Nýjar vísindagreinar um norsk-íslenska síld

Mynd 1. Dreifing (þúsundir á ferkílómeter) norsk-íslenskrar síldar samkvæmt bergmálsmælingum í Noreg… Mynd 1. Dreifing (þúsundir á ferkílómeter) norsk-íslenskrar síldar samkvæmt bergmálsmælingum í Noregshafi í maí á tímabilinu 1996-1998 (efst), 1999-2004 (í miðju) og 2005-2020 (neðst) fyrir 3-4 ára (til vinstri), 5-7 ára (í miðju) og 8-11 ára síld (til hægri).

Nýlega kom út sérhefti hjá tímaritinu Frontiers in Marine Science með 19 rannsóknagreinum um breytingar á umhverfi og vistkerfi sjávar í Norðaustur Atlantshafi.

Einn af ritstjórum þessa sérheftis er Teresa Sofia Giesta da Silva, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

Þessar rannsóknir fjalla meðal annars um hafeðlis- og efnafræði, frumframleiðni hafsins, sviflæg dýr, fisksjúkdóma og fiska. Samantekt og yfirlit ritstjóra heftisins um greinarnar 19 má finna í hlekk hér á eftir: Editorial: Physical drivers of biogeographical shifts in the Northeastern Atlantic – and adjacent shelves.

Tvær fræðigreinanna eru um rannsóknir á norsk-íslenskri síld sem byggja m.a. á gögnum Hafrannsóknastofnunar. Þær eru unnar í samvinnu hafrannsóknastofnana á Íslandi, í Færeyjum og Noregi og voru færeyskir fiskifræðingar aðalhöfundar beggja, þær Sólvá Káradóttir Eliasen og Eydna í Hömrum. Guðmundur J. Óskarsson sviðsstjóri Uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar var meðhöfundur að báðum greinunum.

Í fyrri greininni var landfræðileg dreifing norsk-íslenska síldarstofnsins samkvæmt gögnum frá alþjóðlegu síldarleiðöngrunum í maí, árin 1996-2020 rannsökuð og meðal annars hvort hún hefði breyst samfara breytingum á stofnstærð eða aldurssamsetningu í stofninum. Helstu niðurstöður voru að eldri og stærri síldin gengur lengra í vestur en sú yngri. Með stækkandi stofni jókst stærð útbreiðslusvæðisins og þéttleiki síldar varð meiri. Þá er talið líklegt að stórir árgangar, annars vegar frá 1991 og 1992, og hins vegar 1998 og 1999, hafi tekið upp nýtt göngumynstur 1999 og aftur 2005 sem restin af stofninum fylgdi. Greinina í heild má lesa í hlekk hér á eftir: Spatial Distribution of Different Age Groups of Herring in Norwegian Sea, May 1996–2020.

Í seinni greininni var markmiðið að rannsaka hvort breytingar hefðu orðið á líffræði síldarstofnsins um og eftir árið 2005 þegar hlýna fór í Noregshafi og aðliggjandi hafsvæðum. Greiningar á öllum aðgengilegum síldargögnum hafrannsóknastofnanna þriggja fyrir árin 1994-2019, árið um kring, sýndu að með hlýnun sjávar hefur síldin verið að öllu jöfnu styttri eftir aldri og í betri holdum en á tímabilinu á undan. Á sama tíma var magn átu í hafinu minna en verið hafði og aukin fæðusamkeppni var við makrílstofninn sem stækkaði mikið á þessum tíma, en makríleinstaklingar urðu magrari.

Rannsóknin sýndi að síldin náði að vera í þetta góðum líkamlegum holdum með því að færa megin sumarfæðuslóð sína í vestur átt, og þá norður og austur af Íslandi, jafnframt því að lengja viðveru á fæðuslóð fram eftir haustinu. Þannig hefur síldin verið í árlegri hámarks meðalþyngd eftir lengd í nóvember til desember síðustu 10 ár í staðinn fyrir september til október áður. Niðurstöður benda til þess að lengra fæðutímabil fram eftir haustinu hafi frekar skilað sér í þyngri kynkirtlum og þá aukinni framleiðslugetu, heldur en hraðari líkamsvexti. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að með hækkandi hitastigi hafi helsta fæða síldar, rauðáta, farið að koma upp tveimur kynslóðum yfir sumarið sem kann að skýra lengra fæðutímabil hjá síldinni fram eftir haustinu. Sjá greinina í heild í hlekk hér á eftir: Changes towards stable good somatic condition and increased gonad investment of Norwegian spring-spawning herring (Clupea harengus) after 2005 are linked to extended feeding period.

dreifing norsk-íslenskrar síldar samkvæmt afladagbókum

Mynd 2. Dreifing norsk-íslenskrar síldar samkvæmt afladagbókum íslenskra, færeyskra og norskra fiskiskipa á fimm ára tímabilum í júlí-september (efri myndir) og október-desember (neðri). Prósentan gefur hlutfall afla á ársgrundvelli sem tekið var á viðkomandi tímabili.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?