New York Times segir frá leiðangri á Þórunni og veltihringrásinni

Rannsóknaskipið Þórunn Þórðardóttir HF300 á leiðinni til Grænlands í ólgusjó við Snæfellsnes. Rannsóknaskipið Þórunn Þórðardóttir HF300 á leiðinni til Grænlands í ólgusjó við Snæfellsnes.

New York Times birti nýlega grein um leiðangur á rannsóknaskipinu Þórunni Þórðardóttur og breytingar veltihringrásarinnar í Atlantshafi. Síðastliðið haust sigldi hópur vísindamanna frá Bandaríkjum og Íslandi til austurstrandar Grænlands til að fylgjast með veltihringrásinni í Atlantshafinu (AMOC) sem stýrir hitadreifingu í Norður-Atlantshafinu og hefur áhrif á loftslag um allan heim. Áhyggjur eru uppi um að veltihringrásin hægist eða stöðvist með auknu ferskvatni vegna bráðnun íss frá Grænlandsjökli og úr Norðurhöfum.

Í alþjóðlega rannsóknaverkefninu East Greenland NOrdic seas Gateway (EGNOG) er verið að athuga ferskvatnsflæðið í Austur-Grænlandsstraumnum til að geta svarað betur hvort veltihringrásin sé að nálgast vendipunkt (e. tipping point), sem myndi valda víðtækum loftslagsbreytingum.

Aftur á móti er lítið til af mæligögnum á ferskvatni á þessu hafsvæði, þar sem hafís, borgarísjakar og veður gera rannsóknaraðgengi oft erfitt mestan hluta árs. Í leiðangrinum á Þórunni Þórðardóttur stunduðu vísindamenn og áhöfn umfangsmiklar mælingar, með sondu, sýnatöku fyrir greiningu snefilefna í sjónum og straumsjám. Einnig voru settar út straumlagnir sem munu fylgjast með straumnum og ferskvatni í eitt ár í senn.

Blaðamaðurinn Raymond Zhong og ljósmyndarinn Esther Horvath, bæði frá New York Times tóku þátt í leiðangrinum og skrásettu rannsóknir vísindafólksins og sína upplifun. Greinin fjallar ítarlega um veltihringrásina, loftslagið sem og leiðangurinn um borð í Þórunni Þórðardóttur.

Frétt þessi og myndirnar hér neðar eru birt með leyfi frá Horvath - og þær segja svo sannarlega meira en 1000 orð. 

Greinina má finna hér (ath. að NYT er áskriftarvefur).

Borgarísjaki við austurströnd Grænlands

Sondur voru settar í Sondur voru settar í sjóinn til að mæla hita og seltu og til að safna sjósýnum. 

Straumlögnum sem mæla straumhraða, hita og seltu í eitt ár var sett út á hafsbotninn.

Straumlínulagaður “kafbátur” heldur mælitækjum á ákveðið dýpi.

Aðstaða til hafrannsókna á Þórunni er samkvæmt ýtrustu kröfum nútímans en hér eru sjósýni undirbúin fyrir greiningu á snefilmálmum í sérstökum hreinlætisskáp.

Okkar maður á Hafrannsóknastofnun, Andreas Macrander haffræðingur, tók þátt í rannsóknaleiðangrinum.

Stórkostlegt landslag austurstrandar Grænlands.

Grænlendingar í afskekkta bænum Ittoqqortoormiit fögnuðu þyrlu sem flutti farþega og vistir með fánum. Þyrlan kom einnig með mikilvæga varahluti fyrir rannsóknaleiðangurinn.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?