Norðurá í Borgarfirði 2024 Vöktun á stofnum laxfiska

Nánari upplýsingar
Titill Norðurá í Borgarfirði 2024 Vöktun á stofnum laxfiska
Lýsing

Ágrip

Laxveiðin í Norðurá 2024 (1.703 fiskar) jókst um meira en helming frá veiði ársins 2023 og var nánast jöfn langtímameðaltalinu, meiri hlutinn smálaxar (85,5%) en hlutfall hrygna var lágt. Hlutdeild þess að veiða og sleppa lifandi laxi var 78,6% af heildarveiði.

Ganga á laxi og silungi upp fyrir teljarann í Glanna 2024 var yfir meðalgöngu en skráðir voru 2.122 smálaxar, 397 stórlaxar og 297 silungar. Mest var laxagangan í júlí en flestir silungar gengu í ágúst.

Reiknaður hrognafjöldi á svæðinu ofan við Glanna 2024 var 3,18 hrogn/m2, er lítillega yfir langtímameðaltali en nær ekki hrygningarmarkmiði (4,0 hrogn/m2).

Hreistri var safnað af 12,5% laxveiðinnar í Norðurá 2024 og 96% sýnanna voru úr náttúrulegu klaki árinnar og klakárgangar 2019 og 2020 uppistaða veiðinnar. Sjávarvöxtur smálaxa í veiðinni 2024 mældist meiri en árið 2023 en undir meðaltali. Laxar á endurtekinni hrygningu voru 2,9%. Um 4% sýna voru upprunnin úr gönguseiðasleppingum áranna 2022 og 2023 en um 30.000 seiðum var sleppt í Norðurá hvort ár um sig. Gönguseiðasleppingin frá 2022 er líklega full endurheimt og hefur skilað 0,51% endurheimtum í veiðinni en sleppingin frá 2023 hefur skilað 0,15% endurheimtum en er líklega ekki að fullu endurheimt.

Meðalvatnshiti við Glanna í Norðurá mánuðina apríl – september 2024 var í öllum tilfellum talsvert lægri en langtímameðaltal mánaða fyrir tímabilið 2012 – 2024. Mest var frávikið í í júní og ágúst.

Sumargömul (0+) laxaseiði voru 3,1 cm að meðaltali sem er 0,5 cm undir langtímameðaltali og hefur meðallengd aldurshópsins ekki mælst minni síðan 2015. Meðallengdir eldri aldurshópa voru einnig undir meðallagi.

Seiðavísitala hjá laxi á viðmiðunarstöðvum var 24,4/100 m2 sem er um 15,0% undir langtímameðaltali. Vísitala sumargamalla (0+) laxaseiða var 38,4% undir meðaltali og hefur ekki mælst jafn lág síðan 2015. Vísitala veturgömlu (1+) seiðanna var töluvert undir meðaltali en tveggja vetra seiðin voru yfir því.

Rannsókn á þeim hluta Sanddalsár er tilheyrir Dölum leiddi í ljós að svæðið nýtist laxi til hrygningar og seiðauppelds.

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Haf- og vatnarannsóknir (2016-)
Útgáfurit Haf- og vatnarannsóknir
Útgáfuár 2025
Tölublað 15
Blaðsíður 27
Útgefandi Hafrannsóknastofnun
ISSN 2298-9137
Leitarorð Norðurá, laxveiði, seiðamæling, lax, sjóbirtingur, ganga, fiskteljari, hrognafjöldi, klakárgangur, gönguseiðasleppingar, endurheimtur, hreistursýni, vatnshiti
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?