Nýr sviðsstjóri botnsjávarsviðs - Jónas P. Jónasson

Jónas P. Jónasson með Vatnajökul í bakgrunni, um borð í rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni HF 30 í … Jónas P. Jónasson með Vatnajökul í bakgrunni, um borð í rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni HF 30 í stofnmælingaleiðangri humars með neðansjávarmyndavélum.

Jónas Páll Jónasson, Ph.D. hefur tekið við starfi sviðsstjóra botnsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar. Jónas gaf okkur innsýn í mikilvægt starf sviðsins og áherslurnar.

Alltaf að læra eitthvað nýtt

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á nýjum aðferðum við rannsóknir og vöktun sem og þróun á veiðiaðferðum. Umhverfið okkar í sjónum við Ísland getur og hefur verið mjög hvikult.

Það er að mínu mati mjög spennandi og áhugavert að fylgjast með, fá samhengi í og vakta breytingar á stofnum og samfélögum.“

Tryggjum gott starf áfram

Botnsjávarsvið sinnir vöktun og rannsóknum á botnlægum tegundum, allt frá okkar helstu nytjategund þorskinum til viðkvæmra og flókinna búsvæða.

„Við erum búin að vera í varnarbaráttu nokkuð lengi. Bæði hvað varðar almennar rannsóknir og einnig vöktun margra minni stofna. Á sama tíma hafa kröfur samfélagsins og áhugi á vannýttum stofnum aukist.

Stór verkefni bíða sviðsins við skipulagningu nýtingar við Íslands, eins og áherslur stjórnvalda um friðun 30% hafsvæða fyrir árið 2030. Þessi verkefni passa vel innan þess ramma sem Hafrannsóknastofnun hefur verið að sinna, eftir bestu getu. Vonandi getum við eflt starfsemina á þessum sviðum, bæði með auknu fjármagni og styrkjafé.“

Auðlindir hafsins eru þjóðinni enn gríðarlega mikilvægar og forsenda farsældar okkar. Jónas Jónasson, sviðstjóri botnsjávarsviðs.

Deilum þekkingunni og hvetjum til frekari rannsókna

Jónas skynjar almennt mikla velvild og forvitni frá almenningi og sjávarútvegnum gagnvart starfi Hafrannsóknastofnunar. Hafrannsóknastofnun gæti svalað forvitni almennings og sjávarútvegsins betur með bættri miðlun efnis og upplýsinga. 

„Nú er einmitt áratugur hafs og hafrannsókna hjá Sameinuðu þjóðunum. Þar er markmiðið að vekja fólk til vitundar um hafið, efla rannsóknir og verndun hafsins. Auðlindir hafsins eru þjóðinni enn gríðarlega mikilvægar og eru forsenda farsældar okkar.“

Hafið er hornsteinn alls lífs á jörðinni og framtíðarinnar. - Yfirlýsing hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, júlí 2022

„Á næsta ári tökum við á móti nýju hafrannsóknaskipi, afmælisgjöfin frá 100 ára fullveldisafmæli þjóðarinnar, sem kemur í stað öldungsins Bjarna Sæmundssonar sem hefur þjónað þjóðinni afskaplega vel í 53 ár. Það eru spennandi og áhugaverðir tímar framundan.“

Nánar um Jónas

Jónas hefur starfað á botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar frá 2011. Þar hefur hann borið ábyrgð á og sinnt rannsóknum og stofnmati fyrir humar, hörpudisk og sæbjúgu. Jafnframt hefur Jónas tekið að sér ráðgjöf og rannsóknavinnu fyrir aðra hryggleysingja ásamt rannsóknum á bolfiskum.

Jónas hefur umsjón með og kennir á stofnmatslínu sjávarútvegsskóla GRÓ-FTP sem hefur aðsetur á Hafrannsóknastofnun.

Ritaskrá Jónasar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?