Ragnar Jóhannsson flytur erindi á málstofu

Ragnar Jóhannsson flytur erindi á málstofu

Á málstofu Hafrannsóknastofnunar fimmtudaginn 31. janúar mun Ragnar Jóhannsson sviðsstjóri fiskeldis- og fiskiræktarsviðs stofnunarinnar kynna rannsóknir á kynhlutleysingu (e. gender neutralisation) við framleiðslu á eldisbleikju og eldislaxi. Ef vel tekst til væri mögulega hægt að nýta aðferðina til að ala upp ófrjóa fiska í eldi. 

Málstofan verður haldin í fyrirlestrarsal á 1. hæð Skúlagötu 4 og hefst kl. 12:30 og er öllum opin. Málstofunni verður jafnframt streymt á YouTube rás stofnunarinnar.

Snemmkynþroski hefur mjög óæskileg áhrif á vöxt og vörugæði eldisfisks. Þetta á sérstaklega við um eldi á bleikju. Varðandi eldi á laxi í opnum kvíum er hætta á erfðablöndun við villta stofna þröskuldur. Æskilegt væri að geta framleitt fisk sem ekki fer í gegnum kynþroska.

Hafrannsóknastofnun hefur hafið samvinnuverkefni með Maryland University (Yonathan Zohar og Ten-Tsao Wong) við þróun á markaðshæfum aðferðum sem ákveðið hefur verið að kalla kynhlutleysingu („hánun“) við framleiðslu á eldisbleikju og eldislaxi. Þessari kynhlutleysingu er náð fram með genaþöggun á byrjunarstigum fósturþroska. Aðferðin fellur ekki undir erfðabreytingar enda erfðaefni ekki snert með neinum hætti heldur er tjáning mRNA, sem stýrir smíði próteins tengdu þroska kynfruma, þögguð. Þöggunin næst með því að nýta aðferð sem kallast Vivo-morpholino en hún byggir á því að koma hvarfefnum inn í frumur. Ef tekst að þróa markaðshæfa aðferð mun hún hafa mikla fjárhagslega þýðingu fyrir framhald bleikjueldis og laxeldis á Íslandi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?