Hnúðlax hrygnir fyrr en aðrir laxfiskar og drepst því næst

Hnúðlax hrygnir fyrr en aðrir laxfiskar og drepst því næst

Á dögunum var farið í ádráttarveiði* í Staðará í Steingrímsfirði og þar veiddust 23 hnúðlaxar neðarlega í ánni. Veiðifélag árinnar kom aflanum til Hafrannsóknastofnunar til rannsókna. M.a. kom fram að hrygning þeirra er að hefjast en hnúðlax hrygnir mun fyrr en aðrir laxfiskar hér á landi. Einnig að hnúðlaxar drepast allir að lokinni hrygningu.

Rannsóknir eru unnar í samstarfi við vísindamenn í Bretlandi og Noregi, m.a. í samstarfi við Queen Mary háskólann í London, og snúa meðal annars að því að skoða uppruna hnúðlaxanna, hvort þeir hafi klakist út í ám hér á landi eða hvort um sé að ræða fiska sem alist hafa upp í ám í Noregi eða Rússlandi. Með greiningu á efnainnihaldi í kvörnum fiskanna má greina hvort og þá í hve miklum mæli veiddir hnúðlaxar eru undan hafa klakist út í ám á Íslandi og eða hvort þeir séu enn að berast annarsstaðar frá. Jafnframt verður skoðað í samstarfi við Háskóla Íslands, magn þungmálma eða annara mengunarefna í fiskunum.

Til að fylgjast með útbreiðslu og fjölda hnúðlaxa er mikilvægt að veiðimenn skrái veidda hnúðlaxa í veiðibækur en veiðifélög hafa einnig fengið leyfi Fiskistofu til að veiða hnúðlaxa með ádrætti með netum og stemma þannig stigu við fjölgun þeirra.

Mikilvægt að auka þekkingu á hnúðlaxi og áhrifum hans á lífríki í ám hér á landi. Hafrannsóknastofnun tekur þátt í rannsóknum á hnúðlöxum og óskar eftir að fá hnúðlaxa til rannsókna.

*ádráttarveiði fer þannig fram að net er dregið eftir botni árinnar í stað þess að vera lagt eins og þegar um hefðbundnar netaveiðar í ám er að ræða. 

Á myndinni má sjá afla hnúðlaxa sem veiddir voru í Staðará í Steingrímsfirði 17. ágúst.
Hnúður, og tennur sem hængurinn fær á hrygningartíma má sjá á efri myndinni.
Einnig má sjá Svein Kára Valdimarsson býsna íbygginn en hann starfar sem sérfræðingur
á sviði nýtingar og verndunar laxastofna hjá Hafrannsóknastofnun. 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?