Skrifum formanns félags íslenskra náttúrufræðinga svarað

Stjórn félags íslenskra náttúrfræðinga (FÍN)

Borgartúni 6

105 Reykjavík

 

Reykjavík 17. febrúar 2020

Framkvæmdastjórn Hafrannsóknastofnunar hefur móttekið bréf formanns FÍN dagsett 6. febrúar síðastliðinn.

Í  bréfinu er lýst áhyggjum af því að starfsmönnum líði illa á vinnustað og stjórnarháttum almennt. Við undrumst mjög tilurð þessa bréfs og þær órökstuddu ásakanir sem þar koma fram, án þess að liggi fyrir formleg kvörtun á hendur stofnuninni eða stjórnendum hennar. Í bréfinu segir „Félagið hefur heyrt frá félagsmönnum um að þeim líði illa ....“ og síðar segir „Svo virðist sem starfsmenn upplifi ...“  og ennfremur „Samtal milli yfirmanna og undirmanna virðist ekki einkennast af virðingu...“.  Hér er um hreinar getgátur FÍN að ræða sem bréfið byggist síðan á.   Rétt hefði verið að stjórn FÍN hefði kynnt sér stjórnunarhætti stofnunarinnar og hvort brotið hefði verið á starfsmönnum, áður en bréf sem þetta var skrifað.

Stjórnendur hafna því að þeir taki á málum með ógnandi framkomu og hótunum eins og gefið er í skyn.  Fullyrðingum þessum er harðlega mótmælt enda eru þær bæði meiðandi og varpa rýrð á æru stjórnenda. 

Síðan ný Hafrannsóknastofnun var stofnsett árið 2016 eru haldnir mánaðarlegir starfsmannafundir og sviðsfundir reglulega auk þess sem starfsmannaviðtöl fara fram árlega. Þá hefur stofnunin leitast við að fá fram sjónarmiðum starfsmanna um hvað betur má fara og eru það hrein öfugmæli að halda því fram að í því felist „þöggun“.  Eðlilegt hefði verið að FÍN kynnti sér nánar hvað átt væri við með þessum ásökunum og hvort réttar væru áður en ásakanir sem þessar eru settar fram.

Þá er því alfarið hafnað að upplýsingaflæði til starfsmanna sé ábótavant og raun óskiljanlegt að því sé haldið fram. Frá upphafi starfsemi nýrrar Hafrannsóknastofnunar er rekin sú stefna að upplýsingaflæði sé sem allra best. Allar upplýsingar koma fram á innra neti og meðal annars hefur stofnunin opnað fyrir  fjárhags- og verkbókhald sitt sem starfsmenn geta kynnt sér á innra netinu. Einnig hefur verið tekið upp nýtt skjalakerfi sem er í innleiðingarferli og er opið öllum starfsmönnum eins og lög leyfa. Hvoru tveggja er nýmæli á stofnuninni. Fullyrða má að upplýsingaflæði stofnunarinnar sé meira en hjá öðrum ríkisstofnunum almennt.

Síðan ný stofnun 2016 tók til starfa hefur aðbúnaður starfsmanna verið stórbættur til að auka vellíðan í starfi. Tölvubúnaður hefur verið endurnýjaður mikið sem og allur hugbúnaður. Þá hafa skrifborð og stólar verið endurnýjaðir og lýkur þeirri endurnýjun að fullu við flutning í nýtt húsnæði nú á vordögum.

Starfslýsing er til fyrir alla náttúrfræðinga. Komi til breytinga á starfi er starfslýsingum breytt svo fljótt sem kostur er. Eftir starfsmannasamtal sem fram fer árlega er starfslýsingu breytt sé þess þörf. Því verður vart skilið í hvaða tilgangi útlistað er mikilvægi starfslýsinga í bréfi formanns.

Stofnunin hefur þurft að leita allra leiða til að hagræða í rekstri sem leiddi meðal annars til uppsagna í nóvember síðastliðnum. Í því ferli var þess gætt að fylgja viðeigandi lögum og starfsmönnum bæði sýnd nærgætni og virðing við uppsögn. Leituðu stjórnendur ráðgjafar hjá utanaðkomandi sérfræðingum sem og mannauðs- og kjarasýslu ríkisins. Dæmi um aðgerðir stofnunarinnar voru að bjóða þeim starfsmönnum sem misstu starfið upp á sálfræðiráðgjöf og aðstoð við gerð nýrrar ferilskrár. Uppsagnir voru rökstuddar í þeim tilfellum sem þess var óskað.  Þó svo að ágreiningur geti komið upp varðandi uppsagnir einstakra starfsmanna þá var að mati stofnunarinnar lögum fylgt í hvívetna.

Stofnuninni er fullkunnugt um lög og reglur varðandi einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreiti og ofbeldi og eru því ábendingar stéttarfélagsins tilefnislausar og óþarfar. Á stofnuninni er ákveðin viðbragðsáætlun til að taka á slíkum málum og í þeirri áætlun eru ferli ef að stjórnendur eru meintir gerendur. Því miður hafa komið fram slíkar kvartanir á undanförnum árum sem hafa verið settar í formlegt ferli og úr þeim málum leyst. Aldrei hefur komið fram kvörtun af þessum toga í garð núverandi stjórnenda. Engin mál er snúa að einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi eru til meðferðar nú. Furðu vekur að í bréfinu sé ástæða til að tilgreina þann málaflokk sérstaklega nema í þeim tilgangi einum að reyna að rýra trúverðugleika stjórnenda stofnunarinnar. 

Sama má segja um gerð áhættumats sem hefur verið unnið að, með aðstoð utankomandi sérfræðinga, síðan í september síðastliðnum.

Öðrum atriðum í bréfi formannsins er óþarft að svara.

Athygli vekur að stéttarfélagið sá enga ástæðu til að kanna réttmæti ásakana eða þá verkferla sem verið er að gagnrýna og verður ekki betur séð en að stéttarfélagið sé með ásetningi að vega að æru og trúverðugleika stjórnenda og skaða orðspor Hafrannsóknastofnunar.  Bréfið er auk þess síst til þess fallið að bæta starfsanda.

Stofnunin og stjórnendur  bera virðingu fyrir störfum stéttarfélaga og hlutverki þeirra að gæta hagsmuna félagsmanna sinna. Hins vegar, ef tilefni er til að rita bréf eins og okkur barst þann 6. febrúar síðastliðinn, verður að gera þá kröfu að um raunverulegar kvartanir sé um að ræða varðandi atriði sem betur mega fara en ekki órökstuddar dylgjur og meiðyrði í garð stjórnenda stofnunarinnar.

Þess er krafist að stéttarfélagið biðjist opinberlega afsökunar á þeim ásökunum á hendur stjórnendum sem fram koma í bréfinu. Að öðrum kosti áskilja stjórnendur stofnunarinnar sér rétt til að krefjast bóta vegna meiðyrða í garð stjórnenda.

Bréf til Fín

Bréf Fín til Hafrannsóknastofnunar

Frétt Morgunblaðið

Frétt DV


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?