Skarlatsrækja
Áhöfnin á Hrafni Sveinbjarnarsyni veiddi nýlega mjög stóra rækju djúpt suðaustur af landinu. Fundurinn þykir óvenjulegur þar sem um er
að ræða skarlatsrækju (Aristaeopsis edwardsiana), tegund sem er sjaldséð við strendur Íslands og hefur aðeins fundist hér örfáum sinnum áður.
Verður allt að 30 cm löng
Skarlatsrækja er stór, dökkrauð djúpsjávarrækja og getur orðið allt að 30 cm löng. Hún er ein af stærstu rækjutegundunum sem þekkjast í
heiminum. Hún lifir helst á leirbotni á 400 til 900 m dýpi en getur fundist á allt að 1850 m dýpi. Hún heldur sig aðallega á leirbotni og finnst í tempruðum og heitum sjó, frá ströndum Spánar suður til Suður-Afríku. Því er fundur hennar hér við Ísland sérstakur þar sem hún er töluvert langt frá sínu hefðbundna útbreiðslusvæði.
Hafrannsóknastofnun skráði tíu fundi á skarlatsrækju á árunum 1996 til 2005 en þetta er fyrsti fundurinn sem hefur verið skráður í nærri tvo áratugi.
Myndir: Svanhildur Egilsdóttir