Hafrannsóknastofnun kvaddi nýlega starfsmenn sem látið hafa af störfum á síðustu mánuðum. Átta fyrrum starfsmenn voru kvaddir með trega, þar af margir sem höfðu unnið að margskonar vísindastarfi sem laut að rannsóknum á hafi og ferskvatni, bæði fiskrannsóknum af ýmsu tagi en einnig svif- og umhverfisrannsóknum.
Eftirfarandi starfsmenn voru kvaddir (í stafrófsröð): Agnes Eydal sjávarlíffræðingur, Atli Bryngeirsson umsjónarmaður húsnæðis, Bárður Jón Grímsson umsjónarmaður útgerðar, Hafþór Júlíusson bátsmaður á Árna Friðrikssyni, Magnús Danielssen efnafræðingur , Magnús Jóhannsson fiskifræðingur og Þorsteinn Sigurðsson fiskifræðingur og forstjóri.
Fram kom í máli þeirra starfsmanna sem kvöddu hópinn að þar færi flokkur fólks sem hefði m.a. langa reynslu af fjölbreyttum leiðöngrum um borð í rannsóknaskipum Hafrannsóknastofnunar. Einnig áratugarannsóknir af sjómælingum sem skilað hefðu ómetanlegum gögnum, 40 ára vöktun og rannsóknir á ferskvatnsfiskum á Suðurlandi auk mikilvægra og fjölbreyttra starfa við stjórnun, um borð í rannsóknaskipum, sem og við umhirðu húsa, skipa, rannsóknatækja og annars útbúnaðar.
Hafrannsóknastofnun ítrekar þakkir sínar til fyrrum starfsmanna fyrir vel unnin störf á löngum tíma; allt störf sem hafa verið mikilvæg bæði fyrir íslenskt samfélag og stofnunina.

Agnes Eydal sjávarlíffræðingur tekur við kveðjugjöf frá Sólveigu Lilju Einarsdóttur sviðsstjóra mannauðs og
miðlunar. Jónas Jónasson sviðsstjóri botnsjávarsviðs er til hægri.

Sigrún Jóhannsdóttir gæða- og skjalastjóri tók að sér að kveðja Atla Bryngeirsson, umsjónarmann húsnæðis.

Eggert Benedikt Guðmundsson, settur forstjóri, kvaddi Bárð Jón Grímsson, umsjónarmann útgerðar.

Hafþór Júlíusson komst ekki í starfslokahófið en hans kveðja var tekin upp og send.
Eggert Benedikt las kveðjupistilinn, Hörður Birgir Hafsteinsson háseti tók upp og Sólveig Lilja hlustar.

Magnús Danielssen efnafræðingur var kvaddur af Hrönn Egilsdóttur sviðsstjóra umhverfissviðs m.a. með
viðeigandi húfu í tilefni starfsloka.

Magnús Jóhannsson fiskifræðingur var kvaddur af Guðna Guðbergssyni, sviðsstjóra ferskvatns- og eldissviðs.

Þorsteinn Sigurðsson fiskifræðingur og fyrrum forstjóri Hafrannsóknastofnunar var kvaddur af Guðmundi Óskarssyni
sviðsstjóra uppsjávarsviðs fyrir hönd starfsfólks Hafrannsóknastofnunar.