Ýmsar tegundir botnfiska.
Mynd: Svanhildur Egilsdóttir
Nýlega birtist í tímaritinu Scientific Reports greinin: How different life-history strategies respond to changing environments: a multi-decadal study of groundfish communities. Greinin byggir á árlegum rannsóknum frá árinu 1987 og fjallar um það hvernig ólíkir hópar botnfiska á landgrunninu hafa brugðist við breytingum á ástandi sjávar.
Til að skoða breytingar á samfélagsgerð voru fiskar flokkaðir byggt á tvenns konar nálgun: Annars vegar eftir lífssögu tegunda, þ.e. eiginleikum þeirra varðandi vöxt, æxlun og ævilengd, og hins vegar eftir útbreiðslu tegundanna þ.e. hvort þær finnist hér á suður- eða norðurmörkum útbreiðslu sinnar (arktískar eða atlantískar tegundir), eða hafi víðfeðmari útbreiðslu og finnist bæði fyrir sunnan og norðan land.
Tegundum var skipt í þrjá megin flokka eftir því hvaða eiginleikar einkenna þær. Fyrst má nefna tækifæristegundir (opportunistic) sem afla sér fæðu á lægri fæðuþrepum, eru smávaxnar en vaxa hratt, verða snemma kynþroska og eignast fremur mörg afkvæmi. Í öðru lagi eru tegundir sem kalla má lotubundnar (periodic) en þær framleiða mjög mörg en smá afkvæmi, eru fremur langlífar og lifa á hærri fæðuþrepum, og að lokum jafnvægistegundir (equilibrium) sem eru á hærri fæðuþrepum, geta orðið mjög langlífar en vaxa hægt og eignast fá en stór afkvæmi. Sem dæmi um tækifæristegundir má nefna spærling og mjóra, lotubundnar tegundir eru t.d. þorskur og skarkoli, en brjóskfiskar eins og tindaskata og háfur eru dæmi um jafnvægistegundir.
Niðurstöðurnar sýna að í kjölfar hækkandi sjávarhita í lok síðustu aldar fóru stofnar atlantískra tækifæristegunda stækkandi og færðist útbreiðsla þeirra norður með vestanverðu landinu inn á Norðvesturmið. Að sama skapi minnkuðu stofnar arktískra tækifæristegunda. Svipaða sögu má segja um tegundafjölda sem jókst hjá atlantískum tegundum og nýjar tegundir gerðu sig gildandi í hlýsjónum fyrir sunnan og vestan land, en fjöldi arktískra tegunda stóð nokkurn veginn í stað. Minni breytingar sáust hjá tegundum með víðfeðmari útbreiðslu, tegundum eins og þorski, ýsu og ufsa, en þær hafa þó almennt hagnast á hækkandi sjávarhita.
Breytingarnar sem greint er frá eru markverðar og eru í takt við breytileg skilyrði í hafinu við Ísland og djúpt suður af landinu. Áberandi er að þær voru mestar áratuginn 2000-2010, en sjávarhiti fór hækkandi nokkru fyrr eða 1996-2005. Breytingarnar eiga sér ekki hliðstæðu ef litið er hálfa öld aftur í tímann, en svipaðar breytingar hafa þó sést áður. Frumkvöðlar hafrannsókna við Ísland, þeir Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson gerðu einmitt grein fyrir sambærilegum breytingum á lífríki sjávar á tímabilinu 1925 til 1945. Að einhverju leiti má því líta á breytingar síðustu áratuga sem enduróm frá fyrri tíð.
Síðustu 15-20 ár hefur meiri stöðugleiki einkennt samfélög botnfiska á Íslandsmiðum. Svokölluð AMO sveifla (Atlantic Multidecadal Oscillation) sem lýsir langtímabreytingum á yfirborðshita Norður Atlantshafs, bendir til að ástand sjávar undanfarna þrjá áratugi sé svipað því sem sást á tímabilinu 1925 til 1960. Enn sem komið er má því segja að breytingar á útbreiðslu og magni botnfiska á Íslandsmiðum megi skýra með langtímasveiflum og breytileika á ástandi sjávar.
Höfundar greinarinnar eru Jón Sólmundsson, Ólafur Á. Sigurðsson, Ingibjörg G. Jónsdóttir og Steingrímur Jónsson frá Hafrannsóknastofnun og Háskólanum á Akureyri.
Hér má finna greinina í tímaritinu Scientific Reports.

Á þessari mynd má sjá hvernig tegundir botnfiska við Ísland raðast innan þríhliða líkans út frá einkennum þeirra. Litir sýna mismunandi ættbálka og þannig eru þorskfiskar (Gadiformes) rauðir en skötur (Rajiformes) bláar. Staðsetning punkts innan þríhyrnings gefur til kynna eiginleika viðkomandi tegundar þ.e. hvort hún sé fyrst og fremst tækifæris- (opportunistic), jafnvægis- (equilibrium) eða lotubundin (periodic) tegund, eða blanda af þessu þrennu. Sem dæmi er lögð áhersla á sjö algengar tegundir á Íslandsmiðum þ.e. þorsk og skarkola (lotubundnar tegundir), spærling og áttstrending (tækifæristegundir), tindaskötu og háf (jafnvægistegundir) og gullkarfa sem hefur blandaða eiginleika.