Mynd: Svanhildur Egilsdóttir
Rannsóknaskipið Árni Friðriksson hélt úr höfn 30. júní til þátttöku í árlegum alþjóðlegum uppsjávarrannsóknaleiðangri. Eitt af meginmarkmiðum hans er að meta magn og útbreiðslu makríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar í norðaustur Atlantshafi að sumarlagi.
Í leiðangrinum verður einnig aflað gagna sem nýtast við vöktun og fjölbreyttar rannsóknir á ýmsum þáttum vistkerfisins þ.m.t. frumframleiðni, ástand sjávar, samsetningu og magn átu og breytileika á umhverfiserfðaefni í sjó.
Makrílrannsóknir í 16 ár
Þetta er sextánda árið í röð sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í leiðangrinum ásamt skipum frá Noregi, Færeyjum og Danmörku. Yfirferðasvæði Árna er fyrir norðan, austan, sunnan og vestan landið ásamt svæðis í grænlenskri lögsögu norðan Íslands og í kringum Jan Mayen (Mynd 1). Líkt og áður er hægt að fylgjast með staðsetningu og feril Árna hér.
Leiðangurinn á Árna stendur yfir í 26 daga og verða sigldar tæplega 4700 sjómílur eða um 8700 km og 47 yfirborðstogstöðvar verða teknar á fyrirfram ákveðnum stöðum. Um borð eru 6 vísindamenn, 3 háskólanemar og 17 manna áhöfn.

Mynd 1. Leiðarlína Árna Friðrikssonar (bleik lína) í uppsjávarrannsóknaleiðangri dagana 30. júní til 25. júlí 2025. Fylltir bláir hringir sýna fyrirfram ákveðnar yfirborðstogstöðvar og opnir bláir tíglar samskonar togstöðvar þar sem Árni mætir öðrum rannsóknaskipum. Ef vart er við makríl á suður- eða vesturmörkum leiðangurssvæðis eða síld fyrir norðan land þá verða leiðarlínur lengdar (svört lína og opinn svartur hringur).