Makríll útbreiddur við landið

Útbreiðsla og þéttleiki makríls, síldar og hrognkelsa (rauðir fylltir hringir) ásamt hitastigi í yfi… Útbreiðsla og þéttleiki makríls, síldar og hrognkelsa (rauðir fylltir hringir) ásamt hitastigi í yfirborðslagi sjávar (10 m dýpi). Yfirborðstogstöðvar með engum afla af viðkomandi tegund er merktar með bláum punkt. Athugið að kvarði fyrir þéttleika er mismunandi milli tegunda.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson lauk þátttöku í árlegum uppsjávarvistkerfisleiðangri í Norðurhöfum að sumarlagi (IESSNS, International Ecosystem Summer Survey in the Nordic Seas) þann 21. júlí. Í þessum 18 daga leiðangri Árna kringum landið voru teknar 48 togstöðvar og sigldar um 3800 sjómílur eða 7 þúsund km. Þá voru gerðar sjómælingar og teknir átuháfar á öllum yfirborðstogstöðvum.

Rannsökuð var útbreiðsla og þéttleiki makríls, síldar og kolmunna í íslenskri landhelgi að undanskildum austurhluta hennar sem Færeyingar og Norðmenn rannsökuðu. Bráðbirgðaniðurstöður sýna að magn og útbreiðsla makríls í íslenskri landhelgi er mun meira en undanfarin tvö sumur, sjá mynd. Makríll fannst meðfram suður- og vesturströnd landsins, bæði á landgrunninu og utan þess. Fyrir sunnan, fannst makríll í Íslandsdjúpi suður að 62 °N breiddargráðu en makríll hefur ekki fengist í þessum leiðangri svo sunnarlega síðan sumrið 2016. Bráðabirgðaniðurstöður frá norsku og færeyska rannsóknarskipinum sýndu að makríll var einnig að finna austan við land.

Líkt og undanfarin ár var norsk-íslenska vorgotssíld að finna á flestum togstöðvum fyrir norðan og austan landið og íslensk sumargotssíld á landgrunninu fyrir sunnan og vestan landið. Kynþroska kolmunni mældist við landgrunnsbrúnina sunnan og vestan við landið. Magn og útbreiðsla hrognkelsa var minni í ár en undanfarin ár. Í leiðangrinum voru merkt alls 64 hrognkelsi.

Bráðabirgðaniðurstöður sýna að hitastig í yfirborðslagi var álíka og sumarið 2021 og aðeins hlýrra en sumarið 2020.

Gögn frá skipunum sex sem tóku þátt í leiðangrinum verða tekin saman og greind upp úr miðjum ágúst og niðurstöður kynntar undir lok ágúst.

Útbreiðsla og þéttleiki makríls, síldar og hrognkelsa (rauðir fylltir hringir) ásamt hitastigi í yfirborðslagi sjávar (10 m dýpi). Yfirborðstogstöðvar með engum afla af viðkomandi tegund er merktar með bláum punkt. Athugið að kvarði fyrir þéttleika er mismunandi milli tegunda.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?