Landnám sindraskeljar við Ísland

Mynd af sindraskel. Mynd af sindraskel.

Skeldýr af ættkvísl hnífskelja (Ensis spp) fannst við Naustanes í Kollafirði árið 2019. 

Flutningar framandi sjávarlífvera

Á undanförnum áratugum hefur orðið mikil aukning á flutningi sjávarlífvera af manna völdum út fyrir náttúruleg útbreiðslusvæði þeirra.

Talið er að flutningar framandi sjávarlífvera á milli hafsvæða séu fyrst og fremst með kjölfestuvatni skipa. Hér á landi hafa flestar framandi sjávarlífverur fyrst fundist við Suðvesturland, þar sem skipaumferð er mest.

Megnið af aðfluttum sjávarlífverum sem hafa sest að hér við land hefur líklega borist frá Evrópu. Undantekning er grjótkrabbi (Cancer irroratus) sem fannst fyrst við Ísland árið 2006 en náttúruleg heimkynni hans eru við Atlantshafsströnd Norður-Ameríku. Grjótkrabbinn fannst í fyrstu eingöngu við Suðvesturland en hefur síðan dreift sér allt í kringum land.

Framandi skeljar í Faxaflóa

Nýlega fannst önnur tegund botndýra hér við land sem einnig á upprunaleg heimkynni sín við Austurströnd Norður-Ameríku; skeldýr af ættkvísl hnífskelja (Ensis spp) sem fannst við Naustanes í Kollafirði árið 2019 (sjá mynd).

Um er að ræða hníflaga skeljar sem grafa sig í sand, neðarlega í fjörum og á grunnsævi. Við nánari eftirgrennslan og leit kom i ljós að skelin hafði dreift sér víða í sandfjörum í innanverðum Faxaflóa, frá Leiruvogi í Kollafirði til Borgarfjarðar.

Mynd 1. Sindraskel (Ensis terranovensis). Þessi skel fannst í fjörunni neðan við bæinn Höfn undir Hafnarfjalli í Borgarfirði. Fóturinn, sem skelin notar meðal annars til að grafa sig ofan í sandinn, liggur undan skelinni að ofanverðu. Mælistika en er 2 cm.

Sindraskel kemur frá Nýfundnalandi

Um þessar mundir eru þekktar 8 tegundir hnífskelja í Norður-Atlantshafi. Í mörgum tilfellum getur verið erfitt að greina á milli þeirra út frá útliti. Líklegast þótti að um væri að ræða tegund sem á upprunaleg heimkynni sín við Nýfundnaland sem var staðfest með erfðagreiningu. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi tegund finnst utan við upprunaleg heimkynni sín við Nýfundnaland.

Tegundin (Ensis terranovensis) hefur fengið nafnið sindraskel.

Áhugavert verður að fylgjast með því hvernig tegundinni reiðir af í sjónum við Ísland. Það er ljóst að sindraskel hefur æxlast og dreift sér yfir nokkuð stórt svæði í Faxaflóa, eftir að hún nam fyrst land. Ungviði er víða að finna innan um fullvaxnar skeljar.
Karl Gunnarsson hjá Hafrannsóknastofnun

Í ritinu BioInvasions Records er umfjöllun um fund tegundarinnar við Ísland. Greinina má nálgast hér .


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?