Stjórn vatnamála

Ljósm. Eydís Salóme Eiríksdóttir. Ljósm. Eydís Salóme Eiríksdóttir.

Hafrannsóknastofnun hefur á undanförnum árum komið að verkefnum sem snúa að innleiðingu laga um stjórn vatnamála. Sú vinna hefur verið nýtt við gerð fyrstu vatnaáætlunar fyrir Ísland sem Umhverfisstofnun leggur nú fram til kynningar, en vatnaáætlun felur í sér stefnumörkun um vatnsvernd. Hluti af vatnaáætlun er aðgerðaáætlun þar sem settar eru fram aðgerðir til að tryggja gott ástand vatns og vöktunaráætlun þar sem markmiðið er m.a. að samræma vöktun á vatni um allt land. Lög um stjórn vatnamála innleiða nýja nálgun í vatnsvernd hér á landi. Lögunum er ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar.

Mikið samráð og samtal hefur farið fram við gerð vatnaáætlunar og hefst nú formlegt opið kynningarferli sem stendur yfir næstu sex mánuðina. Nú er tækifæri til að koma á framfæri ábendingum en vatnaáætlun ásamt aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun munu gilda til sex ára í senn.

Frekari upplýsingar um vatnaáætlun eru inni á vefsíðunni vatn.is

Gerður er fyrirvari um fjármögnun þeirrar áætlunar sem hér er lögð fram.

Ábendingar og athugasemdir skal senda á ust@ust.is merkt „Stjórn vatnamála“ eða til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. Tillögurnar eru kynntar á vefnum vatn.is en einnig liggja þær frammi á skrifstofu Umhverfisstofnunar.

Frestur til að senda inn ábendingar og athugasemdir eru sex mánuðir eða til og með 15. júní 2021.

Áætlanirnar má sjá hér:
Vatnaáætlun
Aðgerðaáætlun
Vöktunaráætlun
Umhverfisskýrsla


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?