Þorskur (Gadus morhua)
Fyrr í sumar birtist á vef Fiskifrétta grein eftir starfsmenn Hafrannsóknastofnunar, þá Jónas Pál Jónasson sviðsstjóra botnsjávarsviðs og Bjarka Elvarsson tölfræðing um þróun þorskveiða við Ísland og hjá öðrum þjóðum. Fjallað var um hvernig veiðar á þorski hafa gengið og þróast hjá okkur og nágrannaþjóðum í Norður Atlantshafi.
Í niðurlagi greinarinnar segir: "Nær allur þorskafli kemur nú úr tveimur stofnum, þeim íslenska og úr Barentshafi. Tilraunin að veiða meira, eða vel umfram kjörsókn hefur skilað því sem spáð var, hruni stofna og óarðbærum fiskveiðum. Hækkun sjávarhita hefur nú þegar fært hrygningasvæði þorsks í Norðursjó norður á bóginn og er því spáð að það verði of heitt fyrir hann á öllum svæðum þar árið 2060. Þrátt fyrir lækkun í ráðgjöf stendur þorskurinn við Ísland vel, hrygningarstofn er í sögulegu samhengi sterkur og aldursamsetning í stofninum er heilbrigð."
Greinina má einnig finna hér.