Ný grein um eggjaframleiðslu og lifun þorskseiða

Ný grein um eggjaframleiðslu og lifun þorskseiða

Nýlega kom út grein í tímaritinu ICES Journal of Marine Science sem nefnist Key drivers and spatio-temporal variation in the reproductive potential of Icelandic cod, sjá hér. Í greininni er verið að rannsaka eggjaframleiðslu, meta áhrif meðalstærðar og aldursdreifingar á eggjaframleiðslu ásamt því að meta lifun þorskseiða fyrsta árið.

Hversu mörg egg eru búin til ?

Eggjaframleiðsla jókst á öllum svæðum eftir árið 2010 en aukningin var mest í Breiðafirði og Faxaflóa og fylgdi aukinni stofnstærð hrygningarþorsks á svæðunum. Framleiðsla eggja minnkaði eingöngu í kantinum austur af Vestmannaeyjum en þar hefur hrygningarþorski fækkað verulega. Stærri og eldri hrygnur framleiða fleiri egg en minni og yngri hrygnur. Á svæðum þar sem aldursdreifing og meðalstærð hrygna jókst höfðu þessar breytur marktæk áhrif á heildar eggjaframleiðsluna. Við Suðvesturland voru hins vegar litlar breytingar á aldursdreifingu og meðalstærð þar sem meðalstærð hrygna hélst há allan tímann og því lítið rými til aukningar.

Afkoma ungviðis

Lifun þorskseiða fyrsta árið var metin sem hlutfall á milli heildar eggjaframleiðslu allra hrygningarsvæða og fjöldavísitölu 1 árs í marsralli ári síðar. Þó fjöldi 1 árs hafi að meðaltali hækkað á tímabilinu frá 1998 til 2023 þá hefur lifun lækkað, sérstaklega frá árinu 2010. Hlutfall eggja sem framleidd eru í Faxaflóa og Breiðafirði hefur hækkað, en frá árinu 2011 hefur 50-65% af heildar eggjaframleiðslu þorsks komið frá þessum tveim svæðum. Hugsanlegt er að egg og lirfur sem reka frá Breiðafirði alist upp í kaldari sjó en þau sem koma frá svæðum fyrir sunnan land og vaxi því hægar. Einnig er líklegt að þéttleikaháðir þættir hafi leitt til minni lifunar fyrsta árið en aukin samkeppni um fæðu og skjól getur leitt til aukinnar dánartíðni.

Litlar sveiflur í nýliðum miðað við aðra stofna

Þrátt fyrir að lifun fyrsta aldursárið hafi minnkað þá eru sveiflur í nýliðun þorsks við Ísland minni en í flestum öðrum þorskstofnum í Norður Atlantshafi. Ein af ástæðum þess er að hér við land hrygnir þorskur á mismunandi svæðum sem eykur líkurnar á að egg og lirfur frá einhverjum hrygningarsvæðum hitti á góðar aðstæður í svifinu og reki inn á hagstæð uppeldissvæði. Bæði eykur þetta stöðugleika í nýliðun en leiðir einnig til þess að stofninn eigi auðveldara með að aðlagast breyttum umhverfisaðstæðum.

Það er mikilvægt að fylgja þessari rannsókn eftir með því að skoða hvort breytingar séu í útbreiðslu, fæðu og/eða vexti þorskungviðis til að rannsaka hvernig þorskur aðlagar sig að breyttum umhverfisaðstæðum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?