Athuganir á grindhvalavöðu á Gömlueyri á Löngufjörum

Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir

Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar fóru á Löngufjörur þriðjudaginn 23. júlí til að skoða grindhvalavöðu í fjörunni á Gömlueyri sem tilkynnt var til stofnunarinnar þann 18. júlí s.l. Farið var með þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-LÍF. Taka þurfti mið af sjávarföllum og því var farið í loftið klukkan 15:00

Strax og komið var á staðinn varð ljóst að dýrin voru öll mjög rotin og því líklegt að þau hafa legið lengi í fjörunni eða að öllum líkindum frá stórstreymi í kringum 4. júlí eða jafnvel fyrr en vegna hlýinda undanfarnar vikur er erfitt að segja nánar til um hvenær dýrin gengu á land.

Öll voru hræin nokkuð grafin í sand sem tafði mjög fyrir sýnatöku þar sem moka þurfti frá hverju dýri til að ná mælingum. Einnig voru flest þeirra mjög illa farin af mikilli rotnun og gasmyndun. Veður var gott þó nokkuð sandfok væri á staðnum.

Samsetning hópsins reyndist vera eftirfarandi:

Heilda fjöldi dýra í megin hópnum var 47, auk þess voru 3 dýr nokkru norðar á fjörunni og því 50 dýr í heildina. Kynjahlutfall var nákvæmlega jafnt eða 25 karldýr og 25 kvendýr. Af hópnum reyndust 4 kálfar (undir 2m). Stærsta karldýrið reyndist 5,52m og stærsta kvendýrið 4,58m.

Rannsóknafólk að störfum

Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir

Hafrannsóknastofnun hefur það hlutverk að sinna rannsóknum á reknum hvölum hér við land. Reynt er að bregðast við fregnum af slíkum atburðum eins og kostur er og oft í samstarfi við aðila sem sinna náttúrurannsóknum.

Oftast eru þau gögn sem fást með skoðun og sýnatöku úr strönduðum dýrum þau einu sem aðgengileg eru úr dýrum viðkomandi tegundar. Slík gögn eru því mikilvæg þegar skoða á eða leggja skal mat á viðkomu tegundarinnar eða þátt hennar í lífkerfinu.

Á vegum Hafrannsóknastofnunar fóru þau Sverrir Daníel Halldórsson, Sandra Granquist og Svanhildur Egilsdóttir og frá  Umhverfisstofnun Gunnar Alexander Ólafsson.

Áhöfn þyrlunnar var skipuð þeim Jens Þór Sigurðssyni flugstjóra, Andra Jóhannessyni flugmanni, Elvari Steini Þorvaldssyni yfirstýrimanni, Daníel Hjaltasyni flugvirkja og Steinþóri Runólfssyni lækni.

TF-LÍF

Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?