Makríll.
Mynd: Svanhildur Egilsdóttir.
Rannsóknaskipið Árni Friðriksson lauk þátttöku þann 25. júli í árlegum alþjóðlegum uppsjávarvistkerfisleiðangri í Norðurhöfum að sumarlagi. Í þessum 26 daga leiðangri Árna kringum Ísland og Jan Mayen voru teknar 56 togstöðvar, þar af 46 staðlaðar og fyrirfram ákveðnar yfirborðstogstöðvar, og sigldar um 5000 sjómílur eða ríflega 9 þúsund km. Þá voru gerðar sjómælingar og teknir átuháfar á öllum yfirborðstogstöðvum.
Líkt og undanfarin ár tóku skip frá Noregi, Færeyjum og Danmörku þátt í leiðangrinum. Gögn frá skipunum fimm verða tekin saman og greind upp úr miðjum ágúst og niðurstöður kynntar undir lok ágúst. Bráðabirgðaniðurstöður íslenska hlutans liggja hinsvegar fyrir.
Þéttleiki makríls við landið sá minnsti sem mælst hefur.
Minnsti þéttleiki makríls síðan 2010
Bráðbirgðaniðurstöður mælinga sýna að þéttleiki makríls í íslenskri landhelgi er sá minnsti sem mælst hefur síðan leiðangurinn var fyrst farinn sumarið 2010. Makríll veiddist á 13 af 46 yfirborðstogstöðvum sem allar voru á austanverðu svæðinu (mynd 1, efst). Aflinn var lítill eða var frá 0,5 kg til 23 kg. Heildarafli makríls í leiðangrinum var einungis 97 kg eða 164 fiskar. Makríllinn var stór með meðallengd 40 cm og meðalþyngd 590 g.
Síld mældist umhverfis landið
Líkt og undanfarin ár var norsk-íslenska vorgotssíld að finna á mörgum togstöðvum fyrir norðan og austan landið. Þá fékkst íslensk sumargotssíld á landgrunninu fyrir sunnan og vestan landið líkt og jafnan (mynd 1, miðja, sjá neðst).
Mikið af kolmunna
Kolmunni mældist við landgrunnsbrúnina austan, sunnan og vestan við landið í meiri þéttleika en síðustu sumur. Þá fékkst kolmunni í 8 yfirborðstogstöðvum fyrir austan og sunnan landið sem er óvengjulegt (mynd 1, neðst). Meðalstærð kolmunna var 23 cm og 84 g.
Loðna á stóru svæði fyrir norðan land
Loðna fannst á átta togstöðvum, þarf af voru sjö yfirborðstogstöðvar, fyrir norðan landið og fyri sunnan Jan Mayen (mynd 1, neðst). Stærð loðnunnar var frá 9 cm til 19 cm og að meðaltali var loðnan 16 cm og vóg 20 g. Það er sjaldgæft að fá loðnu á eins stóru svæði í leiðangrinum þó það hafi gerst áður að loðna hafi fengist á 1-3 togstöð í Grænlandssundi.
Bráðabirgðaniðurstöður sýna að hitastig í yfirborðslagi sjávar var hærri en sumarið 2024 allt umhverfis landið. Veðrið var einstaklega lygnt í leiðangrinum. Það er líklegt að þetta hafi valdið því að yfirborðslagið hélst stöðugt í langan tíma, sem gefur sólinni tækifæri til að hita það.

Mynd 1. Útbreiðsla og þéttleiki samkvæmt yfirborðstogum (rauðir fylltir hringir) á makríl (efst), síld (miðja), loðnu (neðst; rauðir hringir) og kolmunna (neðst; bláir fylltir hringir með dýpri togum) ásamt leiðarlínum skipsins (svört lína). Yfirborðstogstöðvar með engum afla af viðkomandi tegund eru táknaðar með svörtum kross. Athugið að kvarði fyrir þéttleika er mismunandi milli tegunda. Einnig eru sýndar dýptarlínur fyrir 200 m, 500 m og 1000 m.