Mælingar á stærð loðnustofnsins í janúar 2018

Mælingar á stærð loðnustofnsins í janúar 2018

Í september - október 2017 fóru fram mælingar á stærð loðnustofnsins. Þá fannst kynþroska loðna aðallega á og við landgrunnið við Austur Grænland. Í þeim leiðangri mældust samtals 945 þúsund tonn af kynþroska loðnu og mæliskekkja (CV) var 0.29. Í framhaldi þeirra mælinga var, í samræmi við gildandi aflareglu, úthlutað 208 þúsund tonnum en jafnframt kom fram að ráðgjöfin yrði endurskoðuð í ljósi niðurstaðna veturinn 2018. Þær mælingar hófust um miðjan janúar og er nú lokið. Í mælingunum tóku þátt rannsóknaskipin Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson en auk þeirra tók uppsjávarskipið Polar Amaroq fullan þátt í verkefninu. Uppsjávarskipin Aðalsteinn Jónsson SU, Álsey VE, Bjarni Ólafsson AK, Beitir NK, Heimaey VE, Jóna Eðvalds SF, Sigurður VE, Venus NS og Víkingur NS aðstoðuðu við mælinguna sem leitarskip hluta af tímanum.

Rannsóknasvæðið í janúar var landgrunnið og landgrunnsbrúnin frá Grænlandssundi, austur með Norðurlandi og út af Austfjörðum. Gerðar voru 2 mælingar á veiðistofninum. Sú fyrri fór fram dagana 17. - 22. janúar og fannst kynþroska loðna frá norðanverðum Austfjörðum norður um og vestur fyrir Kolbeinseyjarhrygg (mynd 1). Þar fyrir vestan var einkum að finna ungloðnu. Þar sem veður var slæmt þegar mælingu var um það bil að ljúka leituðu skipin vars. Síðari yfirferðin fór fram dagana 25. - 31. janúar á svæðinu frá sunnanverðum Vestfjörðum og norður um, allt að Austfjörðum (mynd 2). Veður var viðunandi á meðan mælingar fóru fram en þó náðist ekki að skoða svæðið út af Vestfjörðum í fyrri yfirferðinni.

Um 849 þúsund tonn af kynþroska loðnu mældust í fyrri yfirferðinni og mæliskekkja var metin 0.38 sem er mesta mæliskekkja sem sést hefur frá því að aflaregla var tekin upp árið 2015. Í síðari yfirferðinni mældust um 759 þúsund tonn og mæliskekkjan metin 0.18.

Þar sem ekki er marktækur munur á niðurstöðum allra þessara mælinga voru þær notaðar saman til framreikninga og ákvörðunar aflamarks samkvæmt aflareglu.

Gildandi aflaregla byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar með 95% líkum. Tekur aflareglan tillit til óvissumats í mælingunum, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk þess sem afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu er metið. Samkvæmt samantekt endurtekinna bergmálsmælinga er metið að hrygningarstofn loðnu hafi verið 849 000 tonn hinn 15. janúar. Þá er tekið tillit til þess afla sem hafði veiðst þegar mælingar voru gerðar. Í samræmi við ofangreinda aflareglu verður heildaraflamark á vertíðinni 2017/2018 því 285 þúsund tonn, eða 77 þúsund tonnum hærra en ákvarðað var í október síðastliðnum.

Mynd 1. Útbreiðsla loðnu og leiðarlínur rs. Bjarna Sæmundssonar, rs. Árna Friðrikssonar og uppsjávarskipsins Polar Amaroq dagana 17. – 22. janúar. 

Mynd 1. Útbreiðsla loðnu og leiðarlínur rs. Bjarna Sæmundssonar, rs. Árna Friðrikssonar og uppsjávarskipsins Polar Amaroq dagana 17. – 22. janúar.

Mynd 2. Útbreiðsla loðnu og leiðarlínur rs. Bjarna Sæmundssonar, rs. Árna Friðrikssonar og uppsjávarskipsins Polar Amaroq dagana 25. – 31. janúar.

Mynd 2. Útbreiðsla loðnu og leiðarlínur rs. Bjarna Sæmundssonar, rs. Árna Friðrikssonar og uppsjávarskipsins Polar Amaroq dagana 25. – 31. janúar.

Tengd skjöl:


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?