Mikilvægt starf Sjávarútvegsskóla GRÓ til að stuðla að sjálfbærum fiskveiðum í þróunarlöndum til umfjöllunar á opnum viðburði á Akureyri
Árangur af tæplega þriggja áratuga starfi Sjávarútvegsskóla GRÓ verður til umfjöllunar á opnum viðburði sem haldinn verður í Háskólanum á Akureyri 4. febrúar nk. kl. 10-11.15. Viðburðurinn, sem ber yfirskriftina „Frá þekkingu til áhrifa: mannauðsuppbygging til sjálfbærrar þróunar í sjávarútvegi, er haldinn í samstarfi utanríkisráðuneytisins, GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, Sjávarútvegsskóla GRÓ, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.
Á viðburðinum munu nemendur sjálfir segja frá því hvernig námið hefur nýst þeim til að stuðla að sjálfbærum fiskveiðum og uppbyggingu fiskeldis. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra mun flytja þar ávarp og Dr. Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri, bjóða gesti velkomna.
Nemendur eru allir sérfræðingar og tilnefndir til þátttöku vegna mikilvægra starfa sinna við að stuðla að sjálfbærum sjávarútvegi heima fyrir, en þeir starfa hjá samstarfsstofnunum GRÓ. Alls hafa 512 nemendur útskrifast frá Sjávarútvegsskóla GRÓ, frá 68 löndum, frá stofnun skólans árið 1997.
Sjávarútvegsskólinn er einn fjögurra skóla sem starfræktir eru á vegum GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, en í gegnum þá er íslenskri sérþekkingu sem nýtist þróunarlöndunum til að stuðla að sjálfbærri þróun komið á framfæri. Hinir skólarnir starfa á sviði jafnréttis, jarðhita og landgræðslu. Skólarnir hafa um áratugabil verið ein af lykilstoðum í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.
Sjávarútvegsskólinn er hýstur í Hafrannsóknastofnun og eru þar kenndar fjórar sérfræðilínur, þ.e. um fiskveiðistjórnun, stofnstærðarmat, gæðastjórnun í fiskiðnaði og fiskeldi. Sérfræðilína um fiskveiðistjórnun er kennd í Háskólanum á Akureyri. Gæðastjórnun í fiskiðnaði er kennd hjá Matís og sjálfbært fiskeldi og stofnmat hjá Hafrannsóknastofnun. Þá hafa íslensk fyrirtæki víða um land, m.a. í Eyjafirði, miðlað af þekkingu sinni til nemenda allt frá stofnun skólans og þannig sýnt fram á mikilvægiiðnaðarins við sjálfbæra nýtingu auðlinda hafs og vatna.
Meginávarp flytur Dr. Anthony Taabu-Munyaho hefur starfað við fiskrannsóknir í Úganda í um 25 ár, einkum við stofnstærðarmat í Viktoríuvatni sem er eitt stærsta vatn í heimi með ársafla um og yfir 1 milljón tonna. Hann kom til Íslands á vegum Sjávarútvegsskólans árið 2004 og útskrifaðist með doktorspróf í fiskifræði frá Háskóla Íslands árið 2014 á styrkveitingu frá Sjávarútvegsskólanum. Þá munu Dr. Olanrewaju Femi Olagunju frá Nígeríu, sem einnig hlaut doktorsstyrk í kjölfar þess að stunda nám við Sjávarútvegsskólann og tveir núverandi nemendur, Annakay Tishana Crawford frá Jamæku og Solomon Haeremai frá Papúa Nýju Gíneu taka þátt í pallborði sem Þór Ásgeirsson, forstöðumaður Sjávarútvegsskólans stýrir. Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ, mun loka viðburðinum og verður í kjölfarið boðið upp á léttar veitingar.
Viðburðurinn fer fram í sal M101 í Háskólanum á Akureyri, Norðurslóð 2. Hann fer fram á ensku og verður einnig í streymi. Upptakan verður aðgengileg eftir viðburðinn. Viðburðurinn er annar fjögurra viðburða þar sem fjallað er um áhrifin af starfi skólanna. Fyrsti viðburðurinn, um starfsemi Jarðhitaskóla GRÓ, fór fram þann 5. nóvember sl. í Háskóla Íslands. Næstu tveir viðburðir verða um Jafnréttisskóla GRÓ þann 3. mars og um Landgræðsluskóla GRÓ þann 7. maí, en þeir munu báðir fara fram í Háskóla Íslands.
Hér eru tenglar tengdir viðburðinum: Facebook viðburður | Skráning á viðburð (fyrir þau sem hyggjast mæta í raunheimum) | Streymi og upptaka