Bráðabirgðatölur fyrir stangveiði á laxi sumarið 2023

Laxá í Kjós Laxá í Kjós

Heildarfjöldi stangveiddra laxa árið 2023 var um 32.300 fiskar eða um 25 % minnkun frá árinu 2022 og um 22 % undir meðalveiði áranna frá 1974.

Um 22 % undir meðalveiði

Heildarfjöldi stangveiddra laxa sumarið 2023 var um 32.300 fiskar (mynd 1), sem var um 25 % minnkun frá 2022 og 22 % undir meðalveði áranna frá 1974. Veiðin 2023 var um 9.000 löxum minni en hún var 2022.

Í öllum landshlutum nema á Norðurlandi-Eystra (mynd 2) var minni veiði í ám. Í tölum um heildarlaxveiði eru taldir villtir laxar, laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði (veitt og sleppt).

Laxveiði í ám sem byggir á veiði á sleppingum gönguseiða var alls um 6.950 laxar. Það er um 4.000 löxum minna en veiddist 2022 þegar 10.553 laxar veiddust. 

Við samanburð á langtímaþróun á stangveiði þarf að taka tillit til þess að laxar úr gönguseiðasleppingum eru viðbót við náttúrulega framleiðslu ánna og að þegar veitt er og sleppt í stangveiði veiðast sumir fiskar oftar en einu sinni.

14,6 % minnkun frá 2022 á heildarstangveiði villtra laxa

Heildarstangveiði villtra laxa árið 2023 er um 20.500 laxar. Það er um 14,6 % minnkun frá 2022 og næst minnsta stangveiði sem verið hefur. Aðeins árið 2019 var lægra mat á fjölda villtra stangveiddra laxa (mynd 3).

Tölur um veiði á villtum laxi í stangveiði eru teknar saman með því að draga frá seiðasleppingar til hafbeitar og áætlaðan fjölda endurveiddra laxa (veitt og sleppt).

Dánartala laxa fer vaxandi

Fjöldi þeirra laxa sem ganga í ár er annarsvegar háður fjölda seiða sem ganga úr ánum til sjávar og hinsvegar hversu margir lifa sjávardvölina af og skila sér til baka í árnar.

Almennt hefur dánartala laxa í sjó í Norður Atlantshafi farið vaxandi en ástæður þess eru ekki þekktar. Bent hefur verið á þætti eins og loftslagsbreytingar, meðaflaveiði, áhrif fiskeldis og breytingar á búsvæðum í fersku vatni.

Sumarið 2023 einkenndist af lágu vatnsrennsli. Lágrennsli getur haft neikvæð áhrif á afkomu seiða í ánum og síðar á fiskgöngur og veiði.

Veiðiréttarhafar hvattir til að skila inn veiðitölum

Veiðiréttarhafar hvattir til að skila veiðitölum til Hafrannsóknastofnunar sem fyrst. Verið er að vinna að samantekt veiði.

Lokatölur um veiði verða gefnar út að samantekt lokinni.

 


Mynd 1. Stangveiði í íslenskum ám frá 1974 - 2023. Veiðinni er skipt í landaðan afla (blátt), veitt og sleppt (grænt) og veiði úr sleppingum gönguseiða (rautt). Tölur frá 2023 eru bráðabirgðatölur.


Mynd 2. Stangveiði á laxi sumarið 2023 skipt eftir landshlutum. Á Suðurlandi er gerður greinarmunur á veiði á villtum laxi (blátt) og laxi úr hafbeitarám (rautt). Tölur frá 2023 eru bráðabirgðatölur.


Mynd 3. Stangveiði í íslenskum laxveiðiám þegar laxveiði í hafbeitarám er undanskilin og leiðrétt hefur verið fyrir áhrifum veiða og sleppa. Tölur frá 2023 eru bráðabirgðatölur.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?