| Lýsing |
Ágrip
Í Laxá í Leirársveit veiddust 724 smálaxar, 137 stórlaxar, 95 urriðar, 3 regnbogasilungar og 1 bleikja. Laxveiðin jókst um 2/3 á milli ára en var um 8% undir meðalveiði og urriðaveiðin minnkaði á milli ára og var meira en þriðjungi undir meðalveiði. Um 75% lifandi laxa og 41% lifandi urriða úr veiðinni var sleppt aftur. Hrygnur voru í minnihluta, bæði hjá smálöxum og stórlöxum. Í Selósi veiddust 48 laxar og 20 urriðar en í Þverá veiddust 14 laxar og 10 urriðar. Veiðiskráningu í vötnunum á svæðinu er ábótavant. Skráð ganga (nettó) upp fyrir teljarann var 660 smálaxar, 121 stórlaxar og 437 urriðar. Mest var ganga laxa í júlí en flestir urriðar gengu í ágúst. Stangveiði ofan teljarans (í Laxá, Selósi og Þverá) var 189 smálaxar, 37 stórlaxar og 46 urriðar og veiðihlutfallið á laxi var um 30% en á urriða tæp 11%.
Fjöldi hrogna á svæðinu ofan við Eyrarfoss var reiknaður 16,8 hrogn/m2 og var hlutfall stórlaxahrogna af heildarfjöldanum 18,4%. Samanlagður hrognafjöldi árið 2024 var sá mesti sem reiknaður hefur verið frá árinu 2020 en þá var myndavélateljari tekinn í notkun. Hreistursýni voru greind af 2,2% heildarveiði á laxi (19 sýni) og 9,5% heildarveiði á urriða (9 sýni af sjóbirtingi). Ferskvatnsaldur laxanna var 2 – 4 ár og voru sýnin rakin til klaks áranna 2019 – 2021. Ferskvatnsaldur sjóbirtinganna var 3 – 4 ár og aldur eftir fyrstu sjávargöngu var 1 – 5 ár.
Í seiðamælingum veiddust 597 laxaseiði af fjórum aldurshópum, 145 urriðaseiði af þremur aldurshópum, 6 sumargömul bleikjuseiði og 10 hornsíli. Meðallengd sumargamalla (0+) laxa- og urriðaseiða var talsvert undir langtímameðaltali, veturgömlu (1+) laxa- og urriðaseiðin voru jöfn eða lítillega undir meðaltali en eldri laxaseiðin voru töluvert yfir því.
Seiðavísitala yngstu (0+) laxaseiðanna var 39,6/100 m2 að meðaltali (62% yfir langtímameðaltali) en vísitala veturgömlu (1+) seiðanna var 9,9/100 m2 (40% undir langtímameðaltali). Vísitala yngstu (0+) urriðaseiðanna var 9,4/100 m2 (21% yfir langtímameðaltali) og vísitala veturgömlu (1+) seiðanna var 3,6/100 m2 (40% yfir langtímameðaltali).
Mánaðarmeðal vatnshita í Eyrarfossi frá júní til september var í öllum tilfellum undir langtímameðaltali. Í júní og ágúst var frávikið frá langtímameðaltali 1,4°C, í júlí var það 1,2°C og í september 1,5°C. Veiðinýting í Laxá virðist stuðla að sjálfbærri nýtingu á laxastofninum samanber góða hrygningu á efra svæði árinnar og góða nýliðun seiða sem mælst hefur undanfarin ár. Hvatt er til öflugrar hreistursýnatöku og bættrar veiðiskráningar í vötnunum þremur. |