Útskýringar reiknireglu á hlutfalli hámarkslífmassa og framleiðslu

Hlutfallið milli framleiðslu og lífmassa. Það hefur vaxið línulega á því tímabili sem það er skráð á… Hlutfallið milli framleiðslu og lífmassa. Það hefur vaxið línulega á því tímabili sem það er skráð á Mælaborð fiskeldisins. Ef línan er framlengd til ársins 2019 en það er lokaár viðmiðunarmatsins 2020 sést að gildið er 0,8.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram: „notkun stuðla og reikniregla á borð við hlutfall framleiðslu og lífmassa verði að byggja á öruggum og staðreyndum upplýsingum úr fiskeldi hér við land. Annars er hægt að draga í efa þær niðurstöður sem ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar byggir á. Það að Hafrannsóknastofnun hafi ekki með skýrum hætti getað rökstutt val sitt á ofangreindum stuðli við framkvæmda áhættumats erfðablöndunar er áhyggjuefni“.

Við endurskoðun áhættumats erfðablöndunar 2020 óskaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið eftir því að niðurstöður yrðu miðaðar við lífmassa en ekki framleitt magn. Við gerð áhættumats var hins vegar stuðst við þá aðferðafræði að spá fyrir um fjölda strokufiska úr sjókvíum sem fall af framleiðslumagni. Til þess að reikna út áhættumörk fyrir lífmassa í sjókvíum með tilliti til hugsanlegrar erfðablöndunar, þarf því að nota áætlaðan hlutfallsstuðul framleiðslu og hámarkslífmassa út frá gefnum forsendum um framleiðslumagn. Sem dæmi má nefna að ef áhættumatslíkanið reiknar út að áhættumörk framleiðslumagns séu 50.000 tonn og notast er við framleiðslustuðullinn 0,8 þá reiknast leyfilegur hámarkslífmassi sem 50,000 x 1/0,8 = 62,500 tonn.

Á þessum tíma voru ekki nein gögn til staðar frá MAST um hámarkslífmassa á árunum 2017-2019 og því var úr nokkuð vöndu að ráða. Framleiðslustuðullinn er ekki fasti heldur breytilegur milli fiskeldisfyrirtækja, og jafnvel milli svæða og tímabila innan sama fyrirtækis. Hann er háður ýmsum breytum, t.d. sjávarhita, stærð seiða við útsetningu, tímasetningu útsetningar, vexti, sláturstærð, slægingarhlutfalli, afföllum vegna veðurs, sjúkdóma o.fl.

Skoðaðar voru upplýsingar úr umhverfismatsskýrslum og upplýsinga aflað frá fyrirtækjum. Starfshópur stofnunarinnar komst að þeirri niðurstöðu að á þeim tíma væri eðlilegt að nota stuðullinn 0,8 fyrir landið í heild sinni. Hlutfallið á milli framleiðslu og lífmassa var sem sagt metið 8 á móti 10. Í þessum útreikningum var gert ráð fyrir því að afföll næmu 1% af útsettum fjölda á mánuði, sláturstærð væri 5,5 kg og að nýtingarhlutfallið væri 80%. Gert var ráð fyrir því að stuðullinn yrði endurmetinn þegar raungögn lægu fyrir úr sjókvíaeldinu.

Síðla árs 2020, eftir að áhættumatsskýrslan var gefin út, opnaði vefsíðan Mælaborð fiskeldis. Þar var í fyrsta sinn hægt að nálgast raungögn úr sjókvíaeldi á laxi, bæði hvað varðar áætlaðan lífmassa og skráðar framleiðslutölur. Nú er hægt að reikna út hvernig framleiðslustuðullinn hefur verið á þeim tíma sem gögn liggja fyrir. Þá kemur í ljós að hlutfall framleiðslu og lífmassa hefur farið hækkandi með línulegum hætti í nokkur ár. Stuðullinn fyrir allt landið var 0,97 árið 2020 en hefur síðan hækkað upp í 1,33 á árinu 2022, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Ef gert er ráð fyrir línulegri hækkun frá árinu 2019, en það er lokaár viðmiðunarmatsins 2020, má áætla að gildið hafi einmitt verið nálægt 0,8 á árinu 2019, eða sama tala og notuð var. Hækkun framleiðslustuðulsins endurspeglar væntanlega þær stöðugu framfarir sem hafa sér stað í eldisárangri hjá eldisfyrirtækjum á undanförnum árum. Svo virðist sem afföll séu minni og vöxtur betri en reiknað var með í upphafi. Einnig geta neyðarslátranir vegna sjúkdóma haft nokkuð að segja með því að draga úr sláturstærð og hækka þannig stuðulinn.

Þessi samantekt sýnir það að framleiðslustuðullinn 0,8 á ekki lengur við fyrir landið í heild sinni. Líklegt er að raunstuðullinn sé í dag orðinn mun hærri eins og myndin sýnir. Ef notast verður áfram við framleiðslustuðul myndi leyfilegur hámarkslífmassi minnka um allt að 50% frá fyrra mati, ef aðrar forsendur yrðu óbreyttar. Þarna ber að hafa í huga að lífmassi í íslensku sjókvíaeldi er ennþá langt undir áhættumörkum áhættumatsins. Alltaf var gert ráð fyrir því að forsendur matsins yrðu endurskoðaðar út frá rauntölum við endurmat.

Það er einnig mikilvægt að hafa í huga hvernig áhættumatið virkar. Út frá gefnum forsendum er fjöldi væntanlegra strokufiska reiknaður út frá framleiðslumagni og það síðan umreiknað yfir í hámarkslífmassa. Þar skipta ýmsar aðrar forsendur einnig mjög miklu máli og geta verið bæði til hækkunar og lækkunar á niðurstöðu matsins hverju sinni. Matið verður stöðugt sterkara og marktækara eftir því sem meira liggur fyrir af rauntölum yfir langt tímabil. Ekki er hægt að líta framhjá því að endurkomuhlutfall strokulaxa í íslensk fallvötn virðist vera lægra en gert var ráð fyrir í síðasta áhættumati og slíkar rauntölur geta orðið til hækkunar á áhættumörkum lífmassa. Heildarniðurstaðan á eftir að koma í ljós í næsta endurmati sem er fyrirhugað á næstu mánuðum.

Hugsanlega er hámarkslífmassi ekki heldur besta mælistærðin til þess að meta áhættu á erfðablöndun. Betra gæti verið að nota stuðul sem er ekki jafn háður öðrum breytum svo sem fjölda útsettra fiska eins og gert er í Færeyjum, enda er það stærð sem er aðgengileg í skráningakerfi stöðvanna og er hægt að tengja beint inn í eftirlitskerfi MAST. Þetta verður metið í næsta endurmati.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?