Ágrip
Í skýrslunni er greint frá vöktunarrannsóknum í Langá á Mýrum árið 2023. Markmið þeirra er að afla þekkingar um stöðu laxfiskastofna árinnar með því að kanna útbreiðslu og magn seiðaungviðis laxfiska og meta fjölda fullvaxta laxfiska í ánni.
Samanlögð seiðavísitala allra aldurshópa laxaseiða í seiðarannsóknum haustið 2023 var 63 seiði/100 m2 en seiðavísitala bleikju var 0,3 seiði/100 m2 og urriða 0,2/100 m2. Fjórir árgangar laxaseiða komu fram, frá 0+ til 3ja ára. Seiðavísitala 0+ seiða var 32,7 seiði/100 m2, langt yfir langtíma meðaltali en öll árin 2017 – 2023 hefur fjöldi 0+ seiða mælst yfir meðaltali. Seiðavísitala ársgamalla (1+) seiða var 23,5/100 m2, töluvert yfir langtíma meðaltali. Þéttleiki tveggja ára seiða (2+) var 4,9 seiði/100 m2, nokkuð undir langtíma meðaltali.
Í Langá veiddust 709 laxar, sem skiptust í 637 smálaxa og 72 stórlaxa. Lax er ríkjandi í stangveiðinni, en auk laxa veiddust 40 bleikjur, 5 urriðar og 2 hnúðlaxar. Alls var 47% laxa sleppt í veiðinni 2023, þar af 41,8% smálaxa og 93,1% stórlaxa. Laxveiðin er í hópi slökustu veiðiára og var hún 49% af meðalveiði (1.452 laxar) tímabilsins 1974 - 2023. Lægð hefur verið í veiðinni í Langá undanfarin 5 ár og hefur veiðin verið 30 - 50% undir meðalveiði.
Heildargangan í Skuggafossteljaranum var 606 laxar, þar af 501 smálax og 105 stórlaxar og er þetta minnsta ganga sem skráð hefur verið um teljarann. Nokkuð af urriða gekk um teljarann og einnig voru skráðar 2 bleikjur á uppleið og 1 áll á niðurleið. Í Sveðjufossi gengu 622 laxar, þar af 589 smálaxar og 33 stórlaxar. Engir eldislaxar úr sjókvíaeldi komu fram í teljaranum við Skuggafoss, en teljaranum var lokað í september til að koma í veg fyrir slíkar göngur.
Aldursgreining 60 hreistursýna sýndi 58 sýni af laxi sem var að ganga í fyrsta sinn til hrygningar og 2 sýni af löxum sem sýndu gotmerki í hreistrinu og voru að ganga í annað sinn til hrygningar. Ferskvatnsaldur laxanna var á bilinu 2 ‒ 5 ár og reyndust þeir allir af náttúrulegum uppruna. Þriggja ára ferskvatnsaldur var algengastur (58,3%) en næst komu laxar með fjögurra ára ferskvatnsdvöl |