Guðmundur J. Óskarsson og Hildur Pétursdóttir flytja erindi á málstofu

Guðmundur J. Óskarsson og Hildur Pétursdóttir flytja erindi á málstofu

Á málstofu Hafrannsóknastofnunar þann 8. desember flytja Guðmundur J. Óskarsson og Hildur Pétursdóttir sérfræðingar á Hafrannsóknastofnun erindi sem nefnist: Áskoranir í rannsóknum á vistkerfi Austurdjúps. Málstofa hefst kl. 12.30 í fyrirlestrarsal á fyrstu hæð að Skúlagötu 4. Málstofu verður streymt í gegnum YouTube síðu Hafrannsóknastofnunar, https://www.youtube.com/channel/UCirTCP_aKFKz8LMoFoxWGbA
Verið velkomin!
 

Ágrip

Rannsóknir á umhverfi og vistkerfi Austurdjúps og nærliggjandi hafsvæða sýna að miklar breytingar hafa átt sér stað síðustu tvo áratugi. Þetta stóra hafsvæði sem einkennist af hárri framleiðni hefur ekki einungis mikla vistfræðilega þýðingu heldur einnig mikla efnahagslega þýðingu sem eitt aðalfæðusvæði þriggja stærstu uppsjávarfiskistofna í norðaustur Atlantshafi, þ.e. kolmunna, makríls og norsk-íslenskrar síldar. Meðal þeirra þátta sem hafa verið að breytast er hitastig sjávar sem hefur hækkað, átustofnar hafa minnkað, lífmassi uppsjávarfiskistofna hefur aukist og útbreiðsla, vöxtur og þyngd uppsjávarfiska hafa tekið breytingum. Í erindinu verða kynntar niðurstöður fjölmargra rannsókna sem hafa sýnt þessar breytingar, þær skoðaðar í samhengi og ályktanir dregnar um hvar sé einkum þörf á frekari rannsóknum á næstu árum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?