Ráðgjöf óbreytt eftir síðustu loðnumælingar

Leiðarlínur Polar Ammassak (bleik) og Aðalsteins Jónssonar (blá) dagana 24. febrúar til 1. mars 2025… Leiðarlínur Polar Ammassak (bleik) og Aðalsteins Jónssonar (blá) dagana 24. febrúar til 1. mars 2025 norðvestur af Íslandi og dreifing loðnu (lengd þverlína á siglingastefnu skipanna sýnir þéttleikann).
Smellið á myndina til að sjá hana stærri.

Uppsjávarveiðiskipin Aðalsteinn Jónsson og Polar Ammassak voru í samvinnu við Hafrannsóknastofnun við loðnurannsóknir í síðustu viku. Markmiðið var að kanna hvort meira af loðnu hefði skilað sér inn á norðvesturmið síðan loðnumælingar fóru fram þar í fyrri hluta febrúarmánuðar. Magnið af loðnu sem mældist nú var ívið lægra en fyrri mælingin og því ljóst að ekkert hafi bæst við loðnugönguna. Fyrri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um veiðar á 8589 tonn loðnu á yfirstandandi vertíð stendur því óbreytt.

Mest af loðnunni var að finna á grunnunum út af Húnaflóa og Skagafirði (sjá skýringarmynd). Hafrannsóknastofnun áformar ekki fleiri loðnumælingar þennan veturinn.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?