Ný aðferðafræði við raunprófun beitt á uppsjávarfiskistofna

Ný aðferðafræði við raunprófun beitt á uppsjávarfiskistofna

Þróun eigindlegra líkana fyrir vistkerfi sjávar: Ný aðferðafræði við raunprófun beitt á uppsjávarfiskistofna við Ísland, Færeyjar og Grænland

Hafrannsóknastofnun kynnti nýlega framlag sitt til nýrrar rannsóknar á raunprófun eigindlegra líkana (e. qualitative model) fyrir vistkerfi uppsjávarfiskistofna til greingar á nýtingu, áhrifa á náttúru og hagrænna og félagslega þátta. Rannsóknin, sem birt var í Current Research in Environmental Sustainability, er hluti af Marine SABRES verkefninu, sem styrkt er af Evrópusambandinu. Í greininni er kynnt aðferð sem nefnist „aðferðafræði áætlaðrar nytjar“ (e. Presumed Utility Protocol), með það að markmiði að bæta gæði og áreiðanleika eigindlegra líkana eins og orsakatengslarits (CLDs), sem er myndrit til að lýsa og greina tengsl þátta og atburða innan ákveðins kerfis.

Þrír sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar, Pamela Woods, Anna H. Ólafsdóttir og Sandra Rybicki, tóku þátt í þróun og beitingu þessarar aðferðar. Sérstök áhersla var á fjórar tegundir uppsjávarfiska á hafsvæðunum við Austur-Grænland, Ísland og Færeyjar. Uppsjávarveiðar eru mikilvæg atvinnugrein á þessum svæðum og rannsóknir hafa sýnt að þær eru undir miklum áhrifum loftslagsbreytileika. Orsakatengslaritið fyrir þetta hafsvæði sýndi fram á ýmsar áskoranir viðkomandi vistkerfis; eins og breytileika í stærð og útbreiðslu uppsjávarfiskistofnanna, alþjóðlega samninga tengdum veiðum og úthlutun aflamarks tegundanna og áhrif breytinga í vistkerfinu á félagslega og hagræna þætti.

Staðsetning þátta og atburða í orsakatengslariti geta verið flókin en aðferðafræði áætlaðrar nytjar getur aðstoðað við að greina veikleika myndritsins, hverjir helstu þættirnir eru sem þarf að leysa og hvar má bæta þekkingu. Í þessari rannsókn var notast við 26 mælikvarða sem skiptust í fjóra meginflokka: prófun á uppsetningu, þ.e. hvort uppsetningin sé rétt og að tengsl þátta og atburða séu réttir; viðeigandi mörk, þ.e. nær myndritið yfir vandamálin sem verið er að greina; innsýn í stefnumótun; og stjórnun. Þegar aðferðafræðinni var beitt veitti ferlið mikilvægar upplýsingar sem nota má til að bæta áreiðanleika líkana, sem gerir okkur kleift að veita betri ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu og bætt alþjóðlegt samstarf.

Helstu niðurstöðurnar voru meðal annars þær að þörf er á betri samþættingu á umhverfisbreytileika í tengslum við pólitískar og efnahagslegar forsendur, sérstaklega í samhengi við úthlutun aflamarks. Einnig sýndu niðurstöður fram á mikilvægi þess að taka sjónarmið hagsmunaaðila með í reikninginn og aðlaga líkön til að þau geti endurspeglað breytileika vistkerfisins.

Efld líkanagerð styrkir starf vísindamanna, stefnumótenda og hagsmunaaðila til að takast á við flóknar áskoranir í hafinu á Norðurslóðum og víðar.

Frekari upplýsingar má finna í rannsókninni í Current Research in Environmental Sustainability. Kynntu þér einnig Norðurskautsprófunarsvæði og Marine SABRES verkefnið. 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?