Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar Þórunn Þórðardóttir HF 300
Atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, afhenti nýtt hafrannsóknaskip, Þórunni Þórðardóttur HF 300, til Hafrannsóknastofnunar í gær. Þorsteinn Sigurðsson forstjóri tók við skipinu fyrir hönd stofnunarinnar og blessaði sr. Laufey Brá Jónsdóttir skipið að því loknu.
Þórunn Þórðardóttir tekur við af Bjarna Sæmundssyni sem þjónað hafrannsóknum við Ísland í tæp 55 ár og hefur nú verið seldur til Noregs. Þórunn Þórðardóttir er 70 m langt og 13 m breitt stálskip, svokallað tvíorkuskip sem búið er rafknúnum skrúfum. Meginorkugjafi skipsins er olía en um borð eru einnig stórar rafhlöður sem gera alla orkunýtingu hagkvæmari og umhverfisvænni.
Skipið er nefnt eftir Þórunni Þórðardóttir mag.scient. (1925-2007), en hún var fyrst íslenskra kvenna til að mennta sig á sviði sjávarlíffræði og braut þannig blað í sögu hafrannsókna við Ísland. Hún var frumkvöðull í rannsóknum á frumframleiðni í hafinu í kringum Ísland og vann nær allan sinn starfsaldur sem deildarstjóri hjá Hafrannsóknastofnun.
Eitt helsta afrek Þórunnar voru rannsóknir og mat á heildarfrumframleiðni svifþörunga á Íslandsmiðum en svifþörungar eru undirstaða fæðukeðju hafsins. Þórunn var jafnframt á meðal fyrstu sjávarlíffræðinga til að nota geislakolsaðferð til að meta framleiðni í sjónum. Hún hlaut heiðursviðurkenningu Lýðveldissjóðs Alþingis fyrir framlag sitt til rannsókna á hafinu við Ísland.
Smíði skipsins fór fram í Astilleros Armon skipasmíðastöðinni í Vigo á Spáni. Þaðan var haldið úr höfn 25. febrúar sl. og lagst að bryggju í Hafnarfirði 8. mars. Frá upphafi var það markmið sett að skipið yrði eins vel útbúið og unnt væri til að sinna hafrannsóknum, bæði hvað varðar hönnun og tækni. Hið nýja skip hefur þegar verið bókað í sitt fyrsta verkefni og mun halda úr höfn innan fárra daga í svokallað marsrall eða stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum. Heildarkostnaður við smíði skipsins var um fimm milljarðar króna sem var innan fjárheimilda.
„Með öflugum rannsóknum getum við tryggt að ákvarðanir sem varða nýtingu auðlinda hafsins verði teknar á traustum vísindalegum grunni. Slíkar ákvarðanir eru ekki aðeins nauðsynlegar fyrir efnahagslega velferð þjóðarinnar, heldur einnig fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbærni auðlindanna til framtíðar“ sagði atvinnuvegaráðherra í ræðu sinni. „Í þessu samhengi gegnir Hafrannsóknastofnun lykilhlutverki, þar sem þekking og ráðgjöf stofnunarinnar er grundvallarforsenda þess að við náum markmiðum okkar um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins.“
Sjá nánar á vef atvinnuvegaráðuneytisins.
Sjá fleiri myndir á Facebook síðu Hafrannsóknastofnunar
Hér má lesa ræðu Þorsteins Sigurðssonar, forstjóra Hafrannsóknastofnunar.
Hér má lesa ræðu Hönnu Katrínar Friðriksson, atvinnuvegaráðherra.

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar og Guðmundur Sigurðsson, skipstjóri á Þórunni Þórðardóttur HF 300.

Atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, afhenti Þórunni Þórðardóttur með formlegum hætti 12. mars sl. í höfuðstöðvum Hafrannsóknastofnunar að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði.