Fyrsta kjör Íslands í framkvæmdastjórn alþjóðahaffræðinefndarinnar

Fyrsta kjör Íslands í framkvæmdastjórn alþjóðahaffræðinefndarinnar

Ísland hlaut í gær kjör til setu í framkvæmdastjórn alþjóðahaffræðinefndar Menningarmálastofnunar Sameinuðu Þjóðanna (IOC, Intergovernmental Oceanographic Commission of UNESCO) fyrir tímabilið 2023-2025.

Kosningarnar fóru fram á aðalfundi í höfuðstöðvum UNESCO í París. 

Hrönn í framkvæmdastjórn IOC fyrir Ísland

Hrönn Egilsdóttir, sviðsstjóri á umhverfissviði Hafrannsóknastofnunnar mun taka þátt í störfum nefndarinnar fyrir hönd Íslands. Er þetta í fyrsta sinn sem Ísland gegnir þessu hlutverki eftir að hafa gerst aðili að nefndinni árið 1962. Aðildarríki alþjóðahaffræðinefndarinnar IOC-UNESCO eru 150 talsins og eiga fjörutíu ríki sæti í framkvæmdastjórn.

Vladimir Ryabinin, framkvæmdastjóri IOC og sendinefnd Íslands á aðalráðstefnunni; Kristín Halla Kristinsdóttir frá fastanefnd Íslands gagnvart UNESCO, Hrönn Egilsdóttir, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun og formaður sendinefndar og Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofunnar.

Hlutverk alþjóðahaffræðinefndarinnar

Starfsemi alþjóðahaffræðinefndarinnar byggir á alþjóðasamstarfi á sviði hafvísinda. Alþjóðahaffræðinefndin er meðal annars í forystu fyrir Áratug hafsins (Ocean Decade) á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Eitt af hlutverkum nefndarinnar er að fjalla um og móta stefnu um hvernig taka skuli á stórum áskorunum tengdum loftslagsbreytingum, súrnun sjávar og líffræðilegri fjölbreytni í hafi. Nefndin leggur áherslu á hafrannsóknir, gögn og nýtingu þeirra í víðum skilningi. Þróunarsamvinna er einnig mikilvægur hluti af starfsemi IOC.

Mikilvægir hagsmunir Íslands

Á vettvangi IOC er unnið grundvallarstarf á hafsviðinu sem snertir mikilvæga hagsmuni Íslands, m.a. efling rannsókna og nýsköpunar. Áhersla er lögð á stuðning við framfylgd heimsmarkmiðs 14 um hafið og að ákvarðanir þar að lútandi séu teknar á vísindalegum grunni.

Aukið samtal og samvinna innan lands sem utan 

Aukin þátttaka Íslands í starfi IOC kallar á aukið samtal og samvinnu á milli stofnanna og ráðuneyta sem fara með málefni hafsins. Hafrannsóknastofnun fagnar kjöri Hrannar Egilsdóttur fyrir hönd Íslands í framkvæmdastjórn IOC og hlakkar til að taka þátt í þeirri mikilvægu vinnu sem framundan er.

IOC-UNESCO: https://www.ioc.unesco.org/en


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?