Ágrip
Á vatnasvæði Hörðudalsár árið 2024 veiddist 151 lax, meirihlutinn smálaxar og voru hrygnur í minnihluta, bæði hjá smálaxi og stórlaxi. Aldrei áður hafa veiðst jafn margir laxar á vatnasvæðinu og veiðin meira en tvöfaldaðist á milli ára og var um þrefalt langtímameðaltalið sem er 47 fiskar. Ríflega helmingi stórlaxa var sleppt í veiðinni en litlu hlutfalli smálaxa. Veiði á bleikju taldi 50 fiska sem var einungis um fimmtungur af langtímeðalveiði (257 fiskar) Hlutfall hrygna af kyngreindum bleikjum var tæplega 60% og öllum bleikjum að einni undanskilinni var landað. Ívið fleiri fiskar voru veiddir með maðki en flugu, bæði hjá laxi og bleikju
Hreistri var safnað af rúmlega 30% laxveiðinnar á vatnasvæðinu og voru öll sýnin af löxum í smálaxastærð. Engin sýni voru tekin af bleikju. Ferskvatnsaldur laxanna spannaði 2 – 5 ár, að meðaltali 3,5 ár og voru sýnin rakin til klakárganga 2017 – 2021 en klakárgangar 2019 og 2020 stóðu að mestu undir laxveiðinni 2024.
Á vöktunarstöðvum seiðamælinga veiddust 117 laxaseiði af fjórum aldurshópum, 45 bleikjuseiði af tveimur aldurshópum og tvö hornsíli. Samanlögð seiðavísitala allra aldurshópa laxaseiða var 12,7/100 m2 að meðaltali en vísitala sumargömlu seiðanna (0+) var yfir langtímameðaltali en vísitala veturgömlu (1+) seiðanna var langt undir því. Samanlögð vísitala beggja aldurshópa bleikjuseiða var 4,9/100 m2 að meðaltali en vísitala yngstu (0+) seiðanna var tvöfalt hærri en langtímameðaltalið og vísitala þeirra veturgömlu (1+) var jöfn því.
Sumargömul (0+) laxaseiði voru smá sumarið 2024 og var meðallengd þeirra 0,4 cm undir langtímameðaltali en veturgömlu (1+) seiðin voru jöfn meðaltalinu. Yngstu (0+) bleikjuseiðin voru 0,2 cm undir langtímameðaltali en þau veturgömlu (1+) voru töluvert yfir því.
Ofan fiskvegarins í Laugá veiddust fimm sumargömul (0+) laxaseiði og var meðallengd þeirra 3,2 cm. Auk þeirra veiddust tvö bleikjuseiði; annað sumargamalt (0+) 5,6 cm langt og hitt veturgamalt (1+) 11,4 cm langt.
Í rannsóknum á hrygningarsvæði bleikju í Vífilsdalskvísl og Hundasíki veiddist 71 bleikjuseiði, 5 laxaseiði og 29 hornsíli og að meðaltali var seiðavísitalan 17,3/100m2 hjá bleikju, 1,2/100m2 hjá laxi og 6,9/100m2 hjá hornsílum. |