Meðaltal sjávarhita (°C) á 0-50 m dýpi í hafinu umhverfis Ísland, í maí 2025. Þykk svört lína sýnir 5 °C jafnhitalínu. Þunn svört lína sýnir 500 m dýptarlínu og punktarnir sýna mælistöðvarnar. Lituðu kassarnir sýna staðsetningu stöðvanna sem sýndar eru á mynd. Sjá nánar í frétt (Mynd 2).
Árlegur vorleiðangur Hafrannsóknastofnunar stóð yfir 13. - 26. maí síðastliðinn, þar sem nýtt rannsóknaskip stofnunarinnar, Þórunn Þórðardóttir, var notað í fyrsta sinn í þessu umfangsmikla verkefni. Leiðangurinn er hluti af langtímavöktun á ástandi sjávar (hiti og selta) og rannsóknum á næringarefnum, ólífrænu kolefni, plöntusvifi og dýrasvifi við Ísland.
Síðan um 1950 hefur Hafrannsóknastofnun staðið fyrir sambærilegum athugunum að vori eða snemma sumars, á föstum mælistöðvum á 13 sniðum sem liggja út frá landinu (mynd 1). Í ár voru mælingar gerðar á samtals 114 stöðvum í kringum landið, bæði á landgrunninu og utan þess. Á völdum stöðvum var einnig safnað sýnum vegna rannsókna á karbónatkerfi sjávar og til mælinga á geislavirkum efnum.

Mynd 1. Meginhafstraumar í yfirborðslögum umhverfis Ísland og lögun hafsbotnsins. Sýndar eru þær stöðvar þar sem reglubundnar mælingar eru gerðar ásamt nöfnum sniðanna. Rauðar örvar tákna heitan og saltan Atlantssjó, bláleitar örvar seltuminni og kaldari pólsjó eða svalsjó.
Niðurstöður leiðangursins verða kynntar á ítarlegri hátt seinna í skýrslu en frumniðurstöður eru kynntar hér.
Ástand sjávar
Hiti og selta í efstu 50 m sjávar (myndir 2 og 3) voru yfir meðaltali viðmiðunartímabilsins 1991-2020 úti fyrir Suður- og Suðausturlandi. Einnig voru hiti og selta vel yfir meðaltali úti fyrir Norðurlandi en það bendir til mikils innstreymis hlýs og selturíks Atlantssjávar undanfarna mánuði inn á landgrunnið norðanlands (myndir 2 og 3). Atlantssjórinn náði óvenju djúpt á Siglunessniðinu, niður fyrir 200 m (mynd 4), sem gæti, ásamt veðuraðstæðum, hafa leitt til þess háa hita sem mældist við yfirborðið.

Mynd 2. a) Meðaltal sjávarhita (°C) á 0-50 m dýpi í hafinu umhverfis Ísland, í maí 2025. Þykk svört lína sýnir 5 °C jafnhitalínu. Þunn svört lína sýnir 500 m dýptarlínu og punktarnir sýna mælistöðvarnar. Lituðu kassarnir sýna staðsetningu stöðvanna sem sýndar eru á mynd 4. b) Frávik í hita miðað við meðaltal í maí árin 1991-2020
Á Kögursniði náðist einungis að mæla á 4 af 6 stöðvum þar sem hafís hindraði för skipsins. Á ystu tveim stöðvunum var pólsjór sem hefur lága seltu og hitastig og hefur borist með Austur Grænlandsstraumi (myndir 2 og 3). Yfirborðshiti þar var -0,5 °C, sem er 4 °C undir meðaltali.

Mynd 3. a) Meðaltal seltu á 0-50 m dýpi í hafinu umhverfis Ísland, í maí 2025. Þykk svört lína sýnir 5 °C jafnhitalínu. Þunn svört lína sýnir 500 m dýptarlínu og punktarnir sýna mælistöðvarnar. b) Frávik í seltu miðað við meðaltal í maí árin 1991-2020.
Á öðrum svæðum kringum landið voru hiti og selta í efstu 50 metrunum nálægt meðaltali viðmiðunartímabilsins (myndir 2 og 3).
Yfirborðslagið (0-5 m) úti fyrir Norðurlandi var mjög hlýtt, en yfirborðslagið getur tekið hröðum breytingum, einkum vegna veðuráhrifa. Í yfirborði út af norður- og norðausturhluta landsins mældist hæsta hitastig sem mælst hefur, náði það 7,8°C við Siglunes, sem er 3,2°C yfir meðaltali áranna 1991-2020, og 6,2°C austur af Langanesi sem er nærri maímeti frá árinu 1957 (mynd 4). Á suðursvæðinu mældist yfirborðshiti á Selvogsbanka 9,8°C sem er yfir meðallagi. Lofthiti og veðurfar léku stórt hlutverk. Bjartur himinn dagana fyrir mælingar leiddi til mikillar varmageislunar frá sólu til sjávar. Á sama tíma dró úr blöndun sjávar vegna hægviðris, sem leiddi til hraðrar hlýnunar yfirborðslagsins.

Mynd 4. a-d) Dýptarferlar fyrir hitastig á völdum stöðvum í maí. Gráu línurnar sýna ferla áranna 1991 til 2020, og þær svörtu tákna meðaltal. Fjólubláa línan táknar ferilinn í maí 2025. Lituðu boxin tákna stöðvar sem eru litaðar á mynd 2a. e-h) Dýptarferlar fyrir seltu á sömu stöðvum í maí. Ljósrauðu línurnar sýna ferla áranna 1991 til 2020, og þær rauðu tákna meðaltal. Fjólubláa línan táknar ferilinn í maí 2025. Staðsetning stöðvanna er gefin til kynna með lituðu reitunum á mynd 2a.
Plöntusvif
Töluverður gróður var á flestum svæðum kringum landið og á nokkrum svæðum mældist styrkur blaðgrænu yfir 5 mg/m3 (mynd 5).

Mynd 5. Flúrljómun mæld 13. - 26. maí 2025, en hún gefur mat á styrk blaðgrænu (mg/m3), og þar með lífmassa plöntusvifs á 0-20 m dýpi í hafinu umhverfis Ísland.
Tegundasamsetning svifþörunga var misjöfn eftir svæðum. Í háfsýnum mátti sjá mikið af ættkvíslinni Pseudo-nitzschia suður og suðvestur fyrir landi, Phaeocystis og Thalassiosira fyrir norðvestan og norðan land en fyrir austan sáust helst Chaetoceros, Thalassiosira og Rhizosolenia (mynd 6).

Mynd 6. Nokkrar helstu ættkvíslar svifþörunga sem fundust í vorblómanum a) Pseudo-nitzschia b) Thalassiosira c) Phaeocystis og d) Chaetoceros
Dýrasvif
Þéttleiki dýrasvifs var mest norður og norðaustur af landinu (mynd 7). Magn dýrasvifs í yfirborðslögum var þónokkuð yfir langtímameðaltali á Norðurmiðum, í meðallagi fyrir austan en undir meðallagi fyrir vestan og sunnan land.
Í samanburði við vorið 2024 var magn dýrasvifs talsvert meira í ár fyrir norðan og austan en aðeins minna magn fyrir vestan og sunnan.

Mynd 7. Þéttleiki dýrasvifs af millistærð í yfirborðslögum 13. - 26. maí 2025 (g þurrvigt m-2, 0-50m).
Krabbaflóin rauðáta (Calanus finmarchicus) var áberandi í flestum háfsýnum sem tekin voru í yfirborðslögum. Á ystu stöðvum fyrir norðan og austan var kaldsjávar systurtegund rauðátunnar, póláta (C. hyperboreus), ríkjandi í lífmassa en póláta er þónokkuð stærri en rauðáta (mynd 8) sem endurspeglar hærri lífmassa djúpt fyrir norðan og austan land.

Mynd 8. Samanburður á rauðátu (neðri) og pólátu (efri) en rauðátan er 2-3 mm fullvaxin og póláta um 6-8 mm fullvaxin. Myndin tekin í gegnum víðsjá um borð í Þórunni Þórðardóttur. Ljósmyndari: Sólrún Sigurgeirsdóttir.
Útbreiðsla og magn ljósátu var metin með bergmálsaðferð. Ljósátumagnið reyndist mest á landgrunninu norður, norðaustur, suður af landinu.
Samantekt
Hiti og selta í efstu 50 metrum sjávar voru yfir meðaltali áranna 1991–2020 við Suður-, Suðaustur- og Norðurland, sem bendir til innstreymis hlýs og selturíks Atlantssjávar. Á Kögursniði mældist hins vegar kaldur og ferskur pólsjór á ystu stöðvunum og yfirborðshiti þar fór allt að 4 °C undir meðaltal. Magn plöntusvifs var töluvert allt í kringum landið og mesti þéttleiki dýrasvifs var norður og norðaustur af landinu.