Viðhorf Íslendinga til skelfisks rannsakað í viðamiklu norrænu verkefni

Bláskel. Mynd af Shutterstock. Bláskel. Mynd af Shutterstock.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Þingeyjarsveit mun í samstarfi við Hafrannsóknastofnun rannsaka þörungaeiturefni í fæðukeðju sjávar með tilliti til sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum. 

Rannsóknasetrið er meðal tuttugu rannsóknastofnana í sex löndum sem hlotið hafa Nordforsk styrk til að rannsaka þörungaeiturefni í fæðukeðju sjávar og viðhorf til sjávarafurða með tilliti til sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum. Alls koma tæplega fimmtíu vísinda- og fræðimenn að þessu þverfaglega verkefni sem nefnist PHATE: . Hlutverk rannsóknasetursins í Þingeyjarsveit verður að safna íslenskum, rituðum heimildum um skelfisk og greina þær í samvinnu við Hafrannsóknastofnun, sem einnig tekur þátt í eiturefnamælingum í líffræðilegum hluta verkefnisins.

Aukinn skilningur á dreifingu eitur- og mengunarefna í Norður-Atlantshafi

Loftslagsbreytingar hafa veruleg áhrif á vistkerfi sjávar á norðurslóðum og þar með bein áhrif á fæðuöryggi. PHATE-verkefnið miðar að því að auka skilning á dreifingu eitur- og mengunarefna í Norður-Atlantshafi og meta þá áhættu og þær áskoranir sem fylgja loftslagsbreytingum hvað varðar sjálfbærni og fæðuöryggi. Hluti af því ferli er að beina sjónum að menningarlegum og félagslegum þáttum, svo sem staðbundinni þekkingu og viðhorfi til sjávarafurða og heilsu, sem forsendu sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum.

Á Grænlandi og í Kanada eru vísbendingar um veiðar og neyslu á skelfiski, fiski, sjávarspendýrum og sjófuglum í árþúsundir. Á Íslandi og í Færeyjum er hins vegar lítið sem bendir til þess að skelfiskur hafi verið nýttur til matar. Túlkun á niðurstöðum rannsókna á skriflegum heimildum og öðrum menningartengdum þáttum verður fléttað saman við túlkun líffræðilegra, umhverfisfræðilegra, heilsufræðilegra og mannfræðilegra gagna sem aflað verður í öðrum hlutum verkefnisins. Niðurstöðurnar munu gefa nýja innsýn í menningarlega og samfélagslega þætti sem hafa áhrif á nýtingu sjávarafurða. Markmiðið er að þróa ný verkfæri til eftirlits og stefnumótunar fyrir verndun og nýtingu sjávarauðlinda á tímum loftslagsbreytinga.

Auglýst eftir nýdoktor til að safna skriflegum heimildum 

Auður Aðalsteinsdóttir, rannsóknarlektor í umhverfishugvísindum og forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ í Þingeyjarsveit, og Sara Harðardóttir, svifþörungafræðingur á Umhverfissviði Hafrannsóknastofnunar, leiða rannsóknina í samstarfi við innlent samstarfsfólk og erlenda sérfræðinga. Ráðinn verður nýdoktor til tveggja ára, sjá nánar hér, sem safna mun skriflegum heimildum til greiningar með hliðsjón af hinum Norðurlöndunum og í samstarfi við aðra þátttakendur í verkefninu, sem koma frá Danmörku, Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Kanada.

Heildarstyrkur Nordforsk til PHATE-verkefnisins er 300 milljónir íslenskar krónur (24 milljónir norskar krónur) og þar af renna 43,7 milljónir til rannsókna Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?