Víðtækar breytingar í sjávarvistkerfum við Suðaustur-Grænland

Vísitala hafíssútbreiðslu við Suðaustur-Grænland 1820 – 2021, og myndræn lýsing á breytta útbreiðslu… Vísitala hafíssútbreiðslu við Suðaustur-Grænland 1820 – 2021, og myndræn lýsing á breytta útbreiðslu hvalategunda undanfarin ár.

Óvæntur fjöldi langreyða og hnúfubaka hafa haldið til undanfarin ár á áður ísílögðum hafsvæðum við Suðaustur-Grænland en þetta bendir til þess að umhverfisskilyrði og vistkerfi hafi farið fram yfir ákveðinn vendipunkt.

Vistkerfi við Suðaustur-Grænland einkenndust af miklu magni af rekís en hafa breyst mikið undanfarin ár og áratugi í átt að tempraðara kerfi með auknum sjávarhita og minni hafís sem nú er nánast horfinn yfir sumarmánuðina. Þessar breytingar gera svæðið að hentugra búsvæði fyrir hvalategundir eins og langreyði og hnúfubak, auk makríls, túnfisks og annarra uppsjávarfisktegunda en fækkað hefur í stofnum norðlægari tegunda á svæðinu, s.s. náhvala og rostunga.

Víðtækar breytingar á vistkerfum eins og þessar kallast „regime shift” á ensku, og geta verið óafturkræfar þegar kerfi fara fram fyrir ákveðinn vendipunkt (e. tipping point). Þættir eins og hörfun hafíss geta haft víðtæk áhrif á vistkerfi á stórum hafsvæðum.

Þetta eru niðurstöður nýrrar vísindarannsóknar sem birt var í alþjóðlega vísindaritinu Global Change Biology. Rannsókninni var stýrt af Mads Peter Heide Jørgensen hjá Greenland Institute of Natural Resources í Danmörku, í samvinnu við vísindamenn frá Danmörku, Grænlandi, Bandaríkjunum og Íslandi. Tveir sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar lögðu sitt af mörkum til rannsóknarinnar, Gísli Víkingsson hvalasérfræðingur, og Andreas Macrander hafeðlisfræðingur.

Rannsóknin byggir á fjölmörgum langtímaathugunum, þar á meðal mælingum á stofnstærð og útbreiðslu hvala- og fisktegunda, athugunum á hafís og mælingum á hita og seltu sjávar. Mæligögn frá stöðinni "Faxaflói 9" sem Hafrannsóknastofnun aflaði síðastliðin 50 ár í reglubundnum mælingum á ástandi sjávar voru notuð til að meta breytingar á hitastigi og seltu í Irmingerhafinu. Mælingar Hafrannsóknastofnunar á makríl og loðnu voru nýttar í að kortleggja breytta útbreiðslu uppsjávarfiska í tengslum við við hækkandi hitastig sjávar.

Hvarf hafíss við Suðaustur-Grænland á sér engin fordæmi undanfarin 200 ár þegar mælingar á hafís að sumarlagi lágu fyrir á þessu svæði. „Ný skilyrði munu líklega verða varanleg um ókomna framtíð, nema hitastig lækki og rek hafíss frá Norður-Íshafinu aukist aftur. Samkvæmt nýlegum skýrslum IPCC gera áframhaldandi loftslagsbreytingar á 21. öld þá atburðarás ólíklega,“ segir prófessor Mads Peter Heide-Jørgensen.

Rannsóknin er hluti af verkefninu ECOTIP sem styrkt er af ESB og er verkefni Norðurlandaráðs sem rannsakar tengsl milli breyttra haffræðilegra aðstæðna og fiskveiða á Austur-Grænlandi (AG-Fisk LEGCO). Eitt helsta markmið ECOTIP er að auka skilning á mögulegum vendipunktum í vistkerfum í Norður-Atlantshafi.

Hlekkur á grein:

Heide-Jørgensen, M. P., Chambault, P., Jansen, T., Gjelstrup, C. V. B., Rosing-Asvid, A., Macrander, A., Víkingsson, G., Zhang, X., Andresen, C. S., & MacKenzie, B. R. (2022). A regime shift in the Southeast Greenland marine ecosystem. Global Change Biology, 00, 1–18. 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?