Vöktun laxa- og bleikjustofna á vatnsvæði Hörðudalsár 2022. HV 2023-24

Nánari upplýsingar
Titill Vöktun laxa- og bleikjustofna á vatnsvæði Hörðudalsár 2022. HV 2023-24
Lýsing

Ágrip

Vöktun laxa- og bleikjustofna á vatnasvæði Hörðudalsár 2022. Ásta Kristín Guðmundsdóttir og Jóhannes Guðbrandsson. HV 2023-24.

Á vatnasvæði Hörðudalsár árið 2022 veiddust 73 laxar og 88 bleikjur. Smálaxar voru 95,9% laxveiðinnar og þar af var hlutur smálaxahrygna 41,8%. Þrjár stórlaxahrygnur veiddust en engir stórlaxahængar. Eingöngu tveimur löxum (2,7%) var sleppt úr stangveiðinni sem er um fimmtungur þess hlutfalls sem sleppt hefur verið að meðaltali (14,9%) úr laxveiðinni á svæðinu á árunum 2012 – 2021. Einungis fimm bleikjum var sleppt úr stangveiðinni sem er um 35% undir meðaltali sleppinga á bleikju á árunum 2012 – 2021. Laxveiðin á vatnasvæðinu dróst saman um 29,1% frá árinu 2021 en var 60,7% yfir langtímameðaltali. Bleikjuveiðin dróst einnig saman á milli ára og var 27,9% minni en veiði ársins 2021 og einungis 34,7% af langtímameðalveiði. Stærstur hluti laxveiðinnar (82,2%) og bleikjuveiðinnar (89,8%) veiddist á tímabilinu 9. júlí − 19. ágúst. Mesta laxveiðin var skráð á veiðistað nr. 33 (26,0%) og mesta bleikjuveiðin var skráð á veiðistað nr. 33 (22,7%). Í laxveiðinni var fluga skráð sem agn í 21,9% tilfella og maðkur í 76,7% tilfella en í bleikjuveiðinni var fluga skráð í 44,3% tilfella og maðkur í 52,3% tilfella. Rannsóknir á hreistri úr stangveiðinni 2022 sýndu að ferskvatnsaldur laxa á fyrstu hrygningargöngu spannaði 3 − 5 ár og voru sýnin rakin til klakárganga 2016 – 2018; að stærstum hluta til 2017 og 2018. Stór hluti hreistursýna bar merki um fyrri hrygningu eða 31,6%. Hreistur af tveimur sjóbleikjum úr stangveiðinni voru rannsökuð og voru þær fjögurra ára. Ekki sáust merki um fyrri hrygningu í hreistri bleikjanna. Þéttleikavísitala laxaseiða á viðmiðunarstöðvum á vatnasvæði Hörðudalsár árið 2022 var 17,8/100 m2 að meðaltali. Hæst var vísitala sumargamalla (0+) laxaseiða eða 12,0/100 m2 að meðaltali (13% hærri en langtímameðaltalið). Vísitala veturgamalla (1+) laxaseiða var 4,8/100 m2 að meðaltali, (3% hærri en langtímameðaltalið). Á rafveiðistöð neðan gljúfurs í Laugá (pt. 533) var samanlögð seiðavísitala 41,1/100 m2 og kvað mest að þéttleika sumargamalla (0+) seiða sem var 38,4/100 m2. Vísitala bleikjuseiða á viðmiðunarstöðvum var 4,7/100 m2 að meðaltali; 3,7/100 m2 af sumargömlum (0+) seiðum (48% yfir langtímameðaltali) og 1,0/100 m2 af veturgömlum (1+) (tvöfalt langtímameðaltalið). Engin laxaseiði komu fram þegar árangur af hrognagreftri frá haustinu 2021 var kannaður á efri hluta Laugár haustið 2022.

Lagt er til að strangari kvóti verði tekinn upp í lax- og bleikjuveiðinni, sérstaklega til að nýta betur fjárfestingu í fiskvegi í Laugá. Til að flýta fyrir landnámi á svæðinu er lagt til að hrygningarlax verði fluttur á efra svæði Laugár að hausti í stað þess að grafa hrogn. Athygli er vakin á því að lykilatriði í slíkum framkvæmdum er að nóg sé eftir af laxi í ánni við lok veiðitímabils og því mikilvægt að tryggja að sókn sé með sjálfbærum hætti.

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Haf- og vatnarannsóknir (2016-)
Útgáfurit Haf- og vatnarannsóknir
Útgáfuár 2023
Blaðsíður 18
Útgefandi Hafrannsóknastofnun
ISBN 2298-9137
Leitarorð Lax, bleikja, stangveiði, landnám, seiðarannsóknir, fiskvegur, hreisturrannsóknir, seiðavísitala, veiðistjórnun, veiða og sleppa
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?