Nýjar rannsóknaniðurstöður um kolmunna

Kolmunni. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir. Kolmunni. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir.

Tvær nýjar vísindagreinar unnar undir forystu Háskóla Íslands í samstarfi við Hafrannsóknastofnun leiða í ljós flókna stofnagerð kolmunna í Norðaustur-Atlantshafi. Stofninn er blanda af mörgum undirstofnum, sumir svæðisbundnir og aðrir víðförlir. Þetta hefur afleiðingar fyrir fiskveiðstjórnun og gæti verið mikilvægt fyrir afkomu tegundarinnar á tímum loftlagsbreytinga.

Kolmunni (Micromesistius poutassou) er ein algengast fiskveiðitegundin í Norðaustur­-Atlantshafi. Hann gegnir lykilhlutverki í fæðukeðju sjávar þar sem hann flytur orku frá svifdýrum til rándýra á hærri fæðuþrepum, svo sem þorsks, makríls, sjófugla og sjávarspendýra. Á sama tíma er kolmunni undirstaða umfangsmikilla veiða, þar sem ársaflinn hefur sveiflast á bilinu 1-1.8 milljón tonn á síðasta áratug. Kolmunni hefur því bæði vistfræðilega og efnahagslega mikla þýðingu.

Tvær nýjar vísindarannsóknir, leiddar af Háskóla Íslands í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og rannsóknastofnanir í Noregi, Færeyjum, Portúgal og Grænlandi, veita nýja og dýpri innsýn í stofngerð og útbreiðslu kolmunna. Rannsóknirnar voru styrktar af Rannsóknasjóði Íslands (Rannís) og Norræna Atlantssamstarfinu (NORA).

Fleiri en einn stofn

Í áratugi hefur stofnmat og veiðistjórnun á kolmunna í Norð­austur­-Atlantshafi gengið út frá að um einn stofn sé að ræða. En ný yfirlitsgrein, birt í tímaritinu Reviews in Fish Biology and Fisheries, sem byggir á fyrri rannsóknum og gögnum um stofnerfðafræði, efnainnihaldi kvarna, lífsferli og vistfræði kolmunna varpar nýju ljósi á þessa sýn.

Niðurstöðurnar benda til þess að kolmunni samanstandi af mörgum undirstofnum (e. metapopulation) sem eru ýmist svæðisbundnir eða víðförlir. Þessir undirstofnar blandast á ákveðnum svæðum og á vissum árstíma en eru að öðru leyti aðskildir (sjá mynd 1). Hver undirstofn er skilgreindur út frá megin útbreiðslusvæði sínu á mynd 1 og spanna ýmist víðfeðm eða staðbundin svæði með árstíðabundna blöndum á ákveðnum svæðum.

Höfundar greinarinnar leggja áherslu á mikilvægi þess að tekið verði tillit til þessara niðurstaðna um mismunandi undirstofna í stofnmati og veiðistjórnun á kolmunna til að bæta áreiðanleika og tryggja sjálfbæra nýtingu.

 

Mynd 1: Dreifing kolmunna í Norð­austur­-Atlantshafi þar sem litir tákna mismunandi undirstofna: norðurlægur (appelsínugul lína), suðlægur (rauð lína) og miðlægur (ljósgræn lína) víðförlir undirstofnar, jaðarundirstofnar (fjólublár), staðbundnir undirstofnar (grænn) og blöndunarsvæði (blár). Einnig eru sýndar helstu hrygningarstöðvar (svartar samfelldar línur) og árstíðabundnar gönguleiðir (svartar strikalínur). Athugið að ljósgræna svæðið (miðlægur undirstofn) skarast við hluta af norður- og suðurundirstofnum, þar á meðal á íslensku hafsvæði. Þetta skörunarsvæði getur gert erfiðara að aðgrein miðlæga undirstofninn frá hinum viðförlu stofnunum tveimur.

 

Rannsókn á samsetningu kolmunnastofnsins við Ísland

Í nýrri rannsókn, sem birt var í tímaritinu Marine Ecology Progress Series, greindu vísindamenn samsetningu kolmunna við Ísland út frá gögnum úr botnsjávarleiðöngum sem var safnað yfir tæplega 30 ára tímabil, bæði að vori og hausti.

Niðurstöðurnar sýna að kolmunni við Ísland er bæði göngufiskur og ungfiskur á uppeldisslóð með tímabundna viðveru. Rannsóknin leiddi í ljós fjóra megin hópa kolmunna umhverfis Ísland að hausti og þrjá að vori. Staðbundinn hópur er við landgrunnsbrúnina suðar af landinu, og á hryggnum milli Íslands og Færeyja (hópur 1 á mynd 2) sem er skilgreindur sem uppeldissvæði. Stærri fiskur dvelur á dýpra svæði norðvestur af landinu (hópur 2) meðan minni fiskur dvelur á grunninu fyrir sunnan og vestan (hópur 3). Loks er fullorðinn göngufisk að finna austan við land á haustin (hópur 4). Mikill breytileiki er í þéttleika ungviðis milli ára sem endurspeglar sveiflur í nýliðun inn í stofninn.

Flokkunin byggði á umhverfisþáttum, eins og sjávarhiti, dýpi og halla hafsbotns og tíma þáttum sem allir hafa áhrif á dreifingu kolmunna við Ísland. Niðurstöðurnar kunna að gefa vísbendingar um viðbrögð stofnsins við loftlagsbreytingum sem þarf að nýta við veiðistjórnun í framtíðinni.

Mynd 2: Niðurstöður stigskiptrar flokkunar sem sýna gróflega útbreiðslu mismunandi staðbundna hópa kolmunna við Ísland að hausti (vinstri, frá lok september til byrjun nóvember) og vori (hægri, frá lok febrúar til byrjun apríl) á tímabilinu 1996 til 2023.

Heimildir: 

Unravelling the stock structure of blue whiting in the Northeast Atlantic: navigating contradictions towards resolution


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?