Áhrif hvalaúrgangs skíðishvala á frumframleiðni

Hnúfubakur í augsýn! Mynd tekin af Guðjóni Má Sigurðssyni í hvalatalningu um borð í Bjarna Sæmundssy… Hnúfubakur í augsýn! Mynd tekin af Guðjóni Má Sigurðssyni í hvalatalningu um borð í Bjarna Sæmundssyni í fyrra (2024).

Nýverið birtist vísindagrein í ritinu Proceedings of the National Academy of the Sciences (PNAS) sem ber heitið Impact of baleen whales on ocean primary production acrossspace and time en þar koma fram niðurstöður rannsókna um áhrif hvalaúrgangs skíðishvala á frumframleiðni í N-Atlantshafi.

Rannsóknin var leidd af Carla Freitas frá norsku hafrannsóknastofnuninni (IMR) en Guðjón Már Sigurðsson hjá Hafrannsóknastofnun var á meðal höfunda. Notast var við sýni tekin af stofnuninni í reglubundinni vöktun á veiddum langreyðum í Hvalfirði.

Í rannsókninni voru næringarefni eins og köfnunarefni auk snefilefna eins og járn, zink, og kopars úr þvagi og saur hrefna og langreyða mæld, en sýnum af þvagi og saur var safnað úr veiddum dýrum, langreyðum á Íslandi og hrefnum í Noregi.

Niðurstöður mælingana á næringarefnum úr þessum tegundum voru síðan yfirfærð á aðrar tegundir skíðishvala í N-Atlantshafi byggt á því sem við vitum um fæðuvistfræði og lífeðlisfræði tegundana. Næsta skref var síðan að setja upplýsingar sem við vitum um fjölda, viðveru, og útbreiðslu hvalanna inní vistfræðilíkan fyrir Barentshaf, Noregshaf, Grænlandshai og Íslandshaf, sem inniheldur hafstrauma og mælingar sem til eru á næringarefnum.

Næst var líkanið notað til að herma áhrif á frumframleiðni með og án úrgangs frá hvölum. Niðurstöðurnar sýndu að þau áhrif sem hvalirnir höfðu voru mismunandi eftir tíma og staðsetningu. Almennt hafði úrgangurinn frekar lítil áhrif á frumframleiðni, eða 2% eða minna yfir árið. Þó voru svæði á sumrin, annaðhvort þar sem sjór var lagskiptur eða langt frá landi og þar með næringarefnum sem berast frá landi, þar sem úrgangurinn hafði meiri áhrif eða allt að 10% yfir þessi tímabil. Heildaráhrifin yfir árið á þessum svæði var þó minni, eða 4%. Það svæði sem áhrifin voru mest var á milli Íslands og Noregs, djúpt austur af landinu.

Niðurstöðurnar sýna að hvalir hafa almennt séð frekar takmörkuð áhrif á frumframleiðni í höfunum í kringum Ísland, en geta þó haft töluverð staðbundin áhrif á frumframleiðni á ákveðnum svæðum á sumrin.

Greinina má finna hér. 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?