Fiskar eða fæðingar; það var um þetta tvennt að velja

Unnur Skúladóttir fiskifræðingur ung að árum. Þessi mynd, sem er í eigu Ljósmyndasafns Reykjavíkur o… Unnur Skúladóttir fiskifræðingur ung að árum. Þessi mynd, sem er í eigu Ljósmyndasafns Reykjavíkur og tekin af Sigurði Gunnarssyni, er allþekkt og hefur m.a. verið nýtt af Sjóminjasafninu.

Alþjóðlegur dagur kvenna í vísindum: Viðtal við Unni Skúladóttur fiskifræðing:

Það var nú eiginlega alger tilviljun skal ég segja þér!“ segir Unnur Skúladóttir fiskifræðingur og frumkvöðull í rækjurannsóknum við Ísland, aðspurð hvað hafi ráðið því að hún hóf nám í fiskifræði í Glasgow árið 1959 og lagði í kjölfarið út á braut fiskivísinda. Unnur var þriðja íslenska konan sem lagði fyrir sig fiskifræði og var í kjölfarið ráðin var til Atvinnudeildar Háskóla Íslands, undanfara Hafrannsóknastofnunar, árið 1963.

„Ég hugsaði með mér að það væri annað hvort fiskifræði eða ljósmóðurnám, ég myndi láta kylfu ráða kasti“. Ekki alveg sitthvor hliðin á sama peningi en deginum ljósara að þessi eldskarpa kona hefði brillerað sem ljósmóðir engu síður en fiskifræðingur.

Salka Valka á Suðurnesjum

Unnur viðurkennir þó að ef til vill hafi fiskifræðin ekki eingöngu verið alger tilviljun; það er oft eitt og annað í lífi fólks og umhverfi sem beinir því á ákveðnar brautir. Hún nefnir að á æskuárum sínum og fram á unglingsaldur hafi hún verið mikið í sveit hjá afa sínum og ömmu í Nýlendu við Hvalsnes. Þar sinnti hún almennum sveitastörfum, en þar var einnig mikið kríuvarp sem nýtt var sem búbót og lagði á vissan hátt grunn að áhuga hennar á dýrafræði. En bærinn var einnig útvegsbýli og því voru líka stundaðir sjóróðrar þaðan.

„Á Miðnesi var meira jafnrétti kynjanna þegar kom að atvinnuþátttöku en víða annars staðar. Þannig að ég sem kaupakona var tekin sjálfsögð sem sjómaður líka. Mér voru útveguð klofstígvél og svartur síður sjóstakkur. Sjómönnum frá Sandgerði fannst ég forvitnileg og spurðu hvort þarna væri Salka Valka mætt?“ Hún segir að á unglingsárum sínum hafi hún róið upp á hlut og aflanum verið landað í Sandgerði og að henni hafi þótt einstaklega gaman að stunda skak og aðrar fiskveiðar.

„Mig langaði alltaf að læra dýrafræði en eflaust sat í mér þessi ánægjulega reynsla mín af sjó og fiskveiðum úr æsku minni sem beindi mér á braut fiskifræðanna. En svo voru aðrir hlutir sem höfðu áhrif. Ég man að ég hafði verið að velta því fyrir mér að fara að vinna eftir stúdentspróf og geyma framhaldsnám. En pabbi vildi ekki heyra á það minnst og hvatti mig eindregið að halda áfram í námi. Það hafði áhrif á mig en einnig sú staðreynd að þegar að því kom að ákveða mig, var vinkona mín Elín Ólafsdóttir sem síðar varð læknir, búin að skrá sig í nám í lífefnafræði í Glasgow. Ég ákvað þá bara að slá til líka og sótti um nám í dýrafræði í Háskólanum í Glasgow,” segir Unnur.

Kærastinn sat heima í festum

Síðar á lífsleiðinni átti Unnur eftir að taka þriggja ára leyfi frá störfum og fylgja manni sínum í sérnám til Danmerkur. En skyldi hann hafa fylgt henni til Glasgow eftir stúdentspróf, voru þau búin að rugla saman reitum strax um tvítugt? „Já já, svara Unnur og hlær. Við urðum par snemma, en hann sat bara heima í festum meðan ég kláraði námið!“

Unnur nefnir að við þetta megi bæta að hún hafi síður en svo verið án fyrirmynda í lífinu; fjölskylda hennar var þannig séð tvískipt og báðir helmingar höfðu mikil áhrif á hana. Annars vegar ómenntaðir dugnaðarforkar af Suðurnesjum sem kenndu henni á öldur og líf hafsins og hins vegar menntafólk í Reykjavík. „Katrín Thorodssen læknir og þingkona var til að mynda ömmusystir mín og hún sýndi mér og fleiri konum fram á að kynið þurfi ekki að þvælast fyrir hafi kona metnað til að mennta sig. Þó hafi það síður en svo verið sjálfsagt, upp úr miðbiki síðustu aldar, að velja sér starfsframa við vísindastörf sem var einokaður af körlum. Hún studdi mig alltaf í mínum ákvörðunum. Þannig að ég átti fyrirmyndir í eigin fjölskyldu en stór fyrirmynd mín var einnig Jakob Jakobsson fiskifræðingur sem var þekktur í umræðunni vegna síldarrannsókna. Og hann lærði einmitt í háskólanum í Glasgow.“

Unnur segir að sér hafi almennt verið vel tekið eftir að hún kom heim frá námi. Hún hafi að vísu frétt það löngu eftir að hún hóf störf, að ekki hafi átt að ráða hana eingöngu vegna þess að hún var kona en að gott fólk hafi hunsað þau fyrirmæli. Hún hafi sem betur fer ekki frétt þetta fyrr en löngu seinna. Sem reyndist mikill akkur fyrir íslenskt samfélag og fiskivísindin.

Þekktust fyrir grein um stærð rækju við kynskipti

Eins og fyrr segir er Unnur frumkvöðull í rækjurannsóknum hér við land. Hún segir líka að þessi fókus á rækjur hafi verið ákveðin tilviljun. Hún hafi ekki endilega valið rækjuna heldur hafi hún einfaldlega sinnt þeim verkefnum sem hún fékk í fangið og málin þróast með þessum hætti.

„Í rækjurannsóknum lagði ég mitt af mörkum með því að áætla aldur á rækju og notaði aðferð norska fiskifræðingsins Oscars Sund til þess. Ég breytti aðferð hans dálítið og kallaði hana frávikaðferð. Aðferðin felst í því að taka saman lengdardreifingar t.d. á einum firði og breyta í hlutfallslega tíðni. Meðallengdardreifingar margra ára eru notaðar sem grunnur, en því næst er lengdardreifing hvers árs dregin frá meðallengdadreifingu margra ára og er þá hægt að fylgjast með jákvæðum frávikum sem færast upp í lengd ári seinna. Í raun er þarna fylgt eftir sterkum árgöngum,” segir Unnur.

Unndur átti margar góðar stundir á Dröfninni (Dröfn RE35) sem var rannsóknaskip
Hafrannsóknastofnunar frá 1984 - 2005

Hún telur sig þó vera þekktust, ásamt Gunnari Péturssyni, fyrir grein um stærð rækju við kynskipti í sambandi við mestu lengd kvendýra. Hún segir að í kringum landið séu margir rækjustofnar. „Fyrstu ár ævi rækjunnar er hún karldýr, en eftir vissan árafjölda skiptir rækjan um kyn og er kvendýr upp frá því. Vaxtarhraði rækju er misjafn eftir því hvar er við landið er mælt og í raun er erfitt að áætla nákvæmlega aldur rækju við kynskipti. Það er hins vegar óyggjandi við hvað lengd rækjan skiptir um kyn og einnig er unnt að sjá hver er mesta lengd rækju í hverju sýni, þ.e.a.s. hámarkslengd. Lengd þegar helmingur rækju hefur skipt um kyn og kallast helmingskynskiptalengd er stærst á Dohrnbanka og sömuleiðis er hámarkslengdin stærst þar. Grunnslóðar rækja er með minnstu helmingskynskipta-lengd og úthafsrækja fyrir norðan land er með helmingskynskiptalengd mitt þarna á milli. Sama á við um hámarkslengd rækju á þessum svæðum. Þannig er minnsta hámarkslengdin á grunnslóð, en hámarkslengdin er stærri hjá úthafsrækju og langstærst hjá Dohrnbanka rækju. Þetta er kjarninn í greininni í stuttu máli en henni var fylgt eftir af annarri grein eftir mig og Charnov þar sem því var kastað fram að þetta hlutfall, helmingskynskiptalengd deilt með hámarkslengd væri ákveðið hlutfall og mundi jafnframt gilda um fleiri tegundir dýra í sjó sem skipta um kyn. Fleiri sjávarlíffræðingar hafa í kjölfarið sannreynt þessa kenningu á 70 tegundum sjávardýra, sem skipta um kyn,“ segir Unnur. Hún segir enn fremur að kenningin hafi verið gagnrýnd en Unnur er sannfærð um að hún haldi vatni.

Fimm barna vísindaskvísa

Unnur segist ekki muna eftir neikvæðu viðmóti allra karlanna sem hún vann með; félaga í vísindarannsóknum og áhafna gegnum tíðina þegar hún sinnti sínum rannsóknum. Henni leið alltaf vel á sjó, jafnvel í vondum veðrum, og féll vel í hópinn. „Jú þeim fannst ég ansi ákveðin. Menn voru stundum svolítið undrandi, sérstaklega um það leyti þegar ég var að byrja, því ég var krakkaleg í útliti. Ég var kölluð vísindaskvísa og einhvern tíma átti að kjöldraga mig! En þetta var nú allt í gríni og ég tók þessu ekki alvarlega. Ég á margar góðar minningar af sjóferðum mínum gegnum tíðina og átti marga góða vinnufélaga.

Unnur og eiginmaður hennar, Kristján Sigurjónsson röngtenlæknir, hafa átt barnaláni að fagna en þau eignuðust sex börn. Fimm dætur og einn son sem þau missti úr vöggudauða á þeim árum þegar Unnur tók sér frí frá störfum í Danmörku.

En fékk hún ekki stundum að heyra að ekki væri við hæfi að fara frá manni og fimm börnum á sjó og vera fjarri heimili dögum og jafnvel vikum saman? „Tja, tengdamömmu fannst nú að ég ætti að vera heima að sinna börnunum enda var það venjan á þessum árum. En mig og okkur hjónin langaði að eignast mörg börn og það var býsna algengt að hjón á þessum árum ættu þrjú til fimm börn. Ég gat ekki séð að mín fræðistörf ættu að stöðva mig í því. En ég vil líka taka það skýrt fram að við hjónin stóðum þétt saman í uppeldi barnanna og heimilisrekstrinum og hann sinnti sínum hluta og meira en það þegar ég var fjarverandi. Og þrátt fyrir afstöðu tengdamömmu minnar reyndust tengdaforeldrar mínir, ásamt ömmusystur barnanna okkur hjónum og dætrunum einstaklega vel,” segir Unnur að lokum.

Unnur fagnar 85 ára afmæli í sumar og ber aldurinn einstaklega vel. Fött sem fyrr og greinilega nóg um að vera, ýmis erindi sem þarf að sinna og hún að undirbúa heimboð. Þau hjónin að taka á móti stórfjölskyldunni í grjónagraut. Þegar hún kveður vefstjóra Hafrannsóknastofnunar ber á góma að hún hafi alltaf hjólað mikið og verið ein fárra kvenna í Reykjavík sem nýtti sér hjól til að komast til vinnu um og upp úr 1970.

„Og hva, ertu enn að hjóla?“ spyr sú sem þetta ritar töluvert undrandi. Hafði í einfeldni sinni talið að flest fólk leggi hjólum upp úr áttræðu ef ekki fyrr. „Já já, en að vísu bara þegar götur eru auðar og ég fer kannski ekkert óskaplega langt. En dóttir mín bannaði mér reyndar að hjóla um þessar mundir af því ég fótbrotnaði ekki alls fyrir löngu en ég verð örugglega orðin góð á hjólið í vor þegar snjóa leysir,“ segir Unnur að lokum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?