| Lýsing |
Ágrip
Í skýrslunni er greint frá vöktunarrannsóknum á vatnasvæði Þverár árið 2024. Rannsóknirnar miða að því að afla þekkingar um stöðu laxfiskastofna árinnar, rannsaka útbreiðslu og magn laxfiska í árkerfinu auk rannsókna á hreistursýnum til aldurs- og vaxtarrannsókna. Seiðarannsóknir fóru fram á 14 stöðum, þar af sex í Kjarará, sex í Þverá og tveimur í Litlu Þverá. Laxaseiði veiddust á öllum rannsóknarstöðvum í ánni. Seiðavísitala laxa var hæst í Kjarará (59,1/100 m2) en var mun lægri í Þverá (19,9/100 m2) og 48,4 m2 í Litlu Þverá. Seiðavísitala urriða var hæst í Litlu Þverá en lægst á stöðvum í Kjarará. Laxaseiðin voru frá vorgömlum seiðum (0+) til þriggja ára (3+). Vísitala heildarþéttleika laxaseiða var hæst á stöð 4, nokkru neðan við Gilsbakkasel, en flestir urriða veiddust í Litlu Þverá við Kvíar (stöð 16). Aðrar tegundir komu ekki fram í rafveiðum.
Alls veiddust 2.240 laxar árið 2024, 134 urriðar og 3 bleikjur. Laxveiðin skiptist í 1.855 smálaxa (1 ár í sjó) og 385 stórlaxa (2 ár í sjó). Sleppingar (veitt og sleppt) eru mjög algengar í laxveiðinni á vatnasvæði Þverár og var hlutdeild þeirra 80,7% (77,2% smálaxaveiðinnar og 97,4% stórlaxaveiðinnar) en 55,7% urriða var sleppt. Árið 2024 var í hópi góðra veiðiára og varð veiðin í ánni sú mesta síðan 2013. Langtíma meðalveiði á vatnasvæði Þverár frá árinu 1979 er 1.700 laxar á ári, en frá 2001 er veiðin um 1.900 laxar á ári.
Ferskvatnsaldur laxa í hreistursýnum var á bilinu 1 – 5 ár. Laxar sem sýna eins árs aldur í ferskvatni eru af eldisuppruna (fiskrækt) og var uppreiknuð hlutdeild þeirra í sýnunum 12,1%. Laxar sem sýna 2 – 5 ár í hreistrinu eru allir af eigin klaki á vatnasvæðinu og var hlutdeild 4 ára seiða mest eða 43,4%, en þriggja ára seiði komu næst með 37,4% (tafla 5). Meðalaldur laxa í ferskvatnshluta lífsferilsins var 3,3 ár. |