem dregur á hverju ári fjölda af skipum undir hinar norðlægu strendur.

Ástin fiskanna er köld eins og sjálfir þeir

Ástin fiskanna er köld eins og sjálfir þeir; hún er ekkert annað en stundarþörf einstaklingsins. Það eru ekki nema fáeinar tegundir, sem maka sig; af öllum hinum fjöldanum vitja hvötu fiskarnir um eggin fremur en hinir blauðu. Þeir verða að gjöra sig ánægða með að frjóvga þau egg, sem þeir þekkja ekki móðurina að og sjá aldrei ungana úr. Einnig er móðurgleðin ókunnug flestum tegundum fiskanna; fæstir af þeim byggja sér hreiður eður annast unga sína. Í stuttu máli: allur þeirra búskapur er, að kalla, í hverju smáatviki öldungis gagnstæður fuglanna.

Loftbúanum er veitt að líta yfir viðlendið og heyra hvert hljóð og hverja rödd, sem fyrir ber; lika hefir hann hljóðin eftir. Og þó að nefið sé hart og búkurinn hulinn fjöðrum til að standast kuldann hátt upp-í loftinu, þá er tilfinningin í klónum eins næm og hún getur orðið. Fuglinn nýtur yndis af hjónabandinu og föðurástinni og rækir með hugrekki skyldu sína; hjónin aðstoða hvort annað og verja í sameiningu unga sína; hreiðurgjörðin er snilldarverk, og á tæk- um tíma keppast þau við að vinna að henni bæði samt. Meðan móðirin ungar út eggjum sínum með aðdáanlegu þolgæði, situr bóndinn hjá, og syngur þá löngum til að stytta henni stundir, og er nú ekki óblíðari í hjúskapnum en hann var fjörugur í tilhugalífinu. Séu fuglar teknir, fá þeir ást á eiganda sínum, hlýða honum og vinna það, sem hann leggur fyrir þá. Fálkinn fer á veiðar eins og hundur og kemur aftur sjálfkrafa úr háa lofti, þegar hann heyrir rödd sins lánardrottins. Sumir fuglar tala mannamál, og það er með naumindum, menn fá af sér að segja, þeir hafi ekki nokkurs konar skynsemi.

Hverjar tilfinningar mundi fegurð litanna geta kveikt í þessum fáráðlingum?

Íbúi vatnanna tekur ekki tryggð við menn; hann þekkir öngva ást og ekkert mál; hann veit hvorki, hvað það er að eiga konu og börn, né að byggja sér hæli. Þegar hættan dynur á, felast fiskarnir undir klettum og hraunbrúnum, eða þeir steypast niður hyldýpið; líferni þeirra er þegjandi og breytingalaust; eintóm græðgin rekur eftir þeim, og hún ein veldur því, að þeim verður kennt að hlýða nokkrum bendingum. En þó að fiskarnir njóti fárra unaðsemda, eru þeir samt gæddir alls konar fegurð og skrauti; sköpulag þeirra er margbreytt og fagurt, og litirnir hreinir og aðdáanlega skrautlegir. Þá vantar ekkert til þess, mennirnir skuli taka eftir þeim, og að vísu lítur það út, eins og skaparinn hafi einmitt ætlazt svo til. Til hvers hafa fiskarnir þegið fegurð málmanna og alls konar gimsteina, - sem á þeim ljómar? Til hvers hafa þeir þegið friðarbogans skínandi litu, sem leiftra af þeim í böndum og blettum og bylgjóttum línum, með óumræðanlegri fegurð og reglu í samblandi lit- anna? Til hvers hafa þeir þegið allt þetta, sem með naumindum geta grillt hver til annars í djúpinu, þar sem þeir búa, - því örðugt á ljósið með að komast þangað niður; og enda þó þeir sæju hver annan, hverjar tilfinningar mundi fegurð litanna geta kveikt í þessum fáráðlingum?

Mannkynið hefir líka á öllum öldum gefið mikinn gaum að þessum dýraflokki. Af því fiskarnir eru svo ágætlega fallnir til manneldis, eru þeir líka einhver fyrstu dýrin, sem mennirnir fóru að ofsækja og veiða. Margar fiskimannaþjóðir eru miður siðaðar en hirðaraþjóðirnar, og meðal hinna menntuðustu þjóða er það víða fjöldi manns, sem lifir eingöngu á sjávaraflanum. Eyjamenn og strandbyggjar hafa njósnir af hinum margbreyttu tegundum, sem felast milli fiskanna, þar sem þær eru á ferð. Svona gjöra fiskarnir sitt til að bæta úr nauðsynjum heilla þjóða, og á hinn bóginn eru þeir einhver hin drýgsta óhófs- krás sælkera og ríkispaura. Þegar Rómaborg var orðin sú hít, sem gleypti í sig auðæfi veraldarinnar, vörðu menn þar svo miklu fé til þess konar óhófs, að það er ótrúlegt. Menn létu þar gjöra sér afar- mikil fiskivötn, bæði handa sjávar- og vatna-fiski, og skepnurnar í þau voru sóttar vitt um heim; síðan voru fiskarnir lifandi bornir á borð, og höfðu menn það til skemmtunar, að sjá, hvernig þeir skiptu lit- um, meðan dauðinn var að síga á þá. Það lítur líka svo út, að með kostgæfni sinni og fyrirhöfn hafi menn í þá daga verið búnir að temja margan fisk miklu betur en líkindi mættu virðast eftir eðli þeirra. Sumir fiskar þekktu þá sinn lánardrottinn og áttu sér nöfn, og gegndu þeim eins og hundar; að minnsta kosti geta þess nokkurir rithöfundar, en satt er, að þeir geta þess svo sem eins og furðulegs dæmis, hverju menn fái til vegar komið með viðleitni sinni og kostnaðarsamri fyrirhöfn.

Mikið af háttum fiskanna dylst fyrir oss í djúpinu

Að því litla, sem menn vita um lífernisháttu fiskanna, hafa menn komizt með því móti, að gefa að þeim gætur í fiskipollunum og safna saman sög- um og athugasemdum fiskimanna, en líklegt er samt, að mikið af háttum þeirra dyljist fyrir oss í djúpinu, sem þeir lifa í lengst ævi sinnar. Sumir fara þeir einförum, aðrir halda hópa; sumir hlaupa víða um sjóinn og sumir eru kyrfiskar og fara aldrei af blettinum, sem þeir eru gotnir á. Margar fiskitegundir taka sér líka aðsetursstað eftir því, sem botninn er lagaður. Sumir lifa einungis við grýttar strendur, sumir hvergi nema út-i hreinum sjó; sumir halda helzt til þar sem sjórinn er kyrr og gruggugur, eða þeir grafa sig niður í sand og bleytu, og deyja þá ekki, þó sjórinn falli út af þeim, á meðan leirinn er votur, sem þeir liggja í. Kyrðin á þeim sumum, til að mynda skötum og blágómum, er öldungis gagnstæð ofurflýti hávaðans af þeim, einkum sumra makrílanna (Makrel; scomber). Til eru þær fiskitegundir, til dæmis álar, sem geta verið nokkra stund á þurru, og skríða þá um ströndina; og það er sagt um há-farann (anabas), að hann brölti upp í kollana á trjánum og hýrist svo í smápollum, þar sem rigningavatnið hefir sezt fyrir niður-á milli blaðanna. Flugfiskarnir eru svo eyruggabreiðir, að þeir geta tekið sig á loft og flogið góðan spöl. Helzta íþróttin, sem þessi dýra- flokkur lætur í ljósi, er þó að líkindum aðferð skotfiskanna (toxotes og chaetodon); þeir eru indverskir og veiða sér flugur til fæðslu með þeim hætti, að þeir hæfa þær með vatnsdropum, sem þeir geta spýtt úr sér góðan spotta. - En allur þessi mismunur á lifernisháttum fiskanna er einungis kominn undir margbreytni þeirra sköpulags, og það væri til ónýtis, að ætla sér að gjöra grein fyrir honum án þess að rannsaka út í hörgul, hvernig allt sé lagað i líkama fiskjarins, og í hverju þeir séu frábrugðnir öðrum hryggdýrum, og hvernig þessi mismunur breytist á marga vegu í ættum, kynjum og tegundum.

Niðurlag (athugasemd JH um textann og tenging við Ísland)

Svona lýsir Cuvier fiskunum, og býst ég við, mörgum muni þykja fróðleg saga hans, og muni þeir girnast að heyra nokkuð skýrt frá sköpulagi og eðli einstakra tegunda, og þá einkum þeirra, sem lifa í Íslandshöfum, eða ám og vötnum þar á landi. En því er miður! það er ekki hægt sem stendur að semja islenzka fiskafræði, svo það verði nokkur mynd á henni, því við vitum of lítið um flestar og alls ekkert um sumar tegundir fiskanna okkar, og sízt það, sem mest er um varðandi, til að mynda fiski- göngurnar og riðtímann og fæðslu ýmsra tegunda, og margt annað því um líkt. Einum manni vinnst ekki aldur til að athuga sjálfur háttalag allra dýrtegunda, svo hann geti skýrt frá því greinilega, þó ekki sé í stærra landi eða auðugra að tegundum en Ísland er. Hann verður að nota reynslu annara og bera saman margra manna sögusögn, til að geta greint sem sannast frá öllu, er hann hefir ekki sjálfur séð. Í þessu skyni bið ég alla góða menn á Íslandi, sem eiga heima við sjó eða silungsvötn og hafa tekið eftir eðlisháttum dýranna, sem í þeim búa, auðsýna mér þá góðvild, að fræða mig um allt, sem þeir geta og þessu efni víðvíkur; vildi ég helzt æskja, að þeir hver um sig bæru fyrir sig reynslu sjálfra sín og ekki annað, og nefndu sem flesta atburði til sönnunar málinu. Það er og bæn mín, ef sjómenn ná fábreytilegum fiski eða einhverri sjókind, sem þeir vita ekki deili á, að láta hana í brennivín og búa vel um, og senda mér hingað til Kaupmannahafnar. Bið ég þessa fyrir dýrasafnið hér í bænum, og er það sjálfsagt, að þeir fá fyrirhöfn sína og tilkostnað borgaðan. En sé dýrið of fyrirferðamikið til þess það verði sent með þessu móti, er mér þökk á, að sjá því lýst nákvæmlega að allri stærð og sköpulagi, og fremur öllu að fá úr þvi beinin, og einkum þau úr höfðinu, svo ósködduð sem orðið getur. Þá er enn eitt, er ég mikillega vildi fræðast á, og það eru flutningar fuglanna, hve snemma þeir fara og koma í hverri sveit á haustum og vorum. Bið ég landa mína að gefa þessu gætur og rita mér það greinilega, og nefna mánaðardag í hvert skipti og veðráttufar og annað þar að lútandi, þegar þeir verða varir við þess háttar ferðalög. Skal ég þá nota allar þær skýrslur, er mér berast þannig í hendur, eins og ég hefi bezt vit á; og getið skal verða þeirra manna, sem með einhverju móti heppnast að auðga hina íslenzku dýrafræði. Væri það helzt vegur, ef margir legðust á eitt, að Ísland þyrfti ekki með tímanum að standa mjög langt á baki annara landa í þessari grein.

 

Athugasemd frá Hafrannsóknastofnun:
Texti þessi var vistaður á tölvu sem myndir (png) af tímarit.is úr bókinni Jónas Hallgrímsson: Smágreinar dýrafræðislegs eðlis, ævissaga og fleira sem gefin var út af Ísafoldarprentsmiðju, útgáfuár 1929-1937. Textinn var sóttur í myndirnar með tækni sem heitir sjónræn stafagreining (e. optical character recognition - OCR). Leitast var við að hafa textann eins nálægt upprunatextanum, svo sem með því að halda inni bandstrikum sem ekki eru vanaleg í nútímaíslensku, en þau sem vilja skoða upprunalega textann geta gert það hér. Textinn í bókinni hafði að einhverju leytið verið uppfærður til nútímalegra máls sé miðað við frumútgáfu á þýðingu Jónasar.
Í þessari birtingu þýðingarinnar er öllum neðanmálstextum sleppt sem og tilvísunum í þá texta. Millifyrirsagnir eru á ábyrgð Dóru Magnúsdóttur, samskiptastjóra Hafrannsóknastofnunar, sem vann textann og var þeim bætt við til að gera textann læsilegri.
Tilgangurinn með þessari birtingu er fyrst og fremst að vekja athygli á bráðskemmtilegum texta Cuvier og sýn hans sem vísindamanns snemma á 19. öld á fiskafræðin. Um leið er tilgangurinn að heiðra minningu Jónasar á degi íslenskrar tungu.
Tilgangurinn með birtingunni er ekki að veita nákvæma sagnfræðilega innsýn í textann og því voru tekin skáldaleyfi með millifyrirsagnir og neðanmálstexta sleppt. Misritun og frávik frá upprunalega textanum skrifast á DM.
Myndin af Jónasi Hallgrímssyni með fisk á öxlinni er unnin í gervigreind, með hliðsjón af þekktri mynd af Jónasi. Teiknaðar myndir eru fengnar frá rarefishprint.com og birtust fyrst í bók Cuvier um sögu fiskanna. 

Heimildir: 
Jónas Hallgrímsson.is
Wikipedia
Timarit.is (ýmis rit)


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?