Togað með fráleyst í karfaleiðangri

Togað með fráleyst í karfaleiðangri

Dagana 20.-25. mars tóku Hafrannsóknastofnun og Stjörnu-Oddi þátt í tilraunaleiðangri á Viðey RE í samstarfi við Brim á gullkarfamiðum vestan og suðvestan lands. Markmiðið var meðal annars að kanna hvort hægt væri að bergmálsmæla gullkarfa á þekktum gotstöðvum, með samanburði afla í botnvörpu og bergmálsgilda. Gullkarfi frjóvgar egg á haustin og gýtur lifandi afkvæmum á vorin. Enn fremur voru gerðar tilraunir með „Fiskgreini“ sem Stjörnu-Oddi hefur þróað m.a. í samstarfi við Hafró og Hampiðjuna. Um er að ræða myndavélabúnað sem settur er í trollið aftarlega á belg og tekur myndir af innkomu og sýnir hana jafnharðan. Markmiðið er að geta greint fiska sem fara í gegn til tegundar og stærðmæla þá nánast um leið. Of snemmt er að tala um niðurstöður leiðangurs, en ljóst er að þegar gullkarfi hnappast á gotstöðvar gæti verið færi á að bergmálsmæla hann, ef vilji er til að þróa tækni og aðferðir, og búa út skip til leiðangurs. Samstarf var með besta móti og gaman er að segja frá því að sjaldan hefur verið dregið jafn oft viljandi með fráleyst í leiðangri við Ísland.

Karfalóð á Melsekk

Mynd 1. Karfalóð á Melsekk. Skjámynd úr túlkunarforritinu LSSS sem sýnir bergmálsrit fyrir dýpisbilið 200-480 m (lóðrétt til vinstri) á um tuttugu sjómílna kafla sem er blálitaður á kortinu neðst til hægri.

Mynd 2. Unnið með Fiskgreini um borð í Viðey.

Mynd 2. Unnið með Fiskgreini um borð í Viðey.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?