Loðnumælingar fyrir austan

Fyrirhugaðar leiðarlínur skipanna þriggja þar sem rauða línan er ætluð Bjarna Ólafssyni til að afmar… Fyrirhugaðar leiðarlínur skipanna þriggja þar sem rauða línan er ætluð Bjarna Ólafssyni til að afmarka dreifinguna.

Um síðustu helgi var haldið aftur til mælinga á stærð loðnustofnsins á uppsjávarveiðskipunum Ásgrími Halldórssyni SF og Polar Amaroq. Líkt og í fyrri mælingum eru þrír sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar í hvoru skipi. Bjarni Ólafsson AK er jafnframt með í verkefninu með það hlutverk að afmarka dreifingu loðnunnar til að stuðla að markvissari yfirferð mæliskipanna.

Aðdragandi mælinganna er sá að fréttir bárust á laugardeginum frá togveiðiskipum um loðnu í kantinum út af miðjum Austfjörðum. Í kjölfarið fór uppsjávarveiðskipið Víkingur, sem var á leið til löndunar á Vopnafirði af kolmunnamiðunum, yfir svæðið og staðfesti að eitthvað magn loðnu og væri að sjá við kantinn frá Hvalbakshalla og allavega um 50 sjómílur þaðan í norður.

Markmiðið er að ná mælingu þarna á næstu dögum og fá m.a. mat á hvort þetta sé hrein viðbót við síðustu mælingar frá því í byrjun janúar eða að þarna sé hluti af þeirri loðnu sem fannst norður af Langanesi á þeim tíma sem gengið hefði þetta langt í suður síðan þá.

Framhald mælinga verður metið á næstu dögum með tillit til aðstæðna og útbreiðslu loðnu.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?