Lýsing |
Í skýrslunni er greint frá vöktunarrannsóknum í Langá á Mýrum árið 2024. Markmið þeirra er að afla þekkingar um stöðu laxfiskastofna árinnar með því að kanna útbreiðslu og magn seiðaungviðis laxfiska og meta fjölda fullvaxta laxfiska í ánni.
Samanlögð seiðavísitala allra aldurshópa laxaseiða í seiðarannsóknum haustið 2024 var 42,9 seiði/100 m2 en seiðavísitala bleikju var 0,9 seiði/100 m2 og þéttleikavísitala hornsíla 0,2 fiskar/100 m2. Fimm árgangar laxaseiða komu fram, frá sumargömlum seiðum (0+) til fjögurra ára (4+). Seiðavísitala 0+ seiða var 22,0 seiði/100 m2, nokkuð yfir langtíma meðaltali en öll árin 2017 – 2024 hefur fjöldi 0+ seiða mælst yfir meðaltali. Seiðavísitala ársgamalla (1+) seiða var 13,2/100 m2, rétt undir langtíma meðaltali. Þéttleiki tveggja ára seiða (2+) var 7,2 seiði/100 m2 nálægt meðaltali og þriggja ára 0,5/100 m2 nokkuð undir langtíma meðaltali.
Í Langá veiddust 1.292 laxar, sem skiptust í 1.211 smálaxa og 81 stórlax. Lax er ríkjandi í stangveiðinni, en auk laxa veiddust 38 bleikjur, 7 urriðar og 1 hnúðlax. Alls var 68,1% laxa sleppt í veiðinni 2024, þar af 66,1% smálaxa og 98,8% stórlaxa. Mikil aukning varð í veiði frá 2019 - 2023 er veiðin var 30 - 50% af meðalveiði og varð rétt undir meðalveiði (1.480 laxar) tímabilsins 1974 - 2024.
Heildargangan í Skuggafossteljaranum var 2.076 laxar, þar af 1.998 smálaxar og 78 stórlaxar og varð gangan lítillega yfir meðaltali göngunnar 2008 - 2024 (1.991 lax). Nokkuð af urriða gekk um teljarann (38) og einnig voru skráðar 2 bleikjur. Í Sveðjufossi voru taldir 384 laxar, þar af 363 smálaxar og 21 stórlax en talið er að mikið af laxi hafi stokkið yfir teljararammann vegna mikilla vatnavaxta og talningin þar af leiðandi ómarktæk.
Einn lax með eldiseinkenni kom fram í teljaranum við Skuggafoss, en ekki er vitað um uppruna þar sem sýni af laxinum náðist ekki.
Aldursgreining 74 hreistursýna leiddi í ljós að 64 laxar (86,5%) voru að ganga í fyrsta sinn til hrygningar og 9 sýni af löxum sem sýndu gotmerki í hreistrinu og þar af 8 laxar að ganga í annað sinn til hrygningar (10.8%) og einn lax í þriðja sinn til hrygningar (1,4%). Ferskvatnsaldur laxanna var á bilinu 2 ‒ 5 ár og reyndust þeir allir af náttúrulegum uppruna. Þriggja ára ferskvatnsaldur var algengastur (54,1%) en næst komu laxar með fjögurra ára ferskvatnsdvöl (36,5%). |