Gefur sjávarhiti síðastliðið sumar von um góða smálaxaveiði á Vesturlandi sumarið 2020?

Ljósm. Hafrannsóknastofnun Ljósm. Hafrannsóknastofnun

Ævinlega ríkir mikil spenna hjá veiðimönnum fyrir komandi sumri og hversu margir laxar eiga eftir að skila sér upp í veiðiárnar. Í vetur birtist grein eftir Olmos og fleiri þar sem skoðuð voru áhrif umhverfisþátta í sjó á endurheimtur hópa laxastofna við Atlantshaf. Þar á meðal voru íslenskir laxastofnar af sunnan og vestanverðu landinu. Skoðuð voru áhrif yfirborðshita sjávar og frumframleiðni á svæðum sem eru talin líkleg beitarsvæði laxa í hafi. Hafsvæðið sem íslensku stofnarnir eru taldir halda sig á byggir á niðurstöðum úr rannsókn þar sem gönguseiði voru merkt með mælimerkjum frá Stjörnu-Odda sem Veiðimálastofnun (nú Hafrannsóknastofnun) stóð fyrir og sýndi mikilvæg fæðusvæði suð-vestan við landið. Hjá flestum stofnahópum við Norður-Atlantshaf sýndi sjávarhiti lítil eða neikvæð tengsl við endurheimtur. Íslensku stofnarnir skáru sig úr hvað það varðar þar sem sterk jákvæð tengsl voru milli sjávarhita og endurheimta.

Við höfum fylgst með yfirborðshita sjávar síðustu ár og tengslum hans við laxgengd en gögn um hitann eru aðgengileg hjá bandarísku veðurfræðistofnuninni (NOAA).  Þegar litið er á svæðið frá 35° til 20° vestur og 60° til 65° norður (sjá 1. mynd) sýnir meðalhiti á þessu svæði í júlí góð tengsl við smálaxaveiði á Vesturlandi ári síðar (2. mynd). Í júlí 2019 var sjórinn á umræddu svæði hlýrri en áður hefur mælst eða að meðaltali 11,75°C.

Ef gert er ráð fyrir að sama samband haldist þegar hitinn fer svo hátt upp gerir línulegt samband ráð fyrir rúmlega 21 þúsund  fiska veiði smálaxa á Vesturlandi 2020 en rúmlega 25 þúsunda laxa veiði ef gert er ráð fyrir að sambandið sé 2. stigs margliða. Rétt er þó að vekja athygli á að töluverður breytileiki er til staðar þó að sambandið sé sterkt. Til að mynda er mikill munur á veiðinni 2008 og 2011 þrátt fyrir sambærilegt hitastig þau ár.

Lífsferill laxa er flókinn þar sem fjölmargir þættir geta haft áhrif á fjölda göngulaxa og laxveiðina hverju sinni. Þó að laxveiði sé háð fjölda göngulaxa getur verið töluverður breytileiki í veiðihlutfalli og endurveiðihlutfalli þar sem stundað er að veiða og sleppa, en ekki var reynt að leiðrétta fyrir þeim þáttum hér. Helstu áhrifaþættirnir á fjölda göngulaxa eru einkum breytileg framleiðsla gönguseiða í ánum og breytileg afföll í sjávardvölinni.  Hér er eingöngu unnið með tengsl sjávarhita við laxveiði ári síðar en mjög áhugavert væri að gera spálíkan þar sem fleiri breytur væru notaðar sem tengjast seiðaframleiðslu ánna og frumframleiðni sjávar. Loftlagsbreytingar eru ekki einungis að hafa áhrif á hitastig sjávar en breytingar á seltu, sýrustigi og hafstraumum geta einnig haft mikil áhrif á lífríkið. Erfitt getur verið að spá fyrir áhrif umhverfisþátta þegar gildi sem ekki hafa sést áður koma fram. Hér er eingöngu unnið með gögn sem tengjast veiði á Vesturlandi en mjög áhugavert væri einnig að hefja rannsóknir á slíku sambandi í öðrum landshlutum sérstaklega Norður- og Austurlandi. Til þess þarf að merkja laxaseiði með mælimerkjum til að staðsetja beitarsvæði, en líklegt er að lax frá þessum landsvæðum noti önnur beitarsvæði en lax frá Suður- og  og Vesturlandi. 

Miðað við yfirborðshita sjávar sumarið 2019 og þau tengsl sem hafa komið fram við laxgengd eru góðar vísbendingar um að von geti verið á góðum smálaxgöngum í ár á sunnan- og vestanverðu landinu á komandi sumri en stangveiði á laxi í þessum landshluta eru yfirleitt um 40% af heildarveiði náttúrulegra laxastofna á landinu.

mynd sem sýnir sjávarhita

  1. mynd. Sjávarhiti í júlí 2019 á svæðinu frá 20°-35°W og 60°-65°N.samband smálaxaveiði við sjávarhita
  2. mynd. Samband smálaxaveiði á Vesturlandi við sjávarhiti í júlí árið áður í hafinu suðvestur af Íslandi. Bláa línan sýnir línulegt samband og sú svarta 2. stigs margliðu. 

Grein Olmos og fleiri.

Grein um far íslenskra laxa í sjó.

Höfundar þessarar samantektar eru Jóhannes Guðbrandsson og Sigurður Már Einarsson, starfsstöð þeirra er á Hvanneyri

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?