Alþjóðadagur vatnsins

Elliðavatn. Ljósm. Friðþjófur Árnason. Elliðavatn. Ljósm. Friðþjófur Árnason.

Þegar tvö vetnisatóm og eitt súrefnisatóm tengjast saman myndast sameindin H2O, sem við í daglegu tali þekkjum sem vatn. Einföld sameind, en án efa sú mikilvægasta af þeim öllum. Vatn er undirstaða lífsins en um 70% af yfirborði jarðarinnar er hulið vatni og lang stærsti hluti þess er sjór. Afgangurinn er ferskvatn í stöðuvötnum, ám, jöklum og íshellum heimskautanna. Allar lífverur jarðar, frá smæstu bakteríum til stærstu hvala, þurfa vatn til að lifa. Um 70% af þyngd mannslíkamans er vatn og án vatns getum við aðeins lifað í um 3 daga.

Þrátt fyrir mikilvægi vatns fyrir allt líf, höfum við umgengist það af talsverðu virðingarleysi. Yfir milljarður jarðarbúa hefur ekki aðgang að hreinu vatni og tæplega 3 milljarðar búa við vatnsskort. Talið er að árið 2025 muni 3,5 milljarðar manna búa við vatnsskort og ástæðan er að stórum hluta vegna þess að mengun hefur gert vatn ódrykkjarhæft.

Ísland er auðugt af vatni og oft þykir okkur nóg um þegar styttir ekki upp svo dögum skiptir! En það minnkar ekki mikilvægi þess að vernda vatnsauðlindina okkar því hún er viðkvæm fyrir mengun og hverskyns röskun. Settar hafa verið fram ýmsar reglur um hvernig á að umgangast vatnsauðlindina og nýverið voru sett lög á Íslandi (nr. 36/2011) sem hafa það markmið að vernda ferskvatn og strandsjó og vistkerfi sem í þeim þrífast. Í lögunum er auk þess kveðið á um að bæta skuli ástand vatns þar sem þess er þörf. Gerð hafa verið viðmið til að meta hvort ástand ferskvatns og strandsjávar uppfylli markmið laganna og hefur Hafrannsóknastofnun komið að þeirri vinnu ásamt Veðurstofu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun.

Umhverfisþættir, svo sem hitastig, pH og efnasamsetning vatns, hafa mikil áhrif á þróun lífríkis í vatni og er lífríkið góður mælikvarði á gæði vatns. Sumar lífverur eru þolnar fyrir mengun en aðrar mjög viðkvæmar og hverfa um leið og ástandi vatns hrakar. Rannsóknir á tegundum vatnalífvera og hlutföllum viðkvæmra og þolinna tegunda geta gefið dýrmætar upplýsingar um ástand vatns. Um þessar mundir er Hafrannsóknastofnun að ljúka vöktun á nokkrum ám og vötnum, sem miða að því að afla upplýsinga um vistfræðilegt ástand þeirra. Meðal þeirra vatna er Elliðavatn sem er í nágrenni Reykjavíkur.

Vatnið í Elliðavatni er að stærstum hluta grunnvatn sem rennur af vatnsverndarsvæði Gvendarbrunna, þaðan sem allt neysluvatn Reykvíkinga er fengið. Vatnsvið þess er stórt og fremur viðkvæmt þar sem grunnvatnið rennur um gropin hraunlög. Elliðavatn er grunnt og ljós á greiða leið á botn þess og því eru botnlægar tegundir ríkjandi í lífríki þess. Ljóstillífandi lífverur sem vaxa á botninum eru fæða fyrir smádýr sem aftur eru fæða fyrir stærri tegundir eins og fiska. Hvers kyns röskun á vatnsgæðum hefur áhrif á þessa hringrás lífsins í vatninu og mjög mikilvægt er að gæta vel að þessari náttúruperlu sem Elliðavatn er.

Í dag, 22. mars, er alþjóðlegur dagur vatnsins sem ætlaður er til að minna okkur á mikilvægi vatns fyrir okkur og allt líf á jörðinni (https://www.worldwaterday.org/). Vatn er lífsnauðsynlegt öllum og flestir kannast einnig við róandi og heilandi áhrif þess að sitja á lækjarbakka eða strönd og fylgjast með hreyfingum vatnsins og hlusta á árniðinn, öldugjálfur eða brimhljóð.

Á degi vatnsins er vel við hæfi að fá sér göngutúr meðfram á, vatni eða ströndinni sem er í mestu uppáhaldi hjá hverjum og einum. Setjast niður í rólegheitunum og velta fyrir sér þeim undrum sem búa undir yfirborðinu, og lífverunum sem þar hafa aðlagast aðstæðum, jafnvel í þúsundir ára.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?